Fyrir nokkrum dögum síðan áttum við Vigdís fimm ára afmæli saman. Við kynntumst 18. maí 2002 og höfum haldið upp á daginn síðan. Fyrir þremur árum trúlofuðum við okkur á þessum degi, sællar minningar (og munum líkast til halda upp á fimm ára trúlofunarafmæli eftir tvö ár). Það er kannski tímanna tákn að í þetta skiptið gafst okkur enginn tími til að gera neitt saman. Við fórum reyndar daginn eftir í stutta Smáralindarferð þar sem við fengum okkur eitthvert lítilræði í gogginn, en það telst varla með. Helsta ástæða þess að við gáfum okkur ekkert persónulegt svigrúm var sú að við erum í óða önn að undirbúa skírnina hennar... litlu systur. Upphaflega höfðum við þann átjánda í huga fyrir skírnina, svo að þetta félli nú allt saman við kerfið okkar. Signý var nefnilega skírð á afmælisdaginn minn fyrir ári síðan (átjánda mars) sem passaði þokkalega inn i grunnhugmyndina. Í þetta skiptið reyndist dagsetningaleikurinn ekki hentugur. Skírnin verður því haldin á laugardaginn kemur, 26. maí. og verður, að öðru leyti með sama sniði og hjá Signýju í fyrra (fyrir þá sem það muna).
Talandi um dagsetningar þá er vel við hæfi að minnast á það hér í framhjáhlaupi að Signý byrjar í leikskóla fyrsta júní næstkomandi. Við erum ekki síður spennt fyrir þeim tímamótum en skírninni.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli