Í gær gerði ég ekkert nema að sofa. Kom heim eftir vinnu ásamt Vigdísi og við steinlágum fram að fréttum. Löguðum svo létta súpu, horfðum aðeins meira á sjónvarpið og svo klifraði ég aftur upp í, fyrir klukkan ellefu, á meðan hún vakti aðeins áfram. Af hverju þessi þreyta? Því olli tvöföld vinnutörn (skólinn og sambýlið), sem hjá mér kemur nokkra daga í senn á tveggja vikna fresti. Einnig kenni ég kæruleysi um því ég leyfði mér vaka fram eftir yfir bók á mánudaginn var einmitt þegar ég hefði átt að vinna mér inn góðan nætursvefn. Við þetta bættist að ég var búinn að bóka mig á tónleika (Dúndurfréttir - frábær hljómsveit) á miðvikudaginn eftir vinnu og komst ekki heim þann "daginn" fyrr en hálf tvö um nóttina.
Ef ég gæti ekki að mér í þessum törnum verð ég ónýtur í nokkra daga í senn. Hversdagurinn verður að ómarkvissu sleni þegar allur uppbyggilegur rythmi riðlast. Ég horfi því með löngunaraugum til áramóta því þá klára ég uppsagnarfrestinn á sambýlinu og get loksins farið að njóta þess að vinna bara á daginn. Það hef ég ekki upplifað árum saman.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli