þriðjudagur, júní 05, 2007

Þroskaferli: Fyrsti leikskóladagur

Í gær kíktum við í heimsókn í Vesturborg (leikskólanum við hliðina á ísbúðinni). Signý var mjög hrifin af skólanum og var fljót að kynnst krökkunum. Hún beið ekki boðanna eftir að við hengdum upp fötin hennar og gekk rakleiðis á hurðina sem vísaði að leiksvæðinu. Hún dundaði sér eins og heima hjá sér og lét fara vel um sig í fanginu á starfsmönnum og kvaddi að lokum með fingurkossi. Ég er ekki frá því að hún hafi brætt nokkur hjörtu á leiðinni út. Þessi fyrsti dagur var bara klukkutíma kynning og frá mínum bæjardyrum lítur framhaldið mjög vel út. Andinn í skólanum var mjög jákvæður og yfirvegaður og ekki skemmir fyrir að leikskólastýran á afmæli sama dag og Signý.

Þegar heim kom tók hins vegar verra við; Signý borðaði hádegismat en skilaði honum aftur, bæði upp og niður (Hún var þá ekki alveg búin að klára pestina). Síðan þá hefur hún verið mjög dauf og slöpp. Hún kastaði jafnvel vatni upp (salt/sykurlausn), og þá þótti okkur góð ráð dýr. Við lásum okkur til um þetta og skildist að nú væri málið að láta hana drekka mjög lítið í einu, en reglulega (helst skammta með skeiðum til að byrja með). Maginn þurfti bara tíma til að byggja sig upp á ný. Þannig hefur þetta liðið síðan og fram yfir hádegi í dag, en nú er hún líklega á batavegi. Hún er farin að drekka aftur sjálf og stærri skammta og brátt kemur alvöru matur aftur inn á prógrammið.

Þetta er í fyrsta skiptið sem Signý er veik í meira ein einn sólarhring (þessi pest hefur blundaði í henni síðan á föstudag) og hálfgert ástand myndaðist hjá okkur um tíma. Óþægilegast fannst okkur að geta ekki gefið henni að drekka nægju sína þegar hún sárbændi um meira vatn. Þetta var hálfgerð eyðimerkurganga fyrir litlu stúlkuna, sem hún tók af stóískri yfirvegun þegar á leið.

Engin ummæli: