laugardagur, apríl 15, 2006

Upplifun: Tónleikar og uppákoma

Við Einar Hrafn fórum á tónleika með Bubba á fimmtudaginn var. Hann er með tónleikaröð í bígerð á Nasa næstu misserin þar sem tekin verður fyrir ein plata sérstaklega í hvert skipti. Þetta voru fyrstu tónleikar raðarinnar og kallinn reið á vaðið með "Konu" sem er í þó nokkru uppáhaldi hjá mér (eins og svo mörgum öðrum). Ég hef efasemdir um Bubba á ýmsum sviðum, til dæmis finnst mér hann ekki sannfærandi sem rokkari í dag, en hann svíkur aldrei þegar hann er einn uppi á sviði með gítarinn. Í þessu hlutverki er hann eins og aldagamall seiðmaður og fyllir salinn með nærveru sinni og sögum.

Bubbi tók plötuna fyrir í afmældum skömmtum, spilaði tvö til þrjú lög í einu, og tók eitthvað annað þess á milli til að brjóta plötuna upp. Honum fannst "Kona" aðeins of stór skammtur af sjálfsvorkunn. Sjálfur hefði ég helst viljað heyra hana í einni bendu en tók þessari nálgun að sjálfsögðu með stillingu. Miðað við stemningu salarins er "Rómeó og Júlía" augljóslega það lag sem lifir lengst út fyrir mörk plötunnar, því áhorfendur kyrjuðu það saman af miklum móð. Að öðru leyti voru þetta hófstilltir tónleikar þar sem Bubbi fór á kostum á milli laga, eins og honum er einum lagið. Skemmtunin okkar Einars var þó að nokkru leyti lævi blandin. Fyrir aftan okkur sat einhver rumpulýður sem talað hátt, skvaldraði, talaði ótt og títt í gemsa og hafði greinilega meiri áhuga á því að fara á fyllerí en að hlusta á Bubba. Þeir öngruðu alla nærstadda og svöruðu með dólgslátum ef á þá var yrt. Við Einar gáfumst upp á að sitja þar sem við vorum, á fínum stað á gólfinu, eftir um klukkutíma dvöl og röltum um svæðið nokkra stund og horfðum á Bubba frá öðrum sjónarhóli, áður en yfir lauk. Það var bara ágætt til tilbreytingar. Eftir eins og hálfs tíma tónleika var komið að uppklappinu. Bubbi setti "autopilotinn" á með því að spila "Stál og hníf". Salurinn tók kröftuglega undir og við Einar læddumst út, sáttir við okkar hlut.

Utandyra tók hins vegar við svolítið furðuleg uppákoma. Náungi sem hafði verið fyrir aftan vandræðaeggina gaf sig á tal við okkur og þóttist hafa tekið eftir óþægindum sem við urðum fyrir. Hann hafði átt í orðaskaki við gaurana og átti von á því að þeir kæmu út til að leita að slagsmálum. Hann var þarna hálf óttasleginn ásamt kærustu sinni og nokkrum vinum þar sem við röltum burt frá Nösu. Þau litu þau flóttalega í kringum sig og töldu víst að gaurnir væru að koma og byrjuðu svo skyndilega að hlaupa fyrir næsta horn og í burtu. Við Einar spáðum ekkert frekar í hlutina en skokkuðum með þeim í humátt (svokallaða) og inn í bíl. Bærinn virkaði ekki nægilega friðsamur þetta kvöldið til að ala manninn þar lengur. Þetta er víst uppskriftin að þessum "tilefnislausu árásum" sem maður heyrir svo oft um. Einar keyrði mig út úr miðbæjarkjarnanum og þaðan ákvað ég að rölta heim í góðu veðri rétt fyrir miðnætti. Ég lá nokkra stund á koddanum og hugsaði um þetta, hvernig fátækleg löggæsla stuðlar að því að svona gaurar hafa allt í hendi sér.

Engin ummæli: