þriðjudagur, apríl 11, 2006

Pæling: Fortíðarlist og aldaspeglar

Það þýðir víst lítið fyrir okkur Vigdísi að stökkva út á leigu og ná í bíómynd til að horfa á á kvöldin. Við erum syfjuð mjög snemma og á það einkum við um Vigdísi sem fer yfirleitt fljótlega að sofa eftir að Signý lokar augunum um níuleytið. Þær tvær þurfa víst að vera samstíga brjóstagjöfinni á næturnar líka (á meðan ég get blessunarlega sofið blíðum nætursvefni). Undanfarnar vikur höfum við Vigdís fyrir vikið lítið horft á nýlegar bíómyndir en höfum í staðinn tekið okkur til og horft á nokkrar gamlar DVD myndir (sem við lúrum á vikum saman að láni hjá hinum og þessum). "Gamalt" er í mínum huga allt það sem framleitt var á níunda áratugnum og fyrr - þegar snúrusímarnir voru allsráðandi, tölvurnar með grænum skjá (ef þær voru yfirhöfuð komnar), klæðaburður allt annar og hraðinn minni. Svo breytist náttúrulega "gamli tíminn" stig af stigi eftir því sem aftar dragur. En síðasti stóri vendipunkturinn á sviði kvikmyndalistar var að mínu mati á fyrri hluta tíunda áratugarins með innkomu stafrænnar tækni, þrívíddar brellum og gengdarlauss hasars og tilheyrandi yfirborðsmennsku. Ég horfi því oft með nostalgíu á "gömlu" myndirnar sem lögðu meira upp úr innihaldi en umgjörð. Stundum geng ég svo langt að skoða sérstaklega "tímanna tákn", þ.e.a.s. ýmsa leikmuni, áhöld, landslag í bakgrunni, skilti, talsmáta, tísku. Þannig getur myndin oft verið eins og lifandi gluggi inn í fortíðina, fyrir utan það að vera prýðis skemmtun að öðru leyti. Hér eru því nokkrar slíkar myndir sem við Vigdís höfum nýlega "gægst inn í" (ef svo má að orði komast):

North by Northwest 1959
The Great Escape 1963 (lýsir þó atburðum frá seinna stríði)
Close Encounters 1977
Flashdance 1983
Sex, Lies and Videotapes 1989

Ágætis stikkprufur af hinum ýmsu áratugum svosem og allar hafa þær því sinn sérstaka sjarma, sem er svo skemmtilegt. Svo er ein á leiðinni í tækið, meistaraverkið Raging Bull (1980), sem ég var allt of ungur til að njóta á sínum tíma. Prýðilegt að geta svona löngu seinna "spólað til baka", eftir hentisemi, og upplifað það sem maður missti af.

Engin ummæli: