Nú fer að draga til tíðinda á meðgöngunni. Í gær vaknaði Vigdís seinni partinn eftir væran miðdegisblund og var vön því að vera vel upplögð í kjölfarið. Það var öðru nær í þetta skiptið. Hún fann fyrir verkjum í kviðarholinu og kraftmiklum samdráttum. Þetta kom í hryðjum með smá pásum inn á milli. Henni þótti nóg um eftir um hálftíma og ræsti út aðstoð (Ásdís systir hennar býr í nágrenninu). Það var nauðsynlegt til að ég gæti helgað mig Vigdísi vegna þess að Signý var óvenju spennt og fyrirferðarmikil á sama tíma (það var eins og hún skynjaði að eitthvað væri í aðsigi). Eftir um það bil hálftíma í viðbót af verkjum og símtal upp á fæðingardeild fór að slakna á öllu á ný. Vigdís fór að geta gengið um og verið eins og hún á að sér. Þær systurnar fóru meira að segja saman í göngutúr nokkru seinna. En þetta var viðvörun. Við notuðum tækifærið og kláruðum að fara yfir töskurnar sem eiga að fara með okkur upp á deild því nú getur þetta farið af stað á hverri stundu.
Nóttin leið hins vegar átakalaust og ég gat leyft mér að fara í vinnu í morgun (með gemsann á mér öllum stundum). Það var í raun heppilegt að fæðingin skyldi ekki fara af stað í gær því í dag áttum við pantaðan tíma hjá ljósmóður. Það er gott að fá faglegt mat svona á endasprettinum. Það lítur allt mjög vel út að hennar mati. Blóðþrýstingur er góður og ekki nein merki um meðgöngueitrun (ólíkt því sem var í fyrra). Hún áætlar að barnið muni vera orðið allmyndarlegt nú þegar og þegar það fæðist (sem verður líklega fyrir helgi - ekki mikið seinna en það) muni það vera um þrettán merkur. Ekki veit ég hvernig hún metur þetta svona með höndunum en maður skal ekki vanmeta reynsluna sem þarna liggur að baki. Við bíðum hins vegar átekta og reynum að hvíla okkur vel í aðdragandanum. Núna í dag, seinni partinn, kom aftur smá verkjahrina. Hún var vægari en í fyrra skiptið en hún heldur okkur sannarlega við efnið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
En spennandi! Gangi ykkur vel :-)
Skrifa ummæli