sunnudagur, september 19, 2004

Tónlist: Spólan í bílnum. Blue Aeroplanes.

Ég hef verið mjög heillaður undanfarna daga af hljómsveit sem heitir Blue Aeroplanes. Þetta er gömul uppáhaldshljómsveit sem ég hlustaði talsvert á fyrir um fimmtán árum. Þeir voru uppi á sama tíma og R.E.M. og spila að mörgu leyti svipaða tónlist, nema bara svolítið sérvitringslegri. Þeir höfðu áhrif á R.E.M. með sínu skrítna þjóðlagapoppi, og öfugt. En hvað um það, núna rúllar spóla með þeim hring eftir hring í bílnum sem ég keyri á í vinnuna á morgnana. Þetta er einmitt brakandi morguninnspýting því Blue Aeroplanes hafa innilega heimilislegan og afslappaðan hljóm fullan af látlausum en lifandi hugmyndum. Spólan geymir upptökur tveggja af elstu plötum sveitarinnar, Tolerance (’85) og Spitting Out Miracles (´87), sem ég satt að segja hlustaði aldrei almennilega á í gamla daga. Ég nýt þess að “endur”-uppgötva þær núna. Seinni platan er misjöfn bæði að stíl og gæðum en geymir eftirminnilega hápunkta. Hin er látlausari en vex ótrúlega með tímanum. Hún kemur lúmskt aftan að manni sem lítil vanmetin perla. Þetta hvetur mig til að leggjast eftir langt hlé yfir meistaraverk þeirra, Swagger (´89) og Beatsongs (´91).

Engin ummæli: