Vegna verkfalls er lýklegt að fjárhagurinn dragist verulega saman á næstu vikum. Kollegar mínir, sem fá greitt fyrirfram fyrir vinnu sína, fengu “núll” krónur í launaumslagi í gær. Svolítið sjokkerandi. Ég er reyndar svo heppinn að hafa enn vaktavinnuna á sambýlinu í handarjaðrinum og bæti nokkrum vöktum við mig á meðan verkfallið varir. Ég skrimti því auðveldlega.
Á fyrstu vikum septembermánaðar leiddi ég hugann hins vegar ekki að þessu ástandi sem nú hefur myndast. Tvöfalt launaumslag veitti mér þá svigrúm til að kaupa eitt og annað sem lengi þurft að geyma með mér. Meðal annars veitti ég mér þann munað í septemberbyrjun að kaupa geisladiska sem ég hafði haft í sigtinu mánuðum saman. Þeir eru til marks um djarfa byrjun vetrarins:
Robert Schumann: Strengjakvartettar 1 & 2. Zehetmair kvartettinn spilar. Þetta er rómaður verðlaunadiskur sem tímaritið Grammofon valdi sem albestu hljóðupptöku á síðasta ári. Þeir nálgast flutninginn á óvenjulegan hátt með því að kasta fyrir róða nótunum og spila lögin eftir minni. Fyrir vikið næst meira "grúv" í spilamennskuna, svo maður noti hugtak úr rokkheiminum.
Violent Femmes: Fyrsta plata þeirra, samnefnd sveitinni. Diskurinn sem ég keypti var tvöföld sérsútgáfa þar sem þeir sveitin spinnur meðal annars lög sín á ýmsum tónleikum. Það er vel við hæfi því Violent Femmes eru alveg frábært tónleikaband (enda mætti ég á tónleikana í sumar). Mig hefur lengi og mikið langað til að eiga þennan disk og ákvað loks að slá til um leið og ég frétti af þessari sérstöku viðhafnarútgáfu.
Fleetwood Mac: Tvær eftirminnilegar plötur, nýlega endurútgefnar: Rumours og Tusk. Eins og Violent Femmes þá geyma báðar útgáfurnar sneisafullan aukadisk af sérefni og demóupptökum. Fyrri platan kom upphaflega út 1977 og var gríðarlega vinsæl á sínum tíma (hefur selst í tæplega 20 milljónum eintaka). Hin fylgdi í kjölfarið, 1979, en var mikil stefnubreyting. Tusk var tilraunakennd þjóðlagatónlist sem aldrei náði viðlíka vinsældum og Rumours en varð hins vegar með tímanum að “underground” klassík. Tusk er ótrúlega heillandi plata. Margir líkja henni við hvíta albúm bítlanna. Sundurleit og ótrúlega óheft.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli