fimmtudagur, júlí 08, 2010

Pæling: Ár undantekninga (eða straumhvarfa?)

Þetta ár er eiginlega að verða með ólíkindum. Ekki nóg með að þessi straumhvörf verða í fótboltanum (og að mótið skuli vera haldið í Afríku yfir höfuð og það með fádæma góðum árangri) heldur eru aðrir atburðir í samfélaginu algjörlega úr takti við stefnu undanfarinna áratuga. Nú er ég til dæmis að tala um Jón Gnarr sem borgarstjóra. Barack Obama er að auki á sínu fyrsta ári sem svartur forseti Bandaríkjanna (reyndar kjörinn í fyrra) og Vinstri Grænir eru við völd - svo að segja. Það að hvorki Framsókn né Sjálfstæðisflokkurinn sé við völd er út af fyrir sig magnað. Hið pólitíska landslag, heima og erlendis, er einhvern veginn allt annað en fyrir bara tveim árum.... Svo lætur náttúran á sér kræla að auki með eftirminnilegri hætti en maður er vanur. Eyjafjallajökull sýnir á sér sparihliðina með túristagosi og grettir sig síðan og hristir með óhemjugangi stuttu seinna, nokkuð sem setur allt úr skorðum á norðurhjara veraldar. En þó er það ekkert í líkingu við hamfarirnar á Haíti, sem eru einhverjar mestu náttúruhamfarir sem dunið hafa á einni þjóð í mannkynssögunni. Eigum við von á einhverju meira? Árið er bara rétt liðlega hálfnað og er þegar orðið mun eftirminnilegra en nokkurt annað ár síðustu tveggja áratuga.

Pæling: Hið fullkomna mót

Mikið er gaman að vera evrópskur unnandi fagurfræðileg fótbolta nú um mundir. Þau tvö lið sem undanfarna áratugi hafa spilað hvað áferðarfellegustu knattspyrnuna í Evrópu og verið með alsterkustu liðum á pappírunum (án þess að uppskera sem skyldi) eru nú loksins komin í úrslit heimsmeistarakeppninnar. Ég man þegar Holland og Spánn brilleruðu á Evrópumótinu fyrir tveimur árum. Þá spiluðu bæði liðin eins og "heimsmeistarar" og voru eiginlega allt of góð fyrir Evrópumótið. Hollendingar misstigu sig reyndar á leiðinni en höfðu spilað fram að því flottasta fótbolta sem maður hafði séð síðan Brasilía heillaði knattspyrnuheiminni árið 1982. Það hlakkaði sérstaklega í mér við tilhugsunina um það hversu ung bæði liðin voru því þau áttu greinilega mörg góð ár inni. Það lá hins vegar beinast við að þau myndu sanna sig á "stóra sviðinu" núna í ár. Það að þau skyldu bæði komast í úrslit er hins vegar hreint magnað. Nú er ljóst að nýr heimsmeistari (það er að segja, lið sem aldrei hefur hampað titlinum áður) verður krýndur eftir nokkra daga eftir að fyrrverandi "áskrifendur" að titlinum undanfarna áratugi (Ítalía, Argentína, Þýskaland og Brasilía) hafa verið knésettir.