þriðjudagur, apríl 17, 2007

Fjölmiðlar: Útvarpsviðtal um náttúruvernd

Enn erum við við sama heygarðshornið í Granskjólinu. Á meðan ekkert er að gerast (Vigdís er ótrúlega afslöppuð þessa dagana) þá vil nýta tækifærið til að garfa í gömlum fréttum. Á laugardaginn var heyrði ég nefnilega athyglisvert viðtal í Ríkisútvarpinu (Út um græna grundu) við Jón Gunnar Ottóson forstöðumann Náttúrufræðistofnunar Íslands. Fjallað var um náttúruvernd út frá öðrum sjónarhóli en við höfum vanist undanfarin misseri (þar sem umræðan um virkjanir er allsráðandi): Viðtalið fjallaði um verndun svæða í stóru samhengi þar sem bent var á að ekki væri nóg að taka svæði frá og segja "þetta er fallegt" og setja inn á einhvern lista. Það þarf líka að rannsaka svæðin og skilgreina þau, bæði til að auka þekkingu okkar á náttúru landsins og til þess að réttlæta útnefningu svæðisins. Til þess þarf fjármagn. Í mörgum tilvikum þarf ekki að leggja út í frumrannsóknir heldur er nóg að taka saman þekkingu sem nú er til staðar. Þetta fjármagn hefur ekki verið veitt nógu duglega (og kemur það væntanlega fáum á óvart). Þetta er hins vegar lykillinn að því að skilgreina svæðin og sækja um aðgöngu þeirra að alþjóðlegum verndarlistum, eins og heimsnáttúruminjaskrá UNESCO. Í viðtalinu kemur í ljós að við höfum ekki verið nógu dugleg að sækja um þetta enda má sjá á lista UNESCO ríki með mun fleiri verndarsvæði en við en teljast þó seint merkieg lönd í náttúrufarslegu tilliti. Þegar sótt var um Þingvelli á sínum tíma var það reynt með það fyrir augum að skilgreina Þingvelli í heimsklassa, bæði fyrir náttúrufar og menningarsögu. Með því hefðu Þingvellir komist í sérstakan flokk þeirra svæða sem teljast merkileg á heimsvísu fyrir bæði náttúru og menningarsögu. Vegna ónógra upplýsinga um náttúrufar var umsókninni hins vegar hafnað. Í stað þess að vinna þessar upplýsingar upp og sækja um á ný (sem hefði bara kostað fáeinar milljónir) var sótt um á ný, en í þetta sinn aðeins í ljósi menningarsögu svæðisins. Þessi metnaðarlausu vinnubrögð eru náttúrulega hneykslanleg og satt að segja grunar mig að leti yfirvalda í að kosta rannsóknir af þessu tagi stafi af því að þeir vilja ekki láta binda hendur sínar of mikið í alþjóðlegum samþykktum. Þeirra hagsmunamál er að sjálsögðu að halda umræðunni um virkjanamál sem mest innanlands.

Viðtalið við Jón Gunnar er líka athyglisvert að því leyti að hann stiklar á stóru yfir sögu náttúruverndar á Íslandi. Hér eru nokkrir punktar: Árið 1956 voru sett fram fyrstu náttúruverndarlögin. Þá voru aðeins tvö svæði á Íslandi vernduð: Þingvellir og Eldey. Þegar lögin voru endurmetin 1971 höfðu fjögur svæði bæst við (Surtsey, Skaftafell, Hveravellir og Rauðhólar). Síðan þá hefur bylgja riðið yfir og vitund okkar um náttúruvernd vaknað til muna. Nú eru yfir tvö hundruð svæði vernduð með einhverjum hætti (mismunandi verndunarstigi) og teljast þau samanlagt til um 40% landsins. Nú er svo komið að það má fara að taka til í þessum fremur sundurlausa lista og setja okkur verndarmarkmið. Það gæti kallað á endurskilgreiningu margra þeirra svæða sem búið er að taka frá.

Engin ummæli: