Við Vigdís förum í ferðalag saman í byrjun júní til Danmerkur og þaðan fer ég til Osló í nokkurra daga vettvangsferð á vegum vinnunnar. Við komum til með að njóta gestrisni Kristjáns og Stellu á meðan við erum í Köben og hlökkum mikið til. Þar verður eflaust margt skemmtilegt brallað. Það er langt síðan við Vigdís fórum saman út og Danmörk er alltaf jafn góður áningarstaður. Þangað hef ég ekki farið í tæp tíu ár (sem mér finnst ótrúlegt miðað við hvað ég var oft þar á tímabili).
Eftir þriggja daga dvöl okkar Vigdísar saman í Köben fer ég, eins og áður sagði, til Osló á vegum vinnunnar. Þar hefst eiginlegur vinnudagur þar sem Brúarskóli kemur saman til að skoða starfsemi annarra skóla í nágrenni Oslóborgar sem starfa
á svipuðum forsendum og við. En til að komast þangað þurfti ég að redda mér flugmiða. Mig langar að greina svolítið nánar frá því vegna afar vafasamra viðskiptahátta Sterling-flugfélagsins á netinu.
Sterling flugfélagið átti mjög ódýran miða 6. júní til Osló á 58 danskar krónur. Við þær bættist flugvallaskattur upp á 202 danskar krónur þannig að heildarverð miðans var 260 danskar krónur. Bara fínt. Þetta gaf flugfélagið mjög skýrt upp á frumstigum kaupanna og bauð mér að halda áfram. Á næsta stigi var komið að mér að gefa upp greiðslumátann og kortanúmer. Þegar ég var búinn að því kom að lokasíðunni í ferlinu, sem var staðfesting á kaupunum. Sterling kom mér þar algerlega í opna skjöldu með því að birta þar nýtt heildarverð þar sem búið var að bæta við 79 d.kr forfallatryggingu sem ég kannaðist ekki við að hafa beðið um (enda höfðu þeir áður gefið upp fullt verð 260 dkr.). Hver þarf forfallatryggingu fyrir svona ódýran miða? Það sem verra var, flugfélagið tók fram að ég þyrfti ekki á þessu stigi að staðfesta. Þetta væri sjálfvirk staðfesting frá þeim, en ekki mér. Viðskiptum lokið!
Furðulegir og lúalegir viðskiptahættir. Ég ákvað að skoða þetta allt frá aftur byrjun (án þess að gefa upp greiðslukort, að sjálfsögðu) og sjá hvað mér hafði mögulega yfirsést. Í ljós kom við nánari skoðun að á "greiðslustiginu" hefði verið mögulegt að "haka af" forfallatryggingu, sem annars bættist sjálfkrafa við. Þetta er ég afar ósáttur við. Á þessari síðu á alls ekki að bæta við nýjum greiðslulið, að mínu mati, heldur snýst síðan einungis um það hvernig maður fari að því að borga uppsett verð frá síðunni á undan. Spurning hvort þetta séu yfir höfuð löglegir viðskiptahættir? Reyndar er ekki um að ræða háa upphæð en manni finnst þetta afskaplega lélegt.
Ég leitaði strax að tölvupósti til að láta vanþóknun mína í ljós gagnvart þeim sjálfum en komst að því jafnframt að það væri heldur ekki í boði. Vægast sagt óeðlilegt hjá fyrirtæki sem gerir út á netviðskipti, svo að ekki sé meira sagt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli