föstudagur, júní 22, 2007
Þroskaferli: Hugrún heldur höfði og brosir breitt
Lítið hef ég minnst á framgang litlu dömunnar á heimilinu en hún tekur stórstígum framförum að okkar mati. Nýlega ýjaði ég að þessu þegar ég talaði um hversu hratt hún stækkaði og þyngdist. Frá því hún var skírð, þriggja vikna gömul, höfum við tekið eftir því að hún er komin á annað stig í þroskaferlinu. Fyrsta stigið er þegar börn eru innræn og beina athygli sinni að eigin líðan og taka vart eftir því sem gerist í kring. Þau eru þá ekkert að skoða sig um eða svara svipbrigðum foreldranna. Það eina sem skiptir máli er hvíld, hægðalosun, þvaglosun og móðurmjólkin. Strax á þriðju viku, sem sagt, tókum við eftir að þetta var að breytast. Hugrún var farin að brosa mjög markvisst til okkar daginn fyrir skírn. Hún hélt jafnframt höfði nokkuð vel, í nokkrar sekúndur í senn. Síðan þá hefur brosið breikkað og styrkurinn í hálsvöðvum aukist jafnt og þétt. Núna er hún fær um að lyfta höfðinu sjálf, þar sem hún liggur framan á okkur. Hún virðir okkur fyrir sér mjög gaumgæfilega. Brosið er orðið að sannkölluðu samskiptabrosi. Meira að segja þegar hún kvartar undan sárum verkjum þá hefur oft reynst gæfulegast að snúa henni að sér og spjalla við hana á blæbrigðaríkan hátt. Þá sjatnar "verkurinn" og hún "spjallar" á móti með ákaflega sjarmerandi svipbrigðum. Hún er nefnilega að verða talsvert mikil fyrir selskapinn - og það finnst okkur góðs viti.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli