Í nótt breyttist hrútur í naut. Hér er ég að vísa í stjörnumerkin sem allir þekkja. Ekki veit ég hvort merkið er ákjósanlegra fyrir fjölskyldumynstrið en þrjóska (eða þrautseigja) er eignuð þeim báðum. Vigdís er mikil áhugamanneskja um stjörnumerkin og hefur gluggað í einhverjar bækur um þetta. Samkvæmt henni er nautið ívið þrjóskara en hrúturinn, en hrúturinn hins vegar stjórnsamari. Annars eru þetta opin "vísindi" og bjóða upp á alla vegana túlkun. Aðalatriðið er að hafa gaman af þessu og vera meðvitaður um það að uppeldi og ytri aðbúnaður er það sem skiptir mestu.
Í minni fjölskyldu eru fjölmargir hrútar. Reyndar er það svo að meira en helmingur fjölskyldunnar minnar (þ.e. þeirri sem ég fæddist inni í) á afmæli á vormánuðum. Á þriggja mánaða tímabili frá miðjum febrúar og fram í miðjan maí eiga fjórir af sjö fjölskyldumeðlimum afmæli: pabbi á afmæli 17. feb. og ég 18. mars, mamma 2. apríl og Villi bróðir 20. apríl (sem er í dag). Auk þessa raðast þarna inn í tvíburabróðir mömmu (augljóslega sama dag og hún) og systir þeirra, Ína, sem á afmæli sama dag og Villi bróðir (í dag, sem sagt). Dóttir Rabba, tvíburabróður mömmu, á auk þess afmæli eftir tvo daga. Guðný systurdóttir mín átti einnig afmæli í gær - 19. apríl en Fannar, bróðir hennar, í maí. Við þetta bætast svo nýir fjölskyldumeðlimir sem ég hef sjálfur raðað kringum mig: Vigdís (6. febrúar - rétt sleppur) og systir hennar, Mæja (3. apríl) og sonur hennar, Hörður (4. apríl).
Það bar því vel í veiði fyrir dóttur okkar ef hún vildi eiga afmæli með einhverjum náskyldum. Vigdís var upprunalega sett á bilinu 7. apríl sem síðar var breytt í 15. apríl (seinni nálgun - sem reyndist marktækari). Miðað við það að Signý fæddist tveimur vikum fyrir tímann vorum við farin að búast við hverju sem er í byrjun apríl. Hinir og þessir pöntuðu fæðingu upp úr siðustu mánaðamótum enda komu fæðingardagarnir á færibandi: 2. apríl, 3. apríl og 4. apríl. En við sigldum þar framhjá án vandkvæða.
Síðan kom smá pása og við Vigdís vorum eiginlega sannfærð um að dóttir okkar myndi eignast sinn eigin "frumlega" fæðingardag, enda virtist hún ætla að fara af stað fyrir rúmlega tíu dögum. En biðin lengdist. Við erum sem sagt aftur kominn inn í frumskóg "frátekinna" fæðingardaga: 19. apríl, 20. apríl og 22. apríl. Það væri óneitanlega sniðugt ef fæðingin færi af stað þarna á milli (21. apríl) eða tveim dögum seinna (23. apríl). Þá verður afmælisdagatal fjölskyldunnar að vori til eins og snyrtilega röðuð perlufesti.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli