laugardagur, júní 30, 2007

Fréttnæmt: Vikudvöl i sumarbustað

Við Vigdís og litlu systurnar erum nýkomin úr sveitinni þar sem við dvöldum í viku í sumarbústað. Allan tímann nutum við góðs af mikilli veðurblíðu - allt að því hitabylgju - en því miður fylgdu ferðinni veikindi þannig að við nutum þess ekki til hins ítrasta. Engu að síður var gott að skipta um umhverfi og koma heim aftur. Ég segi betur frá því í næsta pósti. Þegar við komum heim gafst okkur rétt svo tími til þess að borða kvöldmat og ég var þá aftur rokinn burt, á tónleika með Dúndurfréttum. Við Villi bróðir keyptum miðana fyrir löngu síðan og sáum svo sannarlega ekki eftir kvöldinu. Ég segi líka betur frá því fljótlega.

föstudagur, júní 22, 2007

Þroskaferli: Hugrún heldur höfði og brosir breitt

Lítið hef ég minnst á framgang litlu dömunnar á heimilinu en hún tekur stórstígum framförum að okkar mati. Nýlega ýjaði ég að þessu þegar ég talaði um hversu hratt hún stækkaði og þyngdist. Frá því hún var skírð, þriggja vikna gömul, höfum við tekið eftir því að hún er komin á annað stig í þroskaferlinu. Fyrsta stigið er þegar börn eru innræn og beina athygli sinni að eigin líðan og taka vart eftir því sem gerist í kring. Þau eru þá ekkert að skoða sig um eða svara svipbrigðum foreldranna. Það eina sem skiptir máli er hvíld, hægðalosun, þvaglosun og móðurmjólkin. Strax á þriðju viku, sem sagt, tókum við eftir að þetta var að breytast. Hugrún var farin að brosa mjög markvisst til okkar daginn fyrir skírn. Hún hélt jafnframt höfði nokkuð vel, í nokkrar sekúndur í senn. Síðan þá hefur brosið breikkað og styrkurinn í hálsvöðvum aukist jafnt og þétt. Núna er hún fær um að lyfta höfðinu sjálf, þar sem hún liggur framan á okkur. Hún virðir okkur fyrir sér mjög gaumgæfilega. Brosið er orðið að sannkölluðu samskiptabrosi. Meira að segja þegar hún kvartar undan sárum verkjum þá hefur oft reynst gæfulegast að snúa henni að sér og spjalla við hana á blæbrigðaríkan hátt. Þá sjatnar "verkurinn" og hún "spjallar" á móti með ákaflega sjarmerandi svipbrigðum. Hún er nefnilega að verða talsvert mikil fyrir selskapinn - og það finnst okkur góðs viti.

fimmtudagur, júní 21, 2007

Tónlist: Bowie upptökur

Á meðan ég hef ekkert fréttnæmt fram að færa (Signýju gengur bara vel í leikskólanum og svoleiðis) þá er ekki úr vegi að draga fram ýmis hugðarefni sem ég hef dundað mér við á undanförnum misserum. Byrjum á Bowie sjóræningjaupptökum sem mér áskotnaðist á lokakafla meðgöngu Hugrúnar í apríl. Ég sem sagt kom mér í samband við náunga - safnara - sem á ansi mikið og gott safn af Bowie upptökum. Hann hefur fjallað um safnið sitt á netinu á þvi frábæra vefsetri Rate your music. Ég bauð honum ýmsar upptökur í skiptum fyrir vel valda diska úr safninu hans. Það sem mér barst í hendur var myndarlegt safn, eins konar þversnið af Bowie-tónleikum og annars konar upptökum gegnum tíðina. Enn hef ég ekki hlustað á nema einn diskanna (Vancouver 1976 rehearsals) en hlakka hins vegar mikið til að fara í gegnum safnið, í góðum félagsskap, ef til vill.

David Bowie - The Mainman and the Mainline (The 1976 Vancouver Rehersals)

mánudagur, júní 18, 2007

Fréttnæmt: Þreföld skoðun

Í dag fór fjölskyldan í þrefalda læknisskoðun, þ.e. allir nema ég. Allt var þetta hefðbundið rútínutékk en það er engu að síður gaman að bera saman niðurstöður mælinga hjá systrunum. Hugrún fór í sex vikna skoðun og var vigtuð (4.9 kg) og lengdarmæld (60 sm). Einnig kom fram að hún fylgir vel eftir með augunum og heldur höfði furðu vel miðað við aldur. Signý fór hins vegar í 18 mánaða skoðun, sem innihélt sprautu auk sömu mælinga og hjá Hugrúnu (hún er nú orðin 10 kg og 80 sm). Svo var merkt við hana lauslega í þroskamati, án frekari eftirgrennslanar, enda vissi hjúkkan að Signý var vel á vegi stödd. Hakað var meðal annars við það atriði að Signý gæti staflað upp kubbum, að minnsta kosti tveimur, og ég var minnugur þess þegar hún raðaði upp átta stykkjum fyrir þó nokkru síðan.

Tölurnar sem komu fram hér að ofan eru að mörgu leyti athyglisverðar. Þær eru skemmtilega skýrar. Hugrún er um það bil helmingi léttari en Signý (4.9 kg og 10 kg) og er búin að ná þremur fjórðu af lengd hennar (60 sm og 80 sm). Við skoðuðum tölur fyrir Signýju og sáum að hún var fimm kílógrömm þegar hún var þriggja mánaða. Þessu marki hefur Hugrún nú þegar náð sex vikna gömul. Áður en fólki bregður við þetta misræmi verð ég að minna á að Hugrún fæddist "eldri". Hún naut lengri meðgöngutíma og munaði þar fjórum vikum og fimm dögum. Þar að auki hefur hún allt frá fæðingu verið mun svengri en Signý og verið mun kröfuharðari á brjóstið. Þessi sex vikna munur á líkamsþyngd er því mjög eðlilegur eftir allt.

Til gamans fórum við Vigdís að gramsa í gömlum myndum af Signýju frá þeim tíma er hún var fimm kílógrömm að þyngd og klæddist þeim fötum sem Hugrún klæðist nú. Hér er árangurinn og samanburðurinn, systurnar Signý og Hugrún (í sömu peysunni):


Hugrún (fimm vikna) júní 2007

Signý (þriggja mánaða) mars 2006


Fleiri myndir eru á myndasíðunni.

sunnudagur, júní 17, 2007

Daglegt lif: Þjóðhátíðardagurnn

Í dag héldum við þjóðhátíðardaginn hátíðlegan með ansi löngum göngutúr niður í bæ og heim aftur. Veðrið var frábært og við nutum okkar vel að því undanskildu hvað erfitt var að finna veitingar án þess að standa í löngum biðröðum. Þegar heim var komið var stutt í brottför mína niður í Laugardal þar sem handboltalansliðið tók á móti Serbum í frekar undarlegum leik, en allt er gott sem endar vel. Þetta var nánast endurtekið efni frá því fyrir ári síðan þegar við slógum Svíana mjög naumt út í umspili.

laugardagur, júní 16, 2007

Fréttnæmt: Fyrsta leikskólavikan

Fyrsta leikskólavikan gekk afar vel hjá Signýju eftir brösuga byrjun vegna veikinda okkar beggja. Hún tímdi alveg að sleppa af mer hendinni og var bara eins og heima hjá sér frá fyrsta degi. Það munar líka heilmikið um það fyrir okkur Vigdísi að sjá bara um eitt barn á meðan. Núna er loksins hægt að sinna heimilinu markvisst.

laugardagur, júní 09, 2007

Þroskaferli: Annar leikskóladagur

Ég tók mig taki og mætti hálf lasinn í leikskólann með Signýju á föstudaginn. Hún var orðin alveg hress (en ég átti eftir að versna um kvöldið og ná mér um sólarhring síðar, þ.e.a.s. u.þ.b. núna). Þetta gekk alveg eins og í sögu. Dagur tvö í aðlögun gengur sem sagt þannig fyrir sig að leikskólabarnið staldrar við í tvo tíma og þar af bregður foreldrið sér frá í um það bil hálftíma. Signý kom sér til að byrja með fljótt fyrir og lék sér varfærnislega við krakkana. Hún var óhrædd við að skoða sig um og lét það ekkert á sig fá þó að sumir krakkanna væru stöðugt grátandi. Ég settist um tíma við borð og fiktaði eitthvað í púsli sem ég fann og nokkrir eldri krakkanna (um það bil tveggja og hálfs) gáfu sig að mér og skoðuðu með mér. Signý var ekkert allt of pössunarsöm á mig og lét það alveg fram hjá sér fara. Hún dundaði sér bara sjálf svo lengi sem ég brosti til hennar reglulega. Síðan kom að tímabundnu brotthvarfi mínu. Þá var mér ráðlagt að kveðja hana formlega áður en ég færi. Þá leist henni ekki betur en svo á blikuna að hún vildi stökkva upp í fangið á mér. Auðvitað tók ég hana að mér í smástund. Það leit hún á sem staðfestingu þess að hún væri að fara með mér og tók upp á því undir eins að dreifa fingurkossum yfir salinn - kampakát með velheppnaðan dag. Ég leiðrétti þetta ofur varlega og sagði henni að hún yrði hér, en ég kæmi aftur. Leikskólakennararnir voru fljótir með sitt úrræði og sáu að í þessari stöðu væri vænlegast að dreifa athyglinni. Þeir gripu í risastóran saumaðan orm og sýndu henni. Það dugði greinilega og ég læddi mér út vandræðalaust. Þegar ég kom aftur, þegjandi og hljóðalaust, var því strax varpað á mig að "þetta barn er búið að vera eins og engill". Ég sá hana í einu horninu þar sem hún lék sér af yfirvegun og ég varpaði á hana kveðju og hún svaraði glaðlega, en hélt svo áfram að leika sér.

Mér varð hugsað til þeirra tilvika þegar við Vigdís höfum verið í burtu frá Signýju í einhvern tíma, eins og þegar við fórum til Danmerkur í fyrrasumar, eða á Hóteldvölina í Hvalfirði fyrir nokkrum mánuðum. Þá kom nokkuð berlega í ljós að hún er ekki haldin aðskilnaðarkvíða. Það skipti minna máli þá (enda var hún heima hjá sér í höndunum á okkar nánustu) en mikið óskaplega er gott að horfa upp á það núna.

fimmtudagur, júní 07, 2007

Fréttnæmt: Áframhald pestar

Alltaf undrast ég á því hvernig líkaminn getur breytt sér snögglega í háþrýstidælu og skilað mat burt með vélrænni skilvirkni. Hvernig fer hann að þessu? Ég kastaði sem sagt upp í morgun (í fyrsta skipti í mörg ár) og ljóst þar með að aðlögun Signýjar að leikskólanum tefst enn frekar. Hún er sjálf orðin býsna spræk, glaðleg og kát, og sjálfur er ég allur að ná mér eftir að hafa tekið við pestinni í gærkvöldi. Við stefnum ótrauð á dag númer tvö í aðlöguninni á morgun.

þriðjudagur, júní 05, 2007

Þroskaferli: Fyrsti leikskóladagur

Í gær kíktum við í heimsókn í Vesturborg (leikskólanum við hliðina á ísbúðinni). Signý var mjög hrifin af skólanum og var fljót að kynnst krökkunum. Hún beið ekki boðanna eftir að við hengdum upp fötin hennar og gekk rakleiðis á hurðina sem vísaði að leiksvæðinu. Hún dundaði sér eins og heima hjá sér og lét fara vel um sig í fanginu á starfsmönnum og kvaddi að lokum með fingurkossi. Ég er ekki frá því að hún hafi brætt nokkur hjörtu á leiðinni út. Þessi fyrsti dagur var bara klukkutíma kynning og frá mínum bæjardyrum lítur framhaldið mjög vel út. Andinn í skólanum var mjög jákvæður og yfirvegaður og ekki skemmir fyrir að leikskólastýran á afmæli sama dag og Signý.

Þegar heim kom tók hins vegar verra við; Signý borðaði hádegismat en skilaði honum aftur, bæði upp og niður (Hún var þá ekki alveg búin að klára pestina). Síðan þá hefur hún verið mjög dauf og slöpp. Hún kastaði jafnvel vatni upp (salt/sykurlausn), og þá þótti okkur góð ráð dýr. Við lásum okkur til um þetta og skildist að nú væri málið að láta hana drekka mjög lítið í einu, en reglulega (helst skammta með skeiðum til að byrja með). Maginn þurfti bara tíma til að byggja sig upp á ný. Þannig hefur þetta liðið síðan og fram yfir hádegi í dag, en nú er hún líklega á batavegi. Hún er farin að drekka aftur sjálf og stærri skammta og brátt kemur alvöru matur aftur inn á prógrammið.

Þetta er í fyrsta skiptið sem Signý er veik í meira ein einn sólarhring (þessi pest hefur blundaði í henni síðan á föstudag) og hálfgert ástand myndaðist hjá okkur um tíma. Óþægilegast fannst okkur að geta ekki gefið henni að drekka nægju sína þegar hún sárbændi um meira vatn. Þetta var hálfgerð eyðimerkurganga fyrir litlu stúlkuna, sem hún tók af stóískri yfirvegun þegar á leið.

sunnudagur, júní 03, 2007

Daglegt lif: Babb í bátinn

Á föstudaginn var átti Signý að byrja í leikskólanum, með klukkutíma heimsókn (síðan verður næsta vika stigvaxandi aðlögun). Það vildi hins vegar svo óheppilega og undarlega til að hún vaknaði veik sinn fyrsta skóladag. Hún gubbaði snemma morguns og var með vaxandi hita fram eftir degi. Það sem er undarlegt við þetta er að Signý hefur nánast aldrei orðið veik (nema eftir sprautur og svoleiðis, og þá stutt í einu). Hún hafði aldrei kastað upp fram að þessu. Tímasetningin var því frekar merkileg tilviljun. Þegar við hringdum í leikskólan og tilkynntum um forföll Signýjar spurði leikskólastjórinn í gamansömum tón hvort hún væri ekki bara með "skólakvíða". Því er að sjálfsögðu ekki að skipta enda höfum við Vigdís hlakkað til fyrir hennar hönd og ef hún hefur tekið eitthvað inn á sig þá er það frekar jákvætt.

Það er helst af Signýju að frétta að hún virðist vera búin að ná sér að fullu. Í gær, laugardag, var hún hitalaus en hálf slöpp eftir föstudaginn. Í dag er hún að fullu orðin lík sjálfri sér. Við höldum því ótrauð áfram á morgun að kynna okkur lífið á leikskólanum.

laugardagur, júní 02, 2007

Fréttnæmt: Skírnin

Nú ætti að vera augljóst hvers vegna dagbókin mín á netinu heitir "Vikuþankar". Ég setti mér upphaflega það markmið að skrifa inn á hana vikulega, kannski oftar. Þegar erillinn er hvað mestur lít ég á það sem lágmarks "viðhald" að setja eitthvað inn í hverri viku. Í síðustu viku tókst mér ekki einu sinni að ná þessu lágmarki, þrátt fyrir merka atburði að undanförnu. Þetta er kannski tímanna tákn, öðru fremur, enda er vart þverfótað fyrir verkefnum heima fyrir þessa dagana.


Skírnartertan
Fleiri myndir eru á myndasíðunni.



Yngri dóttir okkar var skírð í síðustu viku, fyrir nákvæmlega viku síðan. Allt gekk ljómandi vel, enda var hún bara þriggja vikna gömul og svaf alla athöfnina af sér og megnið af veislunni. Stóra systir horfði pen á og hafði gaman af veislunni og skemmti sér í félagsskap yngri gestanna. Veislan var að flestu leyti lík Signýjarveislu nema hvað að rennslið var lipurra og ég er ekki frá því að fólk hafi verið mjög afslappað (síðast voru flestir í fjölskyldum okkar Vigdísar að kynnast). Við þökkum öllum innilega fyrir samveruna enda tókst þetta allt sérlega vel og veðrið brakandi blítt (hverjum ber að þakka það?). Sérstaklega langar mig að þakka Granaskjólsorganistanum okkar, Bjarti Loga, fyrir sitt trausta framlag. Séra Bragi á að sjálfsögðu sambærilegar þakkir skilið, en ekki reikna ég með að hann lesi þetta hvort eð er. Hann er ákaflega kumpánlegur náungi, þrátt fyrir sitt formlega hlutverk, og kvaddi okkur með orðunum: "Sjáumst á sama tíma að ári".