þriðjudagur, apríl 24, 2007

Fréttnæmt: Takmarkið nálgast

Á morgun verða fjórar vikur liðnar umfram fyrri meðgönguna, en Signý fæddist sem sagt á 37 viku + 3 dagar. Núna eru liðnar 41 vika og gott betur (2 dagar). Þetta hefur komið öllum sem með fylgjast mjög á óvart, ekki síst okkur hér heima sem búum okkur undir fæðingu dag frá degi í margar vikur samfleytt. Undanfarið hefur ekkert komið upp sem minnir á lokaferli meðgöngu annað en það að ég fer aldrei langt að heiman í einu og er stöðugt í vökulu gemsasambandi. Ég skrepp meðal annars út í göngutúr með Signýju daglega, oftast á nærliggjandi leikvöll, en stundum lengra. Þegar við fáum aðstoð að kvöldi til höfum við Vigdís rölt hringinn í hverfinu. Undarlegt að vera svona bundinn þessum þrönga radíus í svona langan tíma.

Einhves staðar las ég að ef maður viðheldur nýju lífsmynstri í þrjár vikur í senn þá kemst það upp í vana. Það erum við að upplifa núna. Tilhugsunin um að fæðing sé á næsta leyti er ekki nærri eins áleitin og fyrir mánuði síðan. En svo, þegar biðin er komin upp í vana, er viðbúið að hlutirnir gerist skyndilega og allt breytist á ný. Í nótt var einmitt bankað upp á hjá okkur. Vigdís fékk mikinn verk og reglulegan, sem hjaðnaði en kom stöðugt aftur. Bumban harðnaði öll. Við héldum að þetta væri að bresta á. Við vonuðumst til að ná nætursvefni (því maður vill vera sæmilega ferskur í fæðingunni) og reyndum að slaka á. Ég fékk að sofna aftur og Vigdís náði að sofna nokkru síðar. Seinni hluti næturinnar var hins vegar afslappaður og ekkert gerðist eftir það. Í dag hefur allt verið með kyrrum kjörum. Vigdís þurfit að sofa betur út en ég sem fór í langan göngutúr með Signýju. Við búumst við annarri svipaðri nótt framundan. Hugsanlega með öðrum lokakafla. Þetta er nefnilega spurning um morgundaginn, eða hinn, því á fimmtudag eigum við tíma pantaðan í "mónitor", þar sem gangsetning í kjölfarið kemur til greina. Helst viljum við að þetta gerist af sjálfu sér fyrir þann tíma.

Engin ummæli: