föstudagur, maí 11, 2007

Daglegt líf: Þyngdaraukning og vöxtur

Það er eins og við manninn mælt, um leið og ég hef imprað á vökunóttum taka hlutirnir að breytast. "Litla systir" er búin að sofa vel undanfarnar nætur. Það virðist standast, sem margir héldu fram við okkur, að óværan stafaði af hreinsun eftir fæðinguna. Sú "litla-litla" er ekki nærri eins brúnaþung og fyrstu dagana og situr vær í fanginu á okkur og virðir fyrir sér heiminn á milli þess sem hún drekkur. Hún er reyndar mikill mjólkursvelgur og á það til að vera meira eða minna á brjósti tímunum saman.

Nú erum við formlega útskrifuð af fæðingardeildinni. Um daginn kom ljósmóðirin í síðasta skipti til okkar og við "leystum hana út" með óútsprungnum túlípönum úr garðinum. Hún var einmitt búin að dást að blómskrúðinu fyrir utan stofugluggann svo það var vel við hæfi. Hún skoðaði litlu stúlkuna vel og vandlega síðasta daginn og undraðist á því hvað hún dafnaði vel. Hún var nú þegar búin að ná upphaflegri þyngd sinni (en börn léttast dagana eftir fæðingu og þyngjast svo aftur). Ekki nóg með það, heldur var þyngdaraukningin með meira móti. Á tveimur dögum (frá síðustu mælingu) hafði hún þyngst um 210 grömm (reyndar var um aðra vigt að ræða en áður svo að skekkjumörk geta verið 50 gr. til eða frá). Þetta er í samræmi við áfergjuna sem litla mjólkurþyrsta dóttir okkar býr yfir.

Það er ýmislegt sem nýfædd dóttir okkar býr yfir annað en mikill þorsti og myndarlegt hár. Hún er afar löng miðað við þyngd og ljósmóðirin dáðist oft að þessum vext hennar. Við höfðum sjálf skýran samanburð við Signýju, hvað stærðina varðar, vegna þess að hún er nú þegar búin að "vaxa upp úr" fyrstu fötum Signýjar - og var reyndar of stór fyrir þau föt við fæðingu. Okkur sýnist hún meira að segja strax orðin of stór fyrir þau föt sem hún komst í fyrstu dagana. Hlutirnir gerast sem sagt hratt á þessum bæ.

Engin ummæli: