föstudagur, október 29, 2004

Í fréttum: John Peel er fallinn frá

Í vikunni féll frá áhrifamesti útvarpsmaður breta, John Peel. Hann hafði ómælanleg áhrif með útvarpsþáttum sínum á breska tónlistarflóru með því að grafa stöðugt upp áhugavert efni í þáttum sínum auk þess sem hann bauð ungum sveitum reglulega að spila beint í hljóðveri BBC. Í mörgum tilfellum náði hann að draga fram kjarna tónlistarinnar með þessum upptökum, sem síðar meir voru gefnar undir nafni hverrar sveitar með viðskeytinu "The Peel Sessions".

Sjálfur get ég ekki sagt að ég syrgi með bresku þjóðinni því ég náði aldrei að hlusta almennilega á þættina hans. Ég er í rauninni þeim mun fúlli yfir þeirri tilhugsun að einmitt í vikunni er ég að uppfæra tölvuna mína og netsamband meðal annars með það í huga að geta hlustað á útvarp hvaðanæva úr heiminum, sérstaklega John Peel. Þetta var upphlaðin fimmtán ára tilhlökkun sem héðan í frá verður ekki af - að minnsta kosti ekki í beinni.

Fyrir þá sem vilja forvitnast er hægt að lesa sig til um eitt og annað varðandi John Peel. Fyrst má nefna all ítarlegt yfirlit yfir þá geisladiska sem hann gaf út undir yfirskrift the Peel Sessions. Annars staðar má finna áhugaverðan lista yfir þær hljómsveitir og lög sem Peel kom á framfæri í þætti sínum. Formleg heimasíða hans hjá BBC er einnig á sínum stað auk þess sem minningargreinar og viðbrögð tónlistarmanna og velunnara við skyndilegt fráfall John Peel streyma inn til stöðvarinnar. Til marks um mikilvægi John Peel í bresku tónlistarlífi mun eitt tónleikatjaldið á Glastonburyhátíðinni muni hér eftir kallast the John Peel tent og er það vel við hæfi.

Engin ummæli: