föstudagur, apríl 28, 2006

Tónleikar: The Wedding Present

Ég fór á geggjaða tónleika í gærkvöldi. Hljómsveitin the Wedding Present kom loksins til landsins, tuttugu árum eftir að hún var stofnuð. Þetta er tónlist sem ég hélt upp á á "sokkabandsárum" mínum (þ.e. áhugi minn á rokktónlist var að byrja - viðhorfin voru á fullu að gerjast og ég galopinn og móttækilegur). Á þessum tíma kynntist maður fullt af frábærum böndum sem enn þann dag í dag teljast flest til "cult" sveita (sem aðeins hinir fáu útvöldu hafa meðtekið, ef svo mætti að orði komast). Mér nægir að nefna Pixies, Sonic Youth, the Fall, Felt, Triffids, My Bloody Valentine, A House, Camper Van Beethoven, Thin White Rope, Chumbawamba (löngu áður en þeir slógu í gegn með "Tubthumping") ásamt the Wedding Present. Þær tvær fyrstnefndu hafa vaxið talsvert í metorðum og frama síðan fyrir tuttugu árum. Goðsagnakennd nöfn þeirra hafa borist mann fram af manni eins og viska aldanna. Þær komu báðar nýlega til landsins og héldu báðar tvenna tónleika. Pixies fyllti Kaplakrikann tvívegis en Sonic Youth spilaði á þéttskipaðri Nösu í tvígang. The Wedding Present er neðar í metorðastiga almennings en þessar tvær sveitir. Satt að segja þá þekkja fáir nafn sveitarinnar. Tónleikarnir voru því auglýstir mjög takmarkað. Sumir tónleikagesta komu reyndar af fjöllum þegar þeir ráku augun í nafn sveitarinar í Mogganum tveimur dögum fyrir tónleika, svo lítið var fjallað um þá. Sveitin hélt sig því af raunsæi við afar lítinn stað, Grand Rokk, þar sem rétt rúmlega tvöhundruð manns geta aðhafst með góðum vilja uppi á efri hæðinni. Þetta var eitt af því sem gerði tónleikana nánari og þéttari. Maður stóð uppi við sviðið og hefði alveg getað tekið í spaðann á söngvaranum Gedge. En það var enginn tími til þess. Hann var of ákafur í flutningi sínum og við áhorfendur á fullu í spastískum krampadans yfir brjálæðislega rytmískri tónlistinni. Þetta er ein af bestu tónleikaupplifunum mínum á síðari árum, án vafa. Tónlistinni mætti líkja við þjóðlagatónlist sem spiluð er á hjólsög - með virkilegu neistaflugi. Þetta er beinskeytt rokk þar sem frasarnir ganga fyrirsjáanlega en mjög stefnufast í hringi og magnast upp í átt að hápunkti, eins og hraðskreiður sportbíll sem bíður þess að lenda á vegg. Ég kom heim örmagna og átti bágt með að bograst um án þess að hrynja af þreytu áður en ég komst upp í rúm, með suð í eyrunum og sælusvip.

sunnudagur, apríl 23, 2006

Netið: Uppfærsla á vefsvæðinu

Ég tók mig til og uppfærði umfjöllun mína um svokölluð "orðamisskipti". Þetta er heimatilbúið nýyrði sem ég varð að búa til í tilefni af þessari umfjöllun. Þeir sem kíkja átta sig á eðli og merkingu orðsins. Einnig minni ég á að ég var rétt í þessu að setja inn helling af myndum á myndasvæðið.

laugardagur, apríl 22, 2006

Pæling: Miðakaup til Oslo

Við Vigdís förum í ferðalag saman í byrjun júní til Danmerkur og þaðan fer ég til Osló í nokkurra daga vettvangsferð á vegum vinnunnar. Við komum til með að njóta gestrisni Kristjáns og Stellu á meðan við erum í Köben og hlökkum mikið til. Þar verður eflaust margt skemmtilegt brallað. Það er langt síðan við Vigdís fórum saman út og Danmörk er alltaf jafn góður áningarstaður. Þangað hef ég ekki farið í tæp tíu ár (sem mér finnst ótrúlegt miðað við hvað ég var oft þar á tímabili).

Eftir þriggja daga dvöl okkar Vigdísar saman í Köben fer ég, eins og áður sagði, til Osló á vegum vinnunnar. Þar hefst eiginlegur vinnudagur þar sem Brúarskóli kemur saman til að skoða starfsemi annarra skóla í nágrenni Oslóborgar sem starfa
á svipuðum forsendum og við. En til að komast þangað þurfti ég að redda mér flugmiða. Mig langar að greina svolítið nánar frá því vegna afar vafasamra viðskiptahátta Sterling-flugfélagsins á netinu.

Sterling flugfélagið átti mjög ódýran miða 6. júní til Osló á 58 danskar krónur. Við þær bættist flugvallaskattur upp á 202 danskar krónur þannig að heildarverð miðans var 260 danskar krónur. Bara fínt. Þetta gaf flugfélagið mjög skýrt upp á frumstigum kaupanna og bauð mér að halda áfram. Á næsta stigi var komið að mér að gefa upp greiðslumátann og kortanúmer. Þegar ég var búinn að því kom að lokasíðunni í ferlinu, sem var staðfesting á kaupunum. Sterling kom mér þar algerlega í opna skjöldu með því að birta þar nýtt heildarverð þar sem búið var að bæta við 79 d.kr forfallatryggingu sem ég kannaðist ekki við að hafa beðið um (enda höfðu þeir áður gefið upp fullt verð 260 dkr.). Hver þarf forfallatryggingu fyrir svona ódýran miða? Það sem verra var, flugfélagið tók fram að ég þyrfti ekki á þessu stigi að staðfesta. Þetta væri sjálfvirk staðfesting frá þeim, en ekki mér. Viðskiptum lokið!

Furðulegir og lúalegir viðskiptahættir. Ég ákvað að skoða þetta allt frá aftur byrjun (án þess að gefa upp greiðslukort, að sjálfsögðu) og sjá hvað mér hafði mögulega yfirsést. Í ljós kom við nánari skoðun að á "greiðslustiginu" hefði verið mögulegt að "haka af" forfallatryggingu, sem annars bættist sjálfkrafa við. Þetta er ég afar ósáttur við. Á þessari síðu á alls ekki að bæta við nýjum greiðslulið, að mínu mati, heldur snýst síðan einungis um það hvernig maður fari að því að borga uppsett verð frá síðunni á undan. Spurning hvort þetta séu yfir höfuð löglegir viðskiptahættir? Reyndar er ekki um að ræða háa upphæð en manni finnst þetta afskaplega lélegt.

Ég leitaði strax að tölvupósti til að láta vanþóknun mína í ljós gagnvart þeim sjálfum en komst að því jafnframt að það væri heldur ekki í boði. Vægast sagt óeðlilegt hjá fyrirtæki sem gerir út á netviðskipti, svo að ekki sé meira sagt.

laugardagur, apríl 15, 2006

Upplifun: Tónleikar og uppákoma

Við Einar Hrafn fórum á tónleika með Bubba á fimmtudaginn var. Hann er með tónleikaröð í bígerð á Nasa næstu misserin þar sem tekin verður fyrir ein plata sérstaklega í hvert skipti. Þetta voru fyrstu tónleikar raðarinnar og kallinn reið á vaðið með "Konu" sem er í þó nokkru uppáhaldi hjá mér (eins og svo mörgum öðrum). Ég hef efasemdir um Bubba á ýmsum sviðum, til dæmis finnst mér hann ekki sannfærandi sem rokkari í dag, en hann svíkur aldrei þegar hann er einn uppi á sviði með gítarinn. Í þessu hlutverki er hann eins og aldagamall seiðmaður og fyllir salinn með nærveru sinni og sögum.

Bubbi tók plötuna fyrir í afmældum skömmtum, spilaði tvö til þrjú lög í einu, og tók eitthvað annað þess á milli til að brjóta plötuna upp. Honum fannst "Kona" aðeins of stór skammtur af sjálfsvorkunn. Sjálfur hefði ég helst viljað heyra hana í einni bendu en tók þessari nálgun að sjálfsögðu með stillingu. Miðað við stemningu salarins er "Rómeó og Júlía" augljóslega það lag sem lifir lengst út fyrir mörk plötunnar, því áhorfendur kyrjuðu það saman af miklum móð. Að öðru leyti voru þetta hófstilltir tónleikar þar sem Bubbi fór á kostum á milli laga, eins og honum er einum lagið. Skemmtunin okkar Einars var þó að nokkru leyti lævi blandin. Fyrir aftan okkur sat einhver rumpulýður sem talað hátt, skvaldraði, talaði ótt og títt í gemsa og hafði greinilega meiri áhuga á því að fara á fyllerí en að hlusta á Bubba. Þeir öngruðu alla nærstadda og svöruðu með dólgslátum ef á þá var yrt. Við Einar gáfumst upp á að sitja þar sem við vorum, á fínum stað á gólfinu, eftir um klukkutíma dvöl og röltum um svæðið nokkra stund og horfðum á Bubba frá öðrum sjónarhóli, áður en yfir lauk. Það var bara ágætt til tilbreytingar. Eftir eins og hálfs tíma tónleika var komið að uppklappinu. Bubbi setti "autopilotinn" á með því að spila "Stál og hníf". Salurinn tók kröftuglega undir og við Einar læddumst út, sáttir við okkar hlut.

Utandyra tók hins vegar við svolítið furðuleg uppákoma. Náungi sem hafði verið fyrir aftan vandræðaeggina gaf sig á tal við okkur og þóttist hafa tekið eftir óþægindum sem við urðum fyrir. Hann hafði átt í orðaskaki við gaurana og átti von á því að þeir kæmu út til að leita að slagsmálum. Hann var þarna hálf óttasleginn ásamt kærustu sinni og nokkrum vinum þar sem við röltum burt frá Nösu. Þau litu þau flóttalega í kringum sig og töldu víst að gaurnir væru að koma og byrjuðu svo skyndilega að hlaupa fyrir næsta horn og í burtu. Við Einar spáðum ekkert frekar í hlutina en skokkuðum með þeim í humátt (svokallaða) og inn í bíl. Bærinn virkaði ekki nægilega friðsamur þetta kvöldið til að ala manninn þar lengur. Þetta er víst uppskriftin að þessum "tilefnislausu árásum" sem maður heyrir svo oft um. Einar keyrði mig út úr miðbæjarkjarnanum og þaðan ákvað ég að rölta heim í góðu veðri rétt fyrir miðnætti. Ég lá nokkra stund á koddanum og hugsaði um þetta, hvernig fátækleg löggæsla stuðlar að því að svona gaurar hafa allt í hendi sér.

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Tónlist: Innrásin frá Mars - á Rás 2

Ég var að heyra í útvarpinu að Rás 2 ætli að útvarpa mjög sérstökum tónleikum sem þeir héldu í febrúar síðastliðnum. Þeir tóku þá fyrir tónverkið "Innrásin frá Mars" (War of the Worlds) eftir Jeff Wayne (byggt á sögu H.G. Wells). Þessi tónlist kom upphaflega út á plötu seint á áttunda áratugnum og sló rækilega í gegn með sínu magnaða leiðarastefi. Hægt er að hlusta á þessa tónlist í heild sinni á heimasíðu helgaða tónverkinu og sögunni. Þar kemur meðal annars fram að til standi í fyrsta skipti í öll þessi ár að gera hið óumflýjanlega, að setja verkið upp sem söngleik. Það ríkir talsverð eftirvænting fyrir þessari uppfærslu en mér er hins vegar til efs að útkoman eigi eftir að verða stórbrotnari en hjá sinfóníunni í febrúar. Þar lagðist allt á eitt, frábært flutningur, flottur leiklestur og ekki síst mögnuð þýðing Gísla Rúnars. Ég missti reyndar af tónleikunum vegna þess að ég hafði ekki trú á að þetta gengi upp. Ég gat ekki ímyndað mér að hægt væri að þýða upprunalegan texta H.G.Wells svo vel að unun væri á að hlýða. Ég tók tónleikana hins vegar upp þegar þeim var upphaflega útvarpað í beinni og hef hlustað á þá í bílnum vikum saman. Ég mana fólk til að gera slíkt hið sama á sunnudaginn kemur, eftir fjögurfréttir.


"The chances of anything man-like on Mars, are a million to one, he said"
(upprunalegur texti H.G. Wells þar sem vísindamaður veltir með sögumanni vöngum um hin dularfullu ljós frá Mars)

"The chances of anything coming from Mars, are a million to one, he said"
(stílfærður texti söngleiksins, notaður sem leiðandi stef)

"Líkurnar á því að líf sé á Mars, eru langsóttar mjög, hann kvað"
(þýðing Gísla Rúnars í akkúrat réttum takti við tónlist Jeff Wayne)

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Pæling: Fortíðarlist og aldaspeglar

Það þýðir víst lítið fyrir okkur Vigdísi að stökkva út á leigu og ná í bíómynd til að horfa á á kvöldin. Við erum syfjuð mjög snemma og á það einkum við um Vigdísi sem fer yfirleitt fljótlega að sofa eftir að Signý lokar augunum um níuleytið. Þær tvær þurfa víst að vera samstíga brjóstagjöfinni á næturnar líka (á meðan ég get blessunarlega sofið blíðum nætursvefni). Undanfarnar vikur höfum við Vigdís fyrir vikið lítið horft á nýlegar bíómyndir en höfum í staðinn tekið okkur til og horft á nokkrar gamlar DVD myndir (sem við lúrum á vikum saman að láni hjá hinum og þessum). "Gamalt" er í mínum huga allt það sem framleitt var á níunda áratugnum og fyrr - þegar snúrusímarnir voru allsráðandi, tölvurnar með grænum skjá (ef þær voru yfirhöfuð komnar), klæðaburður allt annar og hraðinn minni. Svo breytist náttúrulega "gamli tíminn" stig af stigi eftir því sem aftar dragur. En síðasti stóri vendipunkturinn á sviði kvikmyndalistar var að mínu mati á fyrri hluta tíunda áratugarins með innkomu stafrænnar tækni, þrívíddar brellum og gengdarlauss hasars og tilheyrandi yfirborðsmennsku. Ég horfi því oft með nostalgíu á "gömlu" myndirnar sem lögðu meira upp úr innihaldi en umgjörð. Stundum geng ég svo langt að skoða sérstaklega "tímanna tákn", þ.e.a.s. ýmsa leikmuni, áhöld, landslag í bakgrunni, skilti, talsmáta, tísku. Þannig getur myndin oft verið eins og lifandi gluggi inn í fortíðina, fyrir utan það að vera prýðis skemmtun að öðru leyti. Hér eru því nokkrar slíkar myndir sem við Vigdís höfum nýlega "gægst inn í" (ef svo má að orði komast):

North by Northwest 1959
The Great Escape 1963 (lýsir þó atburðum frá seinna stríði)
Close Encounters 1977
Flashdance 1983
Sex, Lies and Videotapes 1989

Ágætis stikkprufur af hinum ýmsu áratugum svosem og allar hafa þær því sinn sérstaka sjarma, sem er svo skemmtilegt. Svo er ein á leiðinni í tækið, meistaraverkið Raging Bull (1980), sem ég var allt of ungur til að njóta á sínum tíma. Prýðilegt að geta svona löngu seinna "spólað til baka", eftir hentisemi, og upplifað það sem maður missti af.

laugardagur, apríl 08, 2006

Sjónvarpið: Uppskeruhátíð

Nú er ein allsherjar uppskeruhátíð í menningarlífi þjóðarinnar. Einu og sömu helgina er sjónvarpað úrslitum í "Gettu betur", Idol-inu og söngvakeppni framhaldsskólanna. Í mínum huga hafa þessir þrír atburðir, ásamt úrslitum í Eurovision, verið nátengdir vorkomunni. Reyndar er enn kalt í veðri, en það verður bjartara með hverjum deginum, sem betur fer. Við Vigdís hlökkum til að horfa á unglingana spreyta sig á söngatriðum í kvöld en þau úrslit eru höfð í hávegum á okkar heimili. Hið eina sanna karnival á meðal uppskeruhátíða.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Netið: Vefvarp framtíðarinnar?

Veraldarvefurinn er sífellt að stækka og þróast. Fyrst var Amazon eina síðan af viti á netinu og flestar aðrar voru lítið annað en fátæklegar eftirlíkingar af bókum eða öðru prentuðu efni. Nú eru hins vegar að koma fram snilldarlegar síður í hrönnum sem nýta til fullnustu gagnvirkni og önnur séreiginleika miðilsins sem ekki er hægt að gera skil með öðrum hætti. Til dæmis vefútvarp þar sem hlustandinn getur haft áhrif á útsendinguna. Vegna ýmissa lagalegra hafta má vefútvarp ekki vera fyllilega gagnvirkt (hlustandinn má ekki stýra nákvæmlega því sem hann heyrir því annars myndi hann hætta að kaupa sér tónlist). Hins vegar er hægt að fara einhvern milliveg og það gerir vefútvarpið Pandora langbest. Pandora gengur út frá gríðarlega vel flokkuðu gagnasafni með tónlist og margvíslegum hljómfræðilegum upplýsingum um hana. Með því að fá lágmarks óskir frá notandanum í hendur (annað hvort nafn á hljómsveit eða lagi) getur Pandora með hjálp gagnagrunnsins klæðskerasniðið útvarpsstöð handa hverjum og einum. Uppgefið lag eða hljómsveit verður þungamiðja vefvarpsins í bland við svipaða tónlist. Snilldin í þessu er sú að notandinn kynnist fullt af tónlist sem hæfir hans eða hennar smekk án þess að sjá í hendi sér hvað er í vændum. Eina stýringin er upphaflegt val á þungamiðju, möguleiki á að stökkva yfir eitt og eitt lag í einu ásamt því að jafnóðum er hægt að endurspegla ánægju eða óánægju sína til gagnagrunnsins og auka með því (eða minnka) líkurnar á að tiltekið lag endurtaki sig. Smám saman á þetta að fínslípast eftir því sem Pandora lærir á smekk hlustandans. Geggjuð hugmynd, svo að ekki sé meira sagt!

mánudagur, apríl 03, 2006

Fréttnæmt: Uppstokkun á skipulagi

Heimilisbragurinn í Granaskjóli hefur snarbreyst. Undanfarnar vikur höfum við Vigdís fundið áþreifanlega fyrir plássleysi. Gamla skipulagið innan íbúðar hefur smám saman gengið sér til þurrðar og nýtt skipulag yfirtekið hið gamla. Hálft vinnusvæðið með tölvuaðstöðunni (á milli stofu og svefnherbergis) var fyrir löngu orðið að eins konar barnaherbergi og annað hvert herbergi þar fyrir utan komið með einhvern illa skipulagðan bráðabirgðageymslubrag fyrir vikið. Næsta skref hefði verið freistandi að taka út úr íbúðinni og yfir í þá næstu (fasteignasíður á netinu eru vinsælar hjá okkur þessa dagana). Hins vegar er það skref ekki ráðlegt eins og markaðurinn er þessa dagana. Við urðum því að endurskipuleggja innanhúss í staðinn og finna nýjar lausnir sem okkur hafði yfirsést við síðustu róttæku yfirhalningu.

Lausnirnar fólust í nokkrum óhugsandi hugmyndum sem ganga engu að síður upp. Við byrjuðum á því að færa dökku hillurnar úr stofunni yfir í kuldalegan ganginn andspænis geymslunum og þvottahúsinu (og ég raðaði bókunum í smekklega litaröð svo það væri vel á þessum annars kuldalega stað). Næst fórum við með tölvuna yfir í stofuna og leyfðum þar með barnaherberginu að njóta sín sem kósí afdrep. Þangað fór hægindastólinn í þeim notalega tilgangi. Þetta er bylting hér innanhúss því þetta snarvirkar. Nú get ég til dæmis pikkað inn þessi orð víðsfjarri friðsömum nætursvefni mæðgnanna. Hurðin á milli "afdrepsins" (eins og ég kalla það núna) og svefnherbergisins hefur alltaf þurf að standa opin (og mun gera það áfram). Ástæðan er sú að við nýtum frekar gluggann í milliherberginu svo að ekki falli of snarpur kuldi á hana Signýju. Milliherbergið er líka hlýjasta herbergið (besti ofninn) og samræmir því vel hlýju og súrefnisflæði. Þetta hefur síðustu mánuði útilokað alla tölvuvinnu frameftir í því herbergi því bæði suðið og pikkið fer skiljanlega mjög illa í væran nætursvefninn. Stofunni er hins vegar hægt að loka og á meðan ég slæ þessi orð inn skynja ég í leiðinni flöktandi bjarmann af sjónarpsskjánum á bakinu á mér. Þetta er allt önnur og meira lifandi stemning. Afdrepið í milliherberginu er að sama skapi mun friðsælla en áður og það er ekki lítils virði.

Sjónvarpið: Jörðin

Alltaf hef ég vitað að Jörðin væri ólýsanlega mikilfengleg, hvernig sem á það er litið, en aldrei hef ég upplifað það jafn áþreifanlega heima í stofu eins og í kvöld. Fyrsti þáttur í breskri þáttaröð um Jörðina fjallaði um hana á svipaðan hátt og Yann Arthus Bertrand varð frægur fyrir hér um árið (með myndum úr lofti). Þessi þáttaröð nýtir sér svipaða nálgun og fylgist með atferli hjarða, veiðitækni hópa og vistfræðilegt mynstur vatns og gróðurs sem teygir sig ásamt lífríkinu eftir árstíðunum. Dramatík þeirra sem verða undir í þessari lífsbaráttu er átakanleg og óhjákvæmileg. En lífið, í stóru samhengi, heldur áfram burt séð frá grimmum afdrifum einstaklinganna. Það að fegurð lífsins sé einmitt í þessu fólgin er nokkuð sem fyllir mann skilningsleysi og lotningu.

sunnudagur, apríl 02, 2006

Daglegt líf: Vinnutörn

Það er nú meira hvað maður er latur við að skrifa þessa dagana. Ég held ég kenni vinnunni um. Síðustu tvær vikur hafa verið óvenju strembnar. Án þess að ég fari út í nein smáatriði (því ég er bundinn þagnarskyldu) þá erum við um það bil fimm talsins kennararnir sem kennum krökkunum og undanfarið höfum við verið undirmönnuð sem nemur tveimur stöðugildum. Það er ansi stór biti á svona litlum stað. Þar að auki eru nemendur óvenju margir þessa dagana þannig að þetta er alveg á mörkunum að ganga upp. Oftast kemur maður úrvinda heim með þá tilfinningu að dagurinn hafi verið til lítils. En sem betur fer er þetta sjaldan svona. Framan af vetrinum hefur verið óvenju rólegt hjá okkur (og vel mannað). Maður getur því engan veginn leyft sér að kvarta - enda siglir brátt í páskafrí. Það er ómetanlegt.