föstudagur, júlí 18, 2003

Frí í Reykjavík gerði mér gott. Læknir kippti ofnæminu í lag með einni sprautu. Ég anda. Endurfæddur, nánast. Ótrúlega gaman að upplifa glæsilegt sumarið án pirrings í öllum vitum. Keypti mér meira að segja sumarföt, léttar kálfsíðar buxur í stíl við sumarskyrtu. Nú er gaman að vera til. Við Vigdís höfum eytt megninu af mínu þriggja daga fríi í rólegheitum. Engar langferðir eða neitt í þeim dúr, nema hvað, við fórum í Hvalaskoðun út frá Reykjavíkurhöfn. Elding stendur sig í stykkinu með skjólgóðum báti. Það er frábær skemmtun að elda hvali í góðu veðri og spóka sig í leiðinni á þilfarinu.
Í fyrramálið fer ég eldsnemma með rútu og mæti í Skaftafell síðdegis, vel birgður bókakosti um sveitina: Fornir búskaparhættir og Saga Skeiðarárhlaupanna er svona það helsta að ótöldum blómaskruddum af ýmsum stærðum :-)

Steini

föstudagur, júlí 04, 2003

Nú er ég kominn í Skaftafell þar sem rignir daglega, - að minnsta kosti enn sem komið er. Veður er samt að mestu leyti skaplegt og laust við hvassviðri. Á hverjum degi hef ég verið að ganga upp í hæðirnar að skoða fossana eða tölta upp að rótum Skaftafellsjökuls þar sem lofthitinn lækkar um fimm gráður eftir því sem maður nálgast. Svæðið er magnað en vistarverur nokkur hráslagalegar. Ofnæmið kroppar andstyggilega í öll vit. Þessu þarf ég að redda þegar ég kem heim í frí í þrjá daga kringum miðjan júní. Annars er ég sáttur við stöðu mála, sérstaklega við að hafa náð að framleigja íbúðina mína í bænum. Með því móti náði ég að halda einum þriðja af vistarverunum út af fyrir mig en leigja út hina tvo þriðju og spara mér þannig nokkra tugi þúsunda. Jafnframt sé ég fram á að geta nýtt mér holuna mína í haust til að hafa það gott þegar ég kem til baka, helli mér út í vetrarvinnuna, skólann og alla þá rútínu áður en ég fer að skima um eftir nýju húsnæði í sept./okt.

Kveðja,
Þorsteinn