þriðjudagur, september 07, 2004

Upplifun: Vinnan. Þægilegt en erfitt

Nú er ég búinn að vinna í Brúarskóla við Dalbraut í nokkrar vikur. Starfið er mjög þægilegt, að mestu leyti, þ.e. góður starfsandi og ágæt aðstaða. Við byrjum ekki að vinna fyrr en hálf níu (maður mætir samt upp úr átta) og kennir fram að hádegi (eftir það er fundað um eitt og annað og næsti dagur undirbúinn). Nemendurnir eru ekki nema 2-3 talsins hverju sinni. Vinnan getur hins vegar verið afar lýjandi vegna þess að nemendurnir eru með þeim erfiðustu á landinu og koma til okkar beint af barnageðdeild (sem er í næsta húsi). Undantekningarlítið eiga þeir erfitt með einbeitingu (hafa svokallaðan "athyglisbrest") og eru gjarnan ofvirkir í þokkabót. Mikið er um þráhyggju hvers konar sem þróast stundum út í skapvonskuköst upp úr þurru. Frekjan og hortugheitin geta verið ansi mikil. Blessunarlega er krökkunum sjaldnast sjálfrátt og þau gleyma látunum fljótt og eru sem ljúflingar fljótt á eftir. Sveiflurnar reyna samt geysilega á þolinmæðina. Stundum finnst manni maður á þrotum með úrræði handa krökkunum. Enginn dagur er auðveldur.

Engin ummæli: