laugardagur, júní 02, 2007

Fréttnæmt: Skírnin

Nú ætti að vera augljóst hvers vegna dagbókin mín á netinu heitir "Vikuþankar". Ég setti mér upphaflega það markmið að skrifa inn á hana vikulega, kannski oftar. Þegar erillinn er hvað mestur lít ég á það sem lágmarks "viðhald" að setja eitthvað inn í hverri viku. Í síðustu viku tókst mér ekki einu sinni að ná þessu lágmarki, þrátt fyrir merka atburði að undanförnu. Þetta er kannski tímanna tákn, öðru fremur, enda er vart þverfótað fyrir verkefnum heima fyrir þessa dagana.


Skírnartertan
Fleiri myndir eru á myndasíðunni.



Yngri dóttir okkar var skírð í síðustu viku, fyrir nákvæmlega viku síðan. Allt gekk ljómandi vel, enda var hún bara þriggja vikna gömul og svaf alla athöfnina af sér og megnið af veislunni. Stóra systir horfði pen á og hafði gaman af veislunni og skemmti sér í félagsskap yngri gestanna. Veislan var að flestu leyti lík Signýjarveislu nema hvað að rennslið var lipurra og ég er ekki frá því að fólk hafi verið mjög afslappað (síðast voru flestir í fjölskyldum okkar Vigdísar að kynnast). Við þökkum öllum innilega fyrir samveruna enda tókst þetta allt sérlega vel og veðrið brakandi blítt (hverjum ber að þakka það?). Sérstaklega langar mig að þakka Granaskjólsorganistanum okkar, Bjarti Loga, fyrir sitt trausta framlag. Séra Bragi á að sjálfsögðu sambærilegar þakkir skilið, en ekki reikna ég með að hann lesi þetta hvort eð er. Hann er ákaflega kumpánlegur náungi, þrátt fyrir sitt formlega hlutverk, og kvaddi okkur með orðunum: "Sjáumst á sama tíma að ári".

Engin ummæli: