fimmtudagur, apríl 06, 2006
Netið: Vefvarp framtíðarinnar?
Veraldarvefurinn er sífellt að stækka og þróast. Fyrst var Amazon eina síðan af viti á netinu og flestar aðrar voru lítið annað en fátæklegar eftirlíkingar af bókum eða öðru prentuðu efni. Nú eru hins vegar að koma fram snilldarlegar síður í hrönnum sem nýta til fullnustu gagnvirkni og önnur séreiginleika miðilsins sem ekki er hægt að gera skil með öðrum hætti. Til dæmis vefútvarp þar sem hlustandinn getur haft áhrif á útsendinguna. Vegna ýmissa lagalegra hafta má vefútvarp ekki vera fyllilega gagnvirkt (hlustandinn má ekki stýra nákvæmlega því sem hann heyrir því annars myndi hann hætta að kaupa sér tónlist). Hins vegar er hægt að fara einhvern milliveg og það gerir vefútvarpið Pandora langbest. Pandora gengur út frá gríðarlega vel flokkuðu gagnasafni með tónlist og margvíslegum hljómfræðilegum upplýsingum um hana. Með því að fá lágmarks óskir frá notandanum í hendur (annað hvort nafn á hljómsveit eða lagi) getur Pandora með hjálp gagnagrunnsins klæðskerasniðið útvarpsstöð handa hverjum og einum. Uppgefið lag eða hljómsveit verður þungamiðja vefvarpsins í bland við svipaða tónlist. Snilldin í þessu er sú að notandinn kynnist fullt af tónlist sem hæfir hans eða hennar smekk án þess að sjá í hendi sér hvað er í vændum. Eina stýringin er upphaflegt val á þungamiðju, möguleiki á að stökkva yfir eitt og eitt lag í einu ásamt því að jafnóðum er hægt að endurspegla ánægju eða óánægju sína til gagnagrunnsins og auka með því (eða minnka) líkurnar á að tiltekið lag endurtaki sig. Smám saman á þetta að fínslípast eftir því sem Pandora lærir á smekk hlustandans. Geggjuð hugmynd, svo að ekki sé meira sagt!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli