fimmtudagur, október 18, 2012

Fréttnæmt: Miklar breytingar framundan

Ég hef þagað nógu lengi á blogginu.  Nú er liðinn meira en mánuður síðan ég skrifaði síðast.  Ég hef bara ekki haft frið í mér til að setjast niður og skrifa um líðandi stund.  Ég stend á miklum tímamótum.  Við Vigdís höfum ákveðið að hætta að búa saman.  Okkar samband hefur gengið í gegnum miklar sveiflur undanfarin þrjú ár og forsendur fyrir áframhaldandi sambúð eru brostnar.  Fyrir því liggja ástæður sem ég kann ekki við að greina frá hér en þær eiga sér langa sögu.  Möguleikinn á því að við náum saman aftur er lítill og það er háð forsendum sem eru heldur langsóttar, en við verðum bara að sjá til.

Vigdís flutti að heiman fyrir tæpum þremur vikum síðan.  Það var á 30. september.  Það vill svo til að það gerðist daginn fyrir 1. október, sem er einmitt dagurinn sem við fluttum inn í Granaskjólið fyrir níu árum síðan.  Í gær gengum við loks frá pappírum þess efnis hjá sýslumanni.  Það vantaði einnig dag upp á til að það passaði við merkingarbæra dagsetningu.  Í dag eru nákvæmlega 10 ár og 5 mánuðir síðan við kynntumst (18. maí 2002).

Ég er búinn að velta því fyrir mér hvort ég ætti yfir höfuð að halda áfram að blogga.  Ég byrjaði að skrifa af kappi þegar við fluttum inn í Granaskjólið.  Fyrir þann tíma voru þetta bara þreifingar.  Núna verð ég að finna nýjan metnað og nýja ástæðu til að halda utan um skrifin.  Tíminn er af skornum skammti og hann nýtist helst Signýju og Hugrúnu.  Þegar ég er út af fyrir mig vil ég helst hvíla mig eða skrifa í einkadagbókina hugleiðingar um daginn hverju sinni. Ég trassaði dagbókarskrif um árabil eftir að ég byrjaði að blogga en undanfarin ár hefur sú tjáningarleið nýst mér vel til að halda utan um ruglingslegar hugsanir sem hafa sótt á mig, eftir aðstæðum.

Við Vigdís erum enn í góðu sambandi, þannig séð.  Við tölumst ekkert mikið við en það er engin sérstök beiskja á milli okkar. Við finnum bæði fyrst og fremst fyrir söknuði. En við vorum sammála um að við værum komin á leiðaenda, að minnsta kosti í bili.  Hún þarf tíma til að finna sig á ný hvert sem það á eftir að leiða hana.  Ég vona innilega að það eigi eftir að fara vel.  Það má segja að hún sé að fara út í óvissuferð á meðan mín staða er önnur.  Ég er heima á sama stað og stelpurnar áfram með lögheimili hér.  Ég legg ofurkapp á að halda hlutunum í horfinu og sinna stelpunum eins vel og ég get.