sunnudagur, apríl 01, 2007

Pæling: Egg í málshætti

Það er náttúrulega algjör snilld að þjófstarta páskunum um heila átta daga. Við brutum eggið í gær vegna þess að það eru þokkalegar líkur á því að páskarnir muni þurfa að mæta afgangi eftir viku. Miðað við það að vera nýkominn í páskafrí (eins og aðrir kennarar) finnst mér vel við hæfi að halda bara upp á páskana strax. Slappa síðan af.

Reyndar braut ég annað egg, örlítið "álegg" (álpakkað), á föstudaginn í vinnunni. Lítil páskastund fyrir frí. Þá hlakkaði ég til að sjá málshættina sem kæmu upp úr eggjunum og í fljótfærninni sneri ég setningunni á hvolf. Er hægt að finna "egg" í málshætti? Þetta minnti mig á titil jógabókar sem hét "Haf í dropa". Það er spurning. Ef einhver rekst á málshátt sem fjallar um egg, látið mig þá vita. Þá höfum við rekist á "egg í málshætti".

2 ummæli:

Unknown sagði...

Ég er með eitt egg í málshætti:

Eggið kennir hænunni að verpa.

Gott hjá ykkur að brjóta eggið snemma, ég get varla beðið eftir að opna mitt...

Steini sagði...

Prýðilegt dæmi. Reyndar er þessi setning ein og sér dæmi um hugsun á hvolfi og vekur mann til umhugsunar. Minnir mig á spakmæli sem ég heyrði fyrir mörgum árum og er eitthvað á þessa leið: "Það eru ekki fullorðnir sem búa til börn heldur búa börn til fullorðna".

Gleðilega páska