sunnudagur, apríl 29, 2007

Fréttnæmt: Lokakaflinn

Nú erum við búin að fara upp á fæðingardeild þrisvar í vikunni. Fyrst var það á þriðjudaginn var en einmitt aðfaranótt þess dags fékk Vigdís umtalsverða verki (eins og ég greindi frá í blogginu). Þá fór hún í mónitor og allt virtist með felldu. Við vorum hvött til að bíða fram á fimmtudag en þá fór Vigdís aftur í mónitor. Ekkert nýtt kom í ljós. Þá var okkur boðið að koma á ný á laugardag, bæði í mónitor og mat. Ég sneri nú út úr þessu á leiðinni út og sagði að við værum orðnir svo tíðir gestir að það væri bara við hæfi að bjóða okkur í "mat". Nema hvað, á laugardaginn fór Vigdís enn einu sinni í mónitor og aftur reyndist allt vera með felldu. "Þeirri litlu líður bara svo vel að hún tímir ekki að fara út", sagði Vigdís, og bætti við að hún væri ábyggilega nautnaseggur. Svo komu læknarnir (nokkrir, enda alltaf einhver með í för sem er að læra af hinum). Eftir nokkurra mínútna skoðun mátu þeir stöðuna og sögðu að hún væri komin með 1-2 í útvíkkun (sem getur varað í þó nokkurn tíma, skilst mér). Þeir fundu tíma á sunnudagskvöldið klukkan níu (í kvöld, sem sagt). Þá verður reynt að flýta svolítið fyrir - með sem minnstum inngripum. Mögulega gerast hlutirnir mjög hratt þegar þeir á annað borð fara af stað, en einnig er eðlilegt að fæðingin taka rúmlega sólarhring.

Við förum því í síðasta skiptið upp á spítala í kvöld og komum ekki heim fyrr en litla systir Signýjar er komin í fangið á okkur. Mögulega verðum við þar í heilan sólarhring - ef við fáum að vera inni á "Hreiðrinu" (þar sem maki getur gist í sérherbergi með móður og barni). Það fer að einhverju leyti eftir því hvernig fæðingin gengur fyrir sig.

Eftir þessa heimsókn er orðið ljóst að komið er að lokakaflanum í þessari löngu sögu. Sú litla var nánast búin að skorða sig í gær og í dag virðist hún hreyfa sig örlítið minna en áður (sem er vísbending um skorðun). Hún er orðin stór og myndarleg (um það bil 16-17 merkur, skv. lækninum) og ætti að fara létt með að pluma sig úti í hinum stóra heimi.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Við sendum góða strauma frá Flórens og vonum að allt gangi sem best!