fimmtudagur, september 30, 2004

Upplifun: Baráttuandi kennara

Ég fékk þau skilaboð frá Vigdísi í gær frá trúnaðarmanni kennara í Brúarskóla að mín væri vænst í Borgartúni í dag. Eins og sakleysið uppmálað (en þó ekki grunlaus) mætti ég á staðinn og sá þar kennaramúg saman kominn. Í dag ætluðu talsmenn kennara ætluðu að funda með samningamönnum sveitastjórna. Samstaða kennara fyrir utan fundarstaðinn virtist sterk og með nokkurra mínútna millibili kvað við klappkliður, eins og gerist yfirleitt fyrir stórtónleika þegar hljómsveitin er um það bil að stíga á svið. Þá var væntanlega einhver mættur á staðinn sem ég ekki kunni skil á, sem hvarf inn í fjöldann. Nokkru síðar birtist skrúðganga kennaranema eins og herfylking úr fjarlægum heimi haldandi á stórum yfirlýsingum og þar til gerðum baráttuflöggum. Aftur tók klappkliðurinn sig upp og var nú myndarlegri en áður. Þetta minnti mig hálft í hvoru á Reykjavíkurmaraþon og úrslitaorrustu úr Hringadróttinssögu. Skrítin svona múgstemning. Þegar maður situr heima við tölvuna er nauðsynlegt að geta sveiflað sér inn í fjöldann og klappað svolítið. Þetta svalar einhverju mikilvægu í félagsþörf manns. Ég hugsa að það sé samt hættulega auðvelt að gleyma sér í stemningunni og gleyma málstaðnum.

Fræðsluþáttur: Sjónvarpið. Leitin að upptökum Nílar.

Í gær heillaðist ég af fræðsluþætti um Nílarfljót. Þetta er þriggja þátta sería sem fjallar skipulega um fljótið frá þremur ólíkum hliðum. Fyrsti þáttur tók fyrir samfélag forn-Egypta og þær goðsögulegu skýringar sem Egyptar gáfu á tilurð fljótsins sem lífgjöf og blessun guðanna (sem meðal annars birtust í líki hinna ýmsu dýrategunda, sjá hér). Annar þáttur lýsti því hvernig vistkerfi Nílar vinnur sem heild samkvæmt skilningi nútímavísinda. Síðasti þátturinn fjallaði að lokum, í gærkvöldi, um leit landkönnuða að upptökum Nílar og hélt sú frásögn manni föngnum eins og maður væri þátttakandi í þessu mikla ævintýri.

Tónlist: Nýtt efni í safnið.

Vegna verkfalls er lýklegt að fjárhagurinn dragist verulega saman á næstu vikum. Kollegar mínir, sem fá greitt fyrirfram fyrir vinnu sína, fengu “núll” krónur í launaumslagi í gær. Svolítið sjokkerandi. Ég er reyndar svo heppinn að hafa enn vaktavinnuna á sambýlinu í handarjaðrinum og bæti nokkrum vöktum við mig á meðan verkfallið varir. Ég skrimti því auðveldlega.

Á fyrstu vikum septembermánaðar leiddi ég hugann hins vegar ekki að þessu ástandi sem nú hefur myndast. Tvöfalt launaumslag veitti mér þá svigrúm til að kaupa eitt og annað sem lengi þurft að geyma með mér. Meðal annars veitti ég mér þann munað í septemberbyrjun að kaupa geisladiska sem ég hafði haft í sigtinu mánuðum saman. Þeir eru til marks um djarfa byrjun vetrarins:

Robert Schumann: Strengjakvartettar 1 & 2. Zehetmair kvartettinn spilar. Þetta er rómaður verðlaunadiskur sem tímaritið Grammofon valdi sem albestu hljóðupptöku á síðasta ári. Þeir nálgast flutninginn á óvenjulegan hátt með því að kasta fyrir róða nótunum og spila lögin eftir minni. Fyrir vikið næst meira "grúv" í spilamennskuna, svo maður noti hugtak úr rokkheiminum.
Violent Femmes: Fyrsta plata þeirra, samnefnd sveitinni. Diskurinn sem ég keypti var tvöföld sérsútgáfa þar sem þeir sveitin spinnur meðal annars lög sín á ýmsum tónleikum. Það er vel við hæfi því Violent Femmes eru alveg frábært tónleikaband (enda mætti ég á tónleikana í sumar). Mig hefur lengi og mikið langað til að eiga þennan disk og ákvað loks að slá til um leið og ég frétti af þessari sérstöku viðhafnarútgáfu.
Fleetwood Mac: Tvær eftirminnilegar plötur, nýlega endurútgefnar: Rumours og Tusk. Eins og Violent Femmes þá geyma báðar útgáfurnar sneisafullan aukadisk af sérefni og demóupptökum. Fyrri platan kom upphaflega út 1977 og var gríðarlega vinsæl á sínum tíma (hefur selst í tæplega 20 milljónum eintaka). Hin fylgdi í kjölfarið, 1979, en var mikil stefnubreyting. Tusk var tilraunakennd þjóðlagatónlist sem aldrei náði viðlíka vinsældum og Rumours en varð hins vegar með tímanum að “underground” klassík. Tusk er ótrúlega heillandi plata. Margir líkja henni við hvíta albúm bítlanna. Sundurleit og ótrúlega óheft.

miðvikudagur, september 29, 2004

Upplifun: Óvænt áhrif verkfallsins

Nú er rúm vika liðin af verkfalli grunnskólakennara. Skammtímaáhrifin á nemendur eru margs konar. Til dæmis eru krakkarnir á vergangi á daginn (hanga heima eða þvælast um bæinn) og á kvöldin eru þau, ja, - frjáls! Ekkert heimanám. Aðhaldið sem námið og heimavinnan veitir þeim er ekki lengur til staðar sem tangarhald heima. Þau leita til félaga sinna og hanga einhvers staðar úti á kvöldin, í strætóbiðskýlum, í sjoppum eða í bænum. Ég rölti um Kringluna og tók sérstaklega eftir því hvað margir krakkar eru í slagtogi við mömmu sína að kaupa í matinn. Ef maður gægist má grilla í krakka bak við hin og þessi búðarborð. Fjölskyldurnar gera allt sem þær geta til að mæta auknu álagi. Svo bitnar þetta á mér í strætó, sem er þessa dagana óvenju þéttsetinn krökkum. Á kvöldin eru þau oft með skarkala og galsa, sem eðlilegt er. Svolítið hvimleitt þegar maður kemur þreyttur heim úr vinnu seint um kvöld og vill lesa sína bók í ró og næði.

föstudagur, september 24, 2004

Lestur: Uncommon Wisdom e. Fritjof Capra

Fyrir nokkru impraði ég á fyrirbæri sem ég kallað strætóbók. Bókin sem ég hafði meðferðis í sumar er nú komin upp í hillu og ný bók tekin við hlutverki hins stöðuga strætófylginautar. Ég var sem sé að klára bókina “Uncommon Wisdom” eftir Fritjof Capra. Höfundurinn er þekktastur fyrir metsölubókina “The Tao of Physics” þar sem hann leitaðist eftir að finna samræmi milli nýjustu uppgötvana í eðlisfræði og aldagamallar vitneskju austrænna trúarbragða. Bókin sem ég hef verið að lesa undanfarið er hins vegar sjálfsævisöguleg og fjallar um leit Fritjofs að efni í bókina frægu og the Turning Point sem kom út seinna. Hann leitar til fræðimanna á sem flestum sviðum og deilir með lesandanum ferli uppgötvunar stig af stigi. Bókin er afar vel skrifuð og er á alþýðlegu og skýru máli auk þess sem Fritjof leyfir sér að miðla af hversdagslegri upplifunum sínum í leiðinni. Bókin er því hálft í hvoru fræðilegs eðlis og ferðasaga hans sjálfs um fræðin (sem er í leiðinni ferð inn á við). Hann er naskur á mannleg samskipti og lýsir frægum vísindamönnum og félögum sínum afburða vel svo að þeir spretta sem miklar og eftirminnilegar persónur fram á blaðinu (enda ber bókin undirtitilinn “Conversations with Remarkable People”). Bókin er unun í alla staði svo ekki sé minnst á þann fræðilega innblástur sem hún veitir, sérstaklega sem samtímaheimild um vísindi og fræðimenn. Vegna hrifningar minnar hef ég bætt þessari bók við rafræna bókasafnið mitt þar sem glöggva má sig á ýmsum stuttlegum tilvitnunum.

Fréttnæmt: Spurning um spelti

Vísindavefurinn var að birta svar mitt við spurningunni "Hvað er spelti og hvert er næringarinnihald þess?". Finnst í næringarfræðiflokknum. Speltisbrauð er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana eftir að ég tók að mér þessi skrif fyrir nokkru síðan. Það er bragðgott og bráðnar í munni en er að mínu mati ekkert sérstaklega gott með neinu áleggi. Best með smjöri, eintómu.

þriðjudagur, september 21, 2004

Fréttnæmt: Verkfallið nýhafið

Undanfarnar vikur er ég búinn að vinna 170% vinnu, annars vegar í skólanum (á daginn) og hins vegar á sambýlinu (á kvöldin og um helgar). Ástæðan er sú að kennarastöðuna fékk ég svo seint upp í hendurnar að mér gafst ekki ráðrúm til að segja vaktavinnunni upp með fyrirvara. Nú er komið verkfall, eins og sniðið að þörfum mínum. Ég er skikkaður til að taka mér frí og þiggja verkfallsbætur á meðan ég vinn mína gömlu vinnu. Má ekki gera neitt. Hvorki fara burt (því verkfall gæti leyst skyndilega) né sniglast kringum skólann. Það þarf líka að vera hægt að ná í mig í verkfallsvörslu. Í gær var hringt í mig snemma morguns og ég fenginn til að skjótast upp í Klébergsskóla á Kjalarnesinu. Þar sniglaðist ég um með einum samkennara mínum. Næðingur á nesinu. Við sáum ekkert athugavert við starfsemina og þeir starfsmenn sem þar voru brostu til okkar skilningsríkir á meðan við fylltum út eyðublöð. Það er sérkennilegt að vera svona peð í skák annarra og vita varla hvað gerist næst. Þó þetta bitni í sjálfu sér ekki á mér þá vonar maður að verkfallið vari ekki lengi. Ein til tvær vikur má nýta sem hvíld (veturinn byrjaði hvort eð er tveimur vikum of snemma að mínu mati). Allt annað fer að verða skemmandi fyrir okkur leikmennina.

sunnudagur, september 19, 2004

Upplifun: Þjóðminjasafnið.

Rétt fyrir helgi rölti ég inn Þjóðminjasafnið á vegum Brúarskóla. Kennurum hvaðanæva að var þar kynnt dagskrá vetrarins. Eins og var fyrir viðgerð safnsins þá stendur til að bjóða grunnskólanemum í heimsókn í vetur og mun sú þjónusta stóraukast. Að formlegum fyrirlestri loknum bauðst okkur sem þarna vorum að skoða safnið í krók og kima. Ég hreifst. Ekki er þetta einasta fallegt og smekklegt safn með rúmt til veggja heldur er safnkosti komið til skila með hugvitsamlegum og eftirminnilegum hætti. Fjölbreytni í framsetningu er mikil, tölvuaðstaða er til fyrirmyndar og mikil áhersla er lögð á að gestir fái að handleika nákvæmar eftirmyndir af hlutunum. Safnið er það skemmtilegt að það teymir mann áfram, öld fram af öld.

Tónlist: Spólan í bílnum. Blue Aeroplanes.

Ég hef verið mjög heillaður undanfarna daga af hljómsveit sem heitir Blue Aeroplanes. Þetta er gömul uppáhaldshljómsveit sem ég hlustaði talsvert á fyrir um fimmtán árum. Þeir voru uppi á sama tíma og R.E.M. og spila að mörgu leyti svipaða tónlist, nema bara svolítið sérvitringslegri. Þeir höfðu áhrif á R.E.M. með sínu skrítna þjóðlagapoppi, og öfugt. En hvað um það, núna rúllar spóla með þeim hring eftir hring í bílnum sem ég keyri á í vinnuna á morgnana. Þetta er einmitt brakandi morguninnspýting því Blue Aeroplanes hafa innilega heimilislegan og afslappaðan hljóm fullan af látlausum en lifandi hugmyndum. Spólan geymir upptökur tveggja af elstu plötum sveitarinnar, Tolerance (’85) og Spitting Out Miracles (´87), sem ég satt að segja hlustaði aldrei almennilega á í gamla daga. Ég nýt þess að “endur”-uppgötva þær núna. Seinni platan er misjöfn bæði að stíl og gæðum en geymir eftirminnilega hápunkta. Hin er látlausari en vex ótrúlega með tímanum. Hún kemur lúmskt aftan að manni sem lítil vanmetin perla. Þetta hvetur mig til að leggjast eftir langt hlé yfir meistaraverk þeirra, Swagger (´89) og Beatsongs (´91).

fimmtudagur, september 16, 2004

Fréttnæmt: Bloggið kemst á réttan kjöl á ný

Undanfarinn mánuð eða svo hefur bloggið mitt verið í lamasessi. Það sem ég hef skrifað að undanförnu hefur með undarlegum hætti safnast upp á síðu sem aðeins ég hef aðgang að í stað þess að birtast öðrum. Opinbera síðan mín hefur verið frosin á meðan. Ég leitaði ráða víða, meðal annars til tæknimanna Islandia og þeirra hjá blogger.com en báðir aðilar gáfu málið frá sér með því að vísa hvor á annan. Ég þurfti að leita á endanum til Danmerkur til Kristjáns sem þangað er nýfluttur. Reyndar varð honum starsýnt á undarlegan vanda sem engin einföld lausn var á. Að því er virtist gat síðan mín ekki með nokkru móti birst á þeim stað sem henni var upphaflega ætlaður. Hins vegar var hægt að fara í kringum hlutina með því að fá blogger til að hýsa síðuna annars staðar. Kristján hefur oft reynst mér vel sem netráðunautur. Ég fagna lausn hans með mikilli tilhlökkun um að halda áfram að skrifa. Í leiðinni minni ég á að fyrri færslur, sem hafa safnast upp í kyrrþey frá 10. ágúst, birtast hér með fyrir neðan hverjum sem er til aflestrar.

Ath. þeir sem krækja: Vefslóð bloggsins hefur breyst. Aðkoman frá aðalsíðunni virkar hins vegar á sama hátt og áður.

þriðjudagur, september 07, 2004

Tónlist: Bunkinn. Lou Reed, Spirualized, "Passion".

Sem fyrr geng ég frá geisladiskastafla sem hrannast hefur upp að undanförnu. "Bunkinn" er jafnan tónlist sem ég hef sótt í reglulega og hefur efni hans bara ekki náð að rata ofan í skúffu aftur. Núna einkennist hann af Lou Reed og hans arfleifð. Ég hef verið að hlusta á nokkur af hans helstu meistaraverkum enda hélt hann tónleika í Höllinni í síðasta mánuði. Einnig greip mig fljótandi sýrurokk Spiritualized og tók ég sérstaklega eftir því hvað Ladies and Gentlemen er ótrúlega öflug plata. Hún nær því að vera bæði sveimandi og beitt. Á henni er verið að leika sér mikið með ískur, hávaða og glundroða og búa til úr því einhvers konar óútskýranlega fegurð. Það sem tók mig hins vegar heljartökum var Passion plata Gabriels. Þessi plata býr til algjörlega ný viðmið í tónlist hvað varðar tilfinningalega dýpt.


Mercury Rev: See you on the Other side
Peter Gabriel: Passion
Spiritualized: Lazer Guided Melodies
Spiritualized: Ladies and Gentlemen we Are Floating in Space
Lou Reed: Berlin
Lou Reed: Magic and Loss
Lou Reed: Ecstacy
Lou Reed: Transformer
Velvet Underground: Loaded

Upplifun: Vinnan. Þægilegt en erfitt

Nú er ég búinn að vinna í Brúarskóla við Dalbraut í nokkrar vikur. Starfið er mjög þægilegt, að mestu leyti, þ.e. góður starfsandi og ágæt aðstaða. Við byrjum ekki að vinna fyrr en hálf níu (maður mætir samt upp úr átta) og kennir fram að hádegi (eftir það er fundað um eitt og annað og næsti dagur undirbúinn). Nemendurnir eru ekki nema 2-3 talsins hverju sinni. Vinnan getur hins vegar verið afar lýjandi vegna þess að nemendurnir eru með þeim erfiðustu á landinu og koma til okkar beint af barnageðdeild (sem er í næsta húsi). Undantekningarlítið eiga þeir erfitt með einbeitingu (hafa svokallaðan "athyglisbrest") og eru gjarnan ofvirkir í þokkabót. Mikið er um þráhyggju hvers konar sem þróast stundum út í skapvonskuköst upp úr þurru. Frekjan og hortugheitin geta verið ansi mikil. Blessunarlega er krökkunum sjaldnast sjálfrátt og þau gleyma látunum fljótt og eru sem ljúflingar fljótt á eftir. Sveiflurnar reyna samt geysilega á þolinmæðina. Stundum finnst manni maður á þrotum með úrræði handa krökkunum. Enginn dagur er auðveldur.