Fyrir nokkru impraði ég á fyrirbæri sem ég kallað strætóbók. Bókin sem ég hafði meðferðis í sumar er nú komin upp í hillu og ný bók tekin við hlutverki hins stöðuga strætófylginautar. Ég var sem sé að klára bókina “Uncommon Wisdom” eftir Fritjof Capra. Höfundurinn er þekktastur fyrir metsölubókina “The Tao of Physics” þar sem hann leitaðist eftir að finna samræmi milli nýjustu uppgötvana í eðlisfræði og aldagamallar vitneskju austrænna trúarbragða. Bókin sem ég hef verið að lesa undanfarið er hins vegar sjálfsævisöguleg og fjallar um leit Fritjofs að efni í bókina frægu og the Turning Point sem kom út seinna. Hann leitar til fræðimanna á sem flestum sviðum og deilir með lesandanum ferli uppgötvunar stig af stigi. Bókin er afar vel skrifuð og er á alþýðlegu og skýru máli auk þess sem Fritjof leyfir sér að miðla af hversdagslegri upplifunum sínum í leiðinni. Bókin er því hálft í hvoru fræðilegs eðlis og ferðasaga hans sjálfs um fræðin (sem er í leiðinni ferð inn á við). Hann er naskur á mannleg samskipti og lýsir frægum vísindamönnum og félögum sínum afburða vel svo að þeir spretta sem miklar og eftirminnilegar persónur fram á blaðinu (enda ber bókin undirtitilinn “Conversations with Remarkable People”). Bókin er unun í alla staði svo ekki sé minnst á þann fræðilega innblástur sem hún veitir, sérstaklega sem samtímaheimild um vísindi og fræðimenn. Vegna hrifningar minnar hef ég bætt þessari bók við rafræna bókasafnið mitt þar sem glöggva má sig á ýmsum stuttlegum tilvitnunum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli