föstudagur, október 29, 2004

Í fréttum: John Peel er fallinn frá

Í vikunni féll frá áhrifamesti útvarpsmaður breta, John Peel. Hann hafði ómælanleg áhrif með útvarpsþáttum sínum á breska tónlistarflóru með því að grafa stöðugt upp áhugavert efni í þáttum sínum auk þess sem hann bauð ungum sveitum reglulega að spila beint í hljóðveri BBC. Í mörgum tilfellum náði hann að draga fram kjarna tónlistarinnar með þessum upptökum, sem síðar meir voru gefnar undir nafni hverrar sveitar með viðskeytinu "The Peel Sessions".

Sjálfur get ég ekki sagt að ég syrgi með bresku þjóðinni því ég náði aldrei að hlusta almennilega á þættina hans. Ég er í rauninni þeim mun fúlli yfir þeirri tilhugsun að einmitt í vikunni er ég að uppfæra tölvuna mína og netsamband meðal annars með það í huga að geta hlustað á útvarp hvaðanæva úr heiminum, sérstaklega John Peel. Þetta var upphlaðin fimmtán ára tilhlökkun sem héðan í frá verður ekki af - að minnsta kosti ekki í beinni.

Fyrir þá sem vilja forvitnast er hægt að lesa sig til um eitt og annað varðandi John Peel. Fyrst má nefna all ítarlegt yfirlit yfir þá geisladiska sem hann gaf út undir yfirskrift the Peel Sessions. Annars staðar má finna áhugaverðan lista yfir þær hljómsveitir og lög sem Peel kom á framfæri í þætti sínum. Formleg heimasíða hans hjá BBC er einnig á sínum stað auk þess sem minningargreinar og viðbrögð tónlistarmanna og velunnara við skyndilegt fráfall John Peel streyma inn til stöðvarinnar. Til marks um mikilvægi John Peel í bresku tónlistarlífi mun eitt tónleikatjaldið á Glastonburyhátíðinni muni hér eftir kallast the John Peel tent og er það vel við hæfi.

mánudagur, október 25, 2004

Fréttnæmt: Bústaðarferð á Arnarstapa

Ég kem sem endurnýjaður í vinnuna á mánudagsmorgni eftir afslappandi dvöl á Arnarstapa. Þar gistum við Vigdís í sumarbústað sem systir hennar leigði yfir helgina. Reyndar var mannmargt í húsinu, rúmlega hálf fjölskyldan hennar - með tilheyrandi partísveiflu, pottadvöl og viðhafnarmáltíð, en mér tókst inn á milli að leggja mig og hvílast rækilega. Ég lagði mig oft. Þess á milli fór ég í göngutúra, meðal annars upp á hrygg Arnarstapa að aftanverðu. Það vakti upp gamlar kenndir úr landvörslunni. Mig langar eindregið að leggja meiri rækt við náttúrupríl og fjallgöngur. Á heimleiðinni á sunnudaginn tókum við lífinu með ró og stoppuðum við hvert tækifæri a leið okkar um nesið ýmist vegna útsýnis eða kaffifreistinga. Svoleiðis á það að vera.

miðvikudagur, október 20, 2004

Matur: Hvítlauksbrauð með Coctail-sósu

Mamma og pabbi voru að fá sér nýjan og glæsilegan bíl, Honda Civic jeppa, og ákváðu að hitta okkur Vigdísi í bænum, bæði til að sýna okkur gripinn og bjóða okkur að borða á Ruby Tuesday. Skammturinn á Ruby er á ameríska vísu, vel útilátinn, þannig að diskurinn minnir á hlaðborð. Ég fékk mér myndarlega fiskisamloku með frönskum og hvítlauksbrauði en þau hin fengu sér grísarifjasteik. Hvítlauksbrauðið vakti mikla lukku. Ég fékk það borið fram með Coctail-sósu. Frekar ólíkleg samsetning til árangurs en bragðaðist merkilega vel. Eftir góða máltíð (og "Doggy bag" um hönd) renndum við öll einn hring á nýja bílnum áður en við fórum heim.

mánudagur, október 18, 2004

Upplifun: Fyrsti vetrardagurinn

Rétt fyrir helgi tók ég eftir því hvað stéttin var þéttskipuð laufi. Mér varð litið upp og sá að það var nánast ekkert eftir í trjánum og hugsaði með mér: “Nú er haustið að klárast”. Viti menn, núna á mánudagsmorgni hnykkti veðrið á þessum orðum mínum með fíngerðum snjó sem fauk um í nöprum næðingi. Mikið var þetta kuldalegur morgunn. Fyrsti vetrardagur skólaársins.

Fréttnæmt: Kattaofnæmi sýnir klærnar

Ég var í heimsókn hjá vini mínum í gær og varð viðþolslaus eftir um það bil hálftíma, byrjaði að hnerra og fann fyrir logandi kláða í augum - allur pakkinn. Varð nánast að flýja út. Hálftíma seinna voru óþægindin liðin hjá eins snögglega og þau gerðu vart við sig. Þetta hef ég upplifað áður á sama stað þannig að það er ljóslega eitthvað þarna inni sem espir þessi viðbrögð upp. Líklegasta orsökin er tveir litlir kettir sem trítla um í hægðum sínum. Ekki kannast ég við að hafa nokkurn tímann haft ofnæmi fyrir köttum (hef meira að segja haft kött á eigin heimili). Mér skilst að ofnæmi getur bæði komið og farið á fullorðinsárum. Einnig getur þetta verið bundið einstökum kattategundum. Ég vona það frekar.

föstudagur, október 15, 2004

Upplifun: Svefnleysiskafli

Í gær gerði ég ekkert nema að sofa. Kom heim eftir vinnu ásamt Vigdísi og við steinlágum fram að fréttum. Löguðum svo létta súpu, horfðum aðeins meira á sjónvarpið og svo klifraði ég aftur upp í, fyrir klukkan ellefu, á meðan hún vakti aðeins áfram. Af hverju þessi þreyta? Því olli tvöföld vinnutörn (skólinn og sambýlið), sem hjá mér kemur nokkra daga í senn á tveggja vikna fresti. Einnig kenni ég kæruleysi um því ég leyfði mér vaka fram eftir yfir bók á mánudaginn var einmitt þegar ég hefði átt að vinna mér inn góðan nætursvefn. Við þetta bættist að ég var búinn að bóka mig á tónleika (Dúndurfréttir - frábær hljómsveit) á miðvikudaginn eftir vinnu og komst ekki heim þann "daginn" fyrr en hálf tvö um nóttina.

Ef ég gæti ekki að mér í þessum törnum verð ég ónýtur í nokkra daga í senn. Hversdagurinn verður að ómarkvissu sleni þegar allur uppbyggilegur rythmi riðlast. Ég horfi því með löngunaraugum til áramóta því þá klára ég uppsagnarfrestinn á sambýlinu og get loksins farið að njóta þess að vinna bara á daginn. Það hef ég ekki upplifað árum saman.

miðvikudagur, október 13, 2004

Netið: Frumefnahetjur

Ég má til að benda á bráðsnjalla hugmynd sem birtist á heimasíðunni Chemcomics. Þar eru ýmsar hasarhetjur teiknimyndaheimsins flokkaðar eftir frumefnum! Yfirnáttúrulega hæfileika þeirra má semsagt rekja til þess hvernig þeir meðhöndla frumefnin og eftir því er þeim raðað í lotukerfið. Hugmyndin er snilld og útfærslan prýðileg.


sunnudagur, október 10, 2004

Tónlist: Hlustunarkvöld. Thin White Rope

Ein af uppáhaldshljómsveitum mínum, Thin White Rope, er ekki á hvers manns vörum. Ég sá hana á lokatónleikum þeirra 1992 en þá voru þeir búnir að starfa saman í tæpan áratug. Stíll þeirra einkennist af feedback-surgi og angurværum amerískum sveitahljóm þar sem tveir gítarleikarar, bassi og gítar tala saman líkt og snákar sem hringa sig utan um hvern annan. Ég bý náttúrulega á jaðri heimsins en á þessu skeri hef ég hingað til ekki vitað um neinn til að deila hrifningu minni með, sama hversu oft ég otaði bandinu að öðrum, - þar til fyrir rúmu ári síðan. Hendrix og Nick Cave aðdáandinn Einar vann næturvaktir á sambýlinu í Vættaborgum um tíma. Hann virtist heillast af Thin White Rope þegar ég lánaði honum tvo diska. Löngu síðar hitti ég hann fyrir tilviljun á kaffihúsi og lofaði ég honum þá að fá að heyra meira. Hugmyndin þróaðist hratt upp í hlustunarkvöld heima hjá mér ásamt sameiginlegum vinnufélaga okkar, Halldóri. Í gær komu þeir saman rétt fyrir miðnætti og kinkuðu íbyggnir kolli við að heyra tónlistina sem hefur svo lengi hrifið mig. Við þetta bættist, þegar á leið nóttina, tónlist á borð við sýrða Pink Floyd, gruggugan Hendrix, Stone Roses, Cream, Spiritualized og annað í þeim dúr, svolgrað niður með kaffi, pilsner og te (í þessari röð) - nánast fram í rautt morgunsárið.

laugardagur, október 09, 2004

Lestur. Uppgötvun: Grafískar sögur.

Vigdís vinnur næturvaktir þessa helgina. Ég húmi heima í rökkrinu og reyni að hafa það notalegt á meðan. Það er svolítið undarlegt að vera svona einn þegar maður hefur vanist að búa með einhverjum. Persónulega grípur mig þörf fyrir að gera eitthvað óvenjulegt, eitthvað sem myndi ekki höfða til Vigdísar, - eitthvað sem annars væri ófélagslegt, skulum við segja. Stundum vinn ég í tölvunni við einhver hugðarefni eða sest niður og sekk ofan í bók – eða hlusta á skrýtna tónlist. Í kvöld datt ég hins vegar inn á snilldarlega afþreyingu. Þar sem ég var of þreyttur til að gera nokkuð krefjandi, og nennti ekki að horfa á sjónvarpið, fór ég að gramsa í gömlum kössum með teiknimyndasögublöðum. Þarna voru Tarzan, Spider-man, Batman og allar þessar hetjur. Fyrst kímdi ég við að sjá gömlu blöðin og handlék þau gegnum nostalgíuna en varð brátt fyrir vonbrigðum, því mér fannst sögurnar sjálfar ekki sérlega áhugaverðar. Eftir þó nokkrar flettingar greip mig hins vegar svart/hvít skáldsaga sem heitir Sin City. Þetta er tímamótaverk sem gerði teiknimyndasögur að sannkölluðu listformi og er af mörgum talið einn af hápunktum svokallaðra myndrænna skáldsagna (e. graphic novels). Hana keypti ég fyrir ábyggilega um tíu árum og hef alla tíð heillast af myndræna þættinum. Ég hef hingað til handleikið hana eins og ódauðlegt málverk. Núna settist ég hins vegar niður í húminu, sötraði Pilsner og hlustaði á eldgamla Nick Cave plötu og annað í þeim dúr á meðan ég las. Ég fann hvernig grafíska sagnaformið sameinaði snilldarlega helstu kosti bóka og kvikmynda.

þriðjudagur, október 05, 2004

Upplifun: Veður. Hvasst haust.

Þetta er nú meira rokið. Það er búið að blása nær linnulaust í tvær til þrjár vikur. Í gær gusaðist særokið yfir Sæbrautina á meðan hrikti í bílum. Maður var hálf smeykur á leiðinni milli húsa. Mikil viðbrigði frá sumrinu sem var svo gott. Ætli hlýtt sumar geti af sér hvasst haust? Það er víst orka sólar sem knýr vindana áfram.

Fréttnæmt: Skólastarf hafið á ný

Ég byrjaði að kenna í gær. Skólinn minn er hluti af meðferðarúrræði Barna- og unglingageðdeildar (sem er í næsta húsi) og vorum við því einn fimm skóla sem fengu undanþágu frá verkfallinu. Satt að segja var ég ekki alveg tilbúinn. Þetta gerðist allt mjög hratt og ég hafði engin tök á að undirbúa mig og kom (líkt og aðrir kennarar skólans) svolítið "kaldur" til leiks. Dagurinn gekk frekar illa, eftir aðstæðum, enda eru nemendur skólans mjög erfiðir og ganga á lagið ef ramminn er ekki þeim mun skýrari.