miðvikudagur, september 29, 2004

Upplifun: Óvænt áhrif verkfallsins

Nú er rúm vika liðin af verkfalli grunnskólakennara. Skammtímaáhrifin á nemendur eru margs konar. Til dæmis eru krakkarnir á vergangi á daginn (hanga heima eða þvælast um bæinn) og á kvöldin eru þau, ja, - frjáls! Ekkert heimanám. Aðhaldið sem námið og heimavinnan veitir þeim er ekki lengur til staðar sem tangarhald heima. Þau leita til félaga sinna og hanga einhvers staðar úti á kvöldin, í strætóbiðskýlum, í sjoppum eða í bænum. Ég rölti um Kringluna og tók sérstaklega eftir því hvað margir krakkar eru í slagtogi við mömmu sína að kaupa í matinn. Ef maður gægist má grilla í krakka bak við hin og þessi búðarborð. Fjölskyldurnar gera allt sem þær geta til að mæta auknu álagi. Svo bitnar þetta á mér í strætó, sem er þessa dagana óvenju þéttsetinn krökkum. Á kvöldin eru þau oft með skarkala og galsa, sem eðlilegt er. Svolítið hvimleitt þegar maður kemur þreyttur heim úr vinnu seint um kvöld og vill lesa sína bók í ró og næði.

Engin ummæli: