mánudagur, apríl 03, 2006

Fréttnæmt: Uppstokkun á skipulagi

Heimilisbragurinn í Granaskjóli hefur snarbreyst. Undanfarnar vikur höfum við Vigdís fundið áþreifanlega fyrir plássleysi. Gamla skipulagið innan íbúðar hefur smám saman gengið sér til þurrðar og nýtt skipulag yfirtekið hið gamla. Hálft vinnusvæðið með tölvuaðstöðunni (á milli stofu og svefnherbergis) var fyrir löngu orðið að eins konar barnaherbergi og annað hvert herbergi þar fyrir utan komið með einhvern illa skipulagðan bráðabirgðageymslubrag fyrir vikið. Næsta skref hefði verið freistandi að taka út úr íbúðinni og yfir í þá næstu (fasteignasíður á netinu eru vinsælar hjá okkur þessa dagana). Hins vegar er það skref ekki ráðlegt eins og markaðurinn er þessa dagana. Við urðum því að endurskipuleggja innanhúss í staðinn og finna nýjar lausnir sem okkur hafði yfirsést við síðustu róttæku yfirhalningu.

Lausnirnar fólust í nokkrum óhugsandi hugmyndum sem ganga engu að síður upp. Við byrjuðum á því að færa dökku hillurnar úr stofunni yfir í kuldalegan ganginn andspænis geymslunum og þvottahúsinu (og ég raðaði bókunum í smekklega litaröð svo það væri vel á þessum annars kuldalega stað). Næst fórum við með tölvuna yfir í stofuna og leyfðum þar með barnaherberginu að njóta sín sem kósí afdrep. Þangað fór hægindastólinn í þeim notalega tilgangi. Þetta er bylting hér innanhúss því þetta snarvirkar. Nú get ég til dæmis pikkað inn þessi orð víðsfjarri friðsömum nætursvefni mæðgnanna. Hurðin á milli "afdrepsins" (eins og ég kalla það núna) og svefnherbergisins hefur alltaf þurf að standa opin (og mun gera það áfram). Ástæðan er sú að við nýtum frekar gluggann í milliherberginu svo að ekki falli of snarpur kuldi á hana Signýju. Milliherbergið er líka hlýjasta herbergið (besti ofninn) og samræmir því vel hlýju og súrefnisflæði. Þetta hefur síðustu mánuði útilokað alla tölvuvinnu frameftir í því herbergi því bæði suðið og pikkið fer skiljanlega mjög illa í væran nætursvefninn. Stofunni er hins vegar hægt að loka og á meðan ég slæ þessi orð inn skynja ég í leiðinni flöktandi bjarmann af sjónarpsskjánum á bakinu á mér. Þetta er allt önnur og meira lifandi stemning. Afdrepið í milliherberginu er að sama skapi mun friðsælla en áður og það er ekki lítils virði.

Engin ummæli: