Í dag kom Ásdís (systir Vigdísar) og Sunna (systurdóttir þeirra) færandi hendi með eggjabakka sem innhélt sex lítil páskaegg. Þetta er sniðug framleiðsla, sérstaklega fyrir þá sem vilja minna súkkulaði en þeim mun fleiri málshætti. Við fengum okkur öll sitt hvort eggið: Ásdís, Sunna, Vigdís, ég, Signý og ... litla systir.
Ég tók upp fyrsta málsháttinn: "Sjaldan er flas til fagnaðar". Það passar svo sem ágætlega miðað við það að ég hef lítið gaman af að trana mér fram að óþörfu. Það hefur þó færst í aukana með aldrinum. Ásdís tók upp næsta málshátt: "Sjaldan er greinin betri en bolurinn". Okkur fannst alveg ótækt að ímynda okkur þetta í samhengi við foreldra og börn. Börn geta auðveldlega tekið foreldrum sínum fram á öllum sviðum en líka verið eftirbátar þeirra. Það er engin regla fyrir þessu. Mér fannst hins vegar auðvelt að yfirfæra þetta upp á listaheiminn þar sem eftirhermurnar taka fyrirmyndum sínum sjaldan fram. Það sem var sérlega gaman við að Ásdís skyldi fá þennan málshátt var að Ásdís vinnur við garðyrkju. Þá var komið að Sunnu: "Tíminn læknar öll mein". Sá málsháttur er auðskiljanlegur. Signý fékk hins vegar "Betra er blátt en ekkert" (Þar fylgdi orðskýringin "Blátt: blávatn"). Blávatn er útþynnt vatn, næringarsnautt, og er notað oft yfir þá sem lítils eru megnugir. Mér fannst gaman að túlka málsháttin fyrir Signýju á þann veg að "ekki skuli vanmeta framlag þeirra sem minna mega sín". Vigdís fékk: "Sjaldan eldast skólabræður". Maður kannast nú við það að hafa eignast félaga og vini á ákveðnum stað í tilteknu samhengi (skóla eða ferðalagi) en geta ekki haldið kunningskapnum til streitu utan þess. Þessu lenda allir í og í raun er það ákveðin ráðgáta hvers vegna sumir vina manna eldast með manni en aðrir ekki. Að endingu var það "litla systir" sem hjúfraði sig í móðurkviði ómeðvituð um uppákomuna: "Sjaldan er flas til farnaðar". Aftur. Ég fékk þetta líka. Ætli þetta sé vísbending um einhver andleg tengsl milli okkar feðgina? Það er að minnsta kosti vel við hæfi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli