þriðjudagur, maí 01, 2007

Fréttnæmt: Fæðing afstaðin

Eftir langa bið að undanförnu og er önnur dóttir okkar Vigdísar loksins komin í heiminn. Hún fæddist í gær, þann þrítugasta apríl, klukkan 16:21. Hún vóg 3790 grömm (um 15 merkur) og spannar eina 54 cm (og er að mér skilst fremur löng miðað við þyngd). Hún er afar hárprúð og stingur það nokkuð í stúf við Signýju, sem enn er að safna.

Fæðingin gekk mjög hratt og vel fyrir sig að því undanskildu að hún var mjög lengi að fara af stað. Við mættum samkvæmt áætlun stundvíslega klukkan níu á sunnudaginn var (29.4) og þá hvíldumst við uppi á fæðingardeild á meðan beðið var eftir að eitthvað færi af stað. Fyrsta inngrip var sem sagt ákveðin gerð af stílum sem tóku eina sex tíma að ná fullri virkni og komu engu af stað. Við meira að segja náðum að sofa milli miðnættis og hálf fimm. Síðan leiddi eitt af öðru. Ekki ætla ég að telja upp inngripin hér en það var ekki fyrr en eftir hádegi í gær sem eitthvað fór að gerast fyrir alvöru. Um klukkan tvö má segja að fæðingin hafi farið af stað og henni lokið rúmum tveimur tímum seinna. Við náðum mjög góðum tengslum við ljósmóðurina á dagvaktinni og vorum svo heppin að hún gat haldið áfram og klárað fæðinguna með okkur. Hlutirnir gerðust hratt í lokin. Það kom okkur Vigdísi báðum talsvert á óvart þegar hárprúður kollurinn mjakaðist út. Að því leytinu til er hún mjög ólík Signýju og satt að segja ekki gott að átta sig á því hverjum hún líkist mest, en falleg er hún.


Nýfædd litla systir

Við fórum strax eftir fæðinguna inn á "Hreiðrið", sem er á næsta gangi. Hreiðrið er ætlað þeim sem ekki þurfa sérstakt eftirlit (sem sagt, heilbrigða móður og barn). Það gátum við ekki síðast af því Signý var nánast fyrirburi og þurfti sérstakan stuðning til að byrja með. Á Hreiðrinu fær maður að gista við besta hugsanlega aðbúnað í einn sólarhring en fara síðan heim eftir það. Þar eru ljósmæður og læknar tiltækir, að sjálfsögðu, en að öðru leyti er þetta eins og heimilislegt hótel. Þar má maki vera með yfir nótt í tvíbreiðu rúmi. Hvíldin sem maður fær við þetta er ómetanleg. Við lokuðum okkur af þennan tíma (rétt hrindum í foreldra okkar en lokuðum síðan símunum). Við komum heim rétt áðan leyfðum nánustu aðstandendum að kíkja á okkur. Við kvikmynduðum merkileg viðbrögð Signýjar við óvenjulegri heimkomunni (sem einkenndust af undrun, efasemdum og væntumþykju). En nú er ró komin í húsið og í þessum pikkuðum orðum eru dúllurnar þrjár allar í miðjum værum blundi.

3 ummæli:

Unknown sagði...

Innilegar hamingjuóskir með stúlkuna, stóra fjölskylda! Gott að allt gekk vel og að þið fenguð góða hvíld.

Nafnlaus sagði...

Elskurnar ...Til hamingju ...
Ég hlakka mikið til að kynnast litlu frænku minni....

Bestu kveðjur héðan...

Begga --og börn

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega til hamingju með áfangann. Lítum við til ykkar þegar þú gefur grænt ljós
Kveðja
Jón Már og Margrét