Ég fékk þau skilaboð frá Vigdísi í gær frá trúnaðarmanni kennara í Brúarskóla að mín væri vænst í Borgartúni í dag. Eins og sakleysið uppmálað (en þó ekki grunlaus) mætti ég á staðinn og sá þar kennaramúg saman kominn. Í dag ætluðu talsmenn kennara ætluðu að funda með samningamönnum sveitastjórna. Samstaða kennara fyrir utan fundarstaðinn virtist sterk og með nokkurra mínútna millibili kvað við klappkliður, eins og gerist yfirleitt fyrir stórtónleika þegar hljómsveitin er um það bil að stíga á svið. Þá var væntanlega einhver mættur á staðinn sem ég ekki kunni skil á, sem hvarf inn í fjöldann. Nokkru síðar birtist skrúðganga kennaranema eins og herfylking úr fjarlægum heimi haldandi á stórum yfirlýsingum og þar til gerðum baráttuflöggum. Aftur tók klappkliðurinn sig upp og var nú myndarlegri en áður. Þetta minnti mig hálft í hvoru á Reykjavíkurmaraþon og úrslitaorrustu úr Hringadróttinssögu. Skrítin svona múgstemning. Þegar maður situr heima við tölvuna er nauðsynlegt að geta sveiflað sér inn í fjöldann og klappað svolítið. Þetta svalar einhverju mikilvægu í félagsþörf manns. Ég hugsa að það sé samt hættulega auðvelt að gleyma sér í stemningunni og gleyma málstaðnum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli