þriðjudagur, september 21, 2004

Fréttnæmt: Verkfallið nýhafið

Undanfarnar vikur er ég búinn að vinna 170% vinnu, annars vegar í skólanum (á daginn) og hins vegar á sambýlinu (á kvöldin og um helgar). Ástæðan er sú að kennarastöðuna fékk ég svo seint upp í hendurnar að mér gafst ekki ráðrúm til að segja vaktavinnunni upp með fyrirvara. Nú er komið verkfall, eins og sniðið að þörfum mínum. Ég er skikkaður til að taka mér frí og þiggja verkfallsbætur á meðan ég vinn mína gömlu vinnu. Má ekki gera neitt. Hvorki fara burt (því verkfall gæti leyst skyndilega) né sniglast kringum skólann. Það þarf líka að vera hægt að ná í mig í verkfallsvörslu. Í gær var hringt í mig snemma morguns og ég fenginn til að skjótast upp í Klébergsskóla á Kjalarnesinu. Þar sniglaðist ég um með einum samkennara mínum. Næðingur á nesinu. Við sáum ekkert athugavert við starfsemina og þeir starfsmenn sem þar voru brostu til okkar skilningsríkir á meðan við fylltum út eyðublöð. Það er sérkennilegt að vera svona peð í skák annarra og vita varla hvað gerist næst. Þó þetta bitni í sjálfu sér ekki á mér þá vonar maður að verkfallið vari ekki lengi. Ein til tvær vikur má nýta sem hvíld (veturinn byrjaði hvort eð er tveimur vikum of snemma að mínu mati). Allt annað fer að verða skemmandi fyrir okkur leikmennina.

Engin ummæli: