miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Matur: Hollenskt góðgæti

Í Brúarskóla gætir óvenju mikilla hollenskra áhrifa. Ég á sjálfur rætur að rekja til Hollands, að fjórðum hluta í föðurætt, og með mér starfar hollensk kona, Lillianne að nafni. Hún skrapp til Hollands í persónulegum erindagjörðum yfir helgina og kom til baka með veitingar sem áttu aldeilis upp á pallborðið hjá okkur hinum. Hún kom með þennan dýrindis Gauda ost sem ég kjamsaði á af mikilli nautn í kaffitímanum með einföldu hrökkbrauði (til að osturinn nyti sín sem allra best). Í samanburði er samnefndur ostur sem er framleiddur hér á Íslandi algerlega bragðlaus. Það er eiginlega ótrúlegt að þeir skuli leyfa sér að nota nafnið. En ég fékk sjálfur litla tækifærisgjöf sem var ansi skemmtileg. Þar sem ég get rakið ættir mínar til Hollands, og á von á barni á næstunni, þá færði hún mér lítinn pakka með hvít- og bleikhúðuðum anísflögum. Það er smá saga á bak við það. Þetta er svona álegg sem sáldrað er yfir brauð og kex. Hollendingar nota það óspart í staðinn fyrir venjulegt smurálegg. Það festist í sjálfu smjörinu og liggur þar þangað til það fær að braka undir tönn. Í gamla daga komst ég í svona álegg hjá ömmu minni. Hún keypti alltaf súkkulaðiálegg í svona flöguformi. Við kölluðum það "músaskít" okkar á milli og hann var mjög vinsæll í fjölskyldunni. Það sem hún Lillianne færði mér hafði ég hins vegar aldrei áður séð þó það væri frá sama framleiðanda. Mér skildist á henni að það sé hefð fyrir því í Hollandi að nýbakaðir foreldrar bjóði vinum og vandamönnum upp á myndarlegt þykkt kex með anísflögum. Þær eru bleikar og hvítar í þessu tilviki en einnig er hægt að kaupa bláa og hvíta útgáfu. Smellið endilega á Hollandbymail síðuna og veljið "De Ruijter muisjes - pink and white" ef þið viljið fá forsmekkinn af því sem boðið verður upp á í Granaskjóli í byrjun janúar.

Pæling: Vímuefnaneysla ungmenna

Í síðustu færslu var ég eitthvað að lofa pælingar upp í ermina á mér. Í nokkra daga hef ég þurft að sitja á mér. Hér með eru þær hins vegar hristar í allmiklum smáatriðum fram úr henni (erminni, það er að segja).

Ég lá sem sagt um daginn og var að velta fyrir mér orsakasamhenginu sem leiðir til vímuefnaneyslu ungs fólks. Oft er talað um að hún stafi af einhverju einu. Slík hugsun sé augljóslega röng en hún loðir þetta samt sem áður við þetta almenna umtal sem maður er alltaf að heyra útundan sér. Slæmum fjölskylduaðstæðum er oftar en ekki kennt um. Í sömu andrá er gjarnan bent á það að ekki síður megi rekja ólán neytenda til slæms félagsskapar. Svo eru sumir víst meiri "fíklar" en aðrir frá náttúrunnar hendi, hvort sem það eigi sér erfðafræðilega stoð eða ekki. Þröskuldur sá sem sumir einstaklingar þurfa að klífa til að ánetjast virðist einfaldlega vera hærri hjá sumum en öðrum. Það geta ekki allir "prófað" og hætt eins og þá lystir, hvort sem það er áfengi, reykingar, kóladrykkir, súkkulaði eða sterkir vímugjafar.

Þar sem ég lá í makindum um daginn (sjá síðustu færslu) sá ég í hendi mér einfalt módel sem kann að skýra út hvernig helstu áhrifaþættir vímuefnaneyslu vinna saman. Orsakasamhengið birtist allt í einu í ögn margbrotnara samhengi (en samt sem áður mjög skýru samhengi), sem þrír megin áhrifaþættir: Fjölskylduaðstæður, vinahópurinn og erfðafræðilegur veikleiki. Þetta þrennt vinnur alltaf saman með þeim hætti að ekkert eitt þeirra gefur nægjanlega skýringu á neyslumynstri fólks. Að sama skapi geta tveir af þessum þremur þáttum verkað sem nokkuð fullnægjandi skýring á neyslumynstri fólks og þannig í raun eytt út þeim þriðja og gert hann ómerkan.

Tökum dæmi: Ef vinahópurinn er spillandi og hvetur til neyslu og einstaklingurinn er jafnframt líkamlega breyskur þá skipta fjölskylduaðstæður nánast engu máli. Þetta hafa fjölmarkar sterkar fjölskyldur rekið sig á. Þær horfa gjörsamlega ráðþrota á fjölskyldumeðlim hverfa í hyldýpi neyslu án þess að hafa neina skýringu á því hvað gerðist. Með sama hætti ættu sundruð fjölskylda, ofbeldi, neysla eða aðrir erfiðleikar heima við að geta hvatt til neyslu, beint eða óbeint. Til að hlutirnir fari raunverulega úr böndunum þyrfti hins vegar annað hvort líkamlegur veikleiki eða slæmur félagsskapur að fara saman við þetta niðurbrot heima við. Þá fyrst er fjandinn laus, eins og sagt er.

Orsakasamhengið er því eins konar þríhyrningur þar sem tveir þættir af þremur þurfa alltaf að haldast í hendur. Ef slæmar aðstæður heima við og slæmur félagsskapur utan heimilis haldast í hendur er lítið sem kemur í veg fyrir vítahring vímuefnaneyslu, hvort sem viðkomandi er líkamlega veikgeðja eða ekki. Sé hann líkamlega móttækilegur hins vegar þarf ekki nema annað hvort slæmar aðstæður heima eða spillandi félagsskapur utan heimilis til að allt fari í vaskinn. Með sama hætti ættu tveir styrkjandi þættir að geta yfirunnið einn veikan. Slæmar fjölskylduaðstæður ættu ekki einar og sér að leiða fólk út í óhóflega neyslu ef maður er svo heppinn að búa að uppbyggilegum félagsskap utan heimilis og vera jafnframt ekki sérlega móttækilegur líkamlega fyrir vímuástandi.

Þetta módel fannst mér mjög skýrt og einfalt. Það nær að útskýra samhengi hlutanna betur en einfalt orsakasamhengi. Því má hins vegar ekki gleyma að raunveruleikinn er hins vegar miklu flóknari en þetta. Enginn þáttanna þriggja er svo einfaldur að hægt sé að kalla hann annað hvort uppbyggilegan eða spillandi, þó svo maður eigi til að hugsa í þá veruna. Einnig skarast þessir þættir verulega. Mörkin milli félagskapar utan og innan heimilis eru oft óljós. Einnig er andlegur og líkamlegur móttækileiki tvær hliðar á sama peningnum.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Upplifun: Hugarflæði í jólakyrrð

Við Vigdís tókum okkur til í dag og settum upp jóladót ásamt því að þrífa lítillega hér og þar. Í bjarmanum af jólaljósunum lögðum við okkur að þessu loknu í sitt hvoru stofuhorninu í um hálftíma. Þar sem ég lá í kyrrðinni fann ég hvernig slökunin hleypti af stað sjálfvirku hugarflæði. Það hófst með fjörfiski í öðrum upphandleggnum. Frá honum leiddi ég hugann að því hvað það er nú óþægilegt þegar hjartað tekur aukaslag, sem er ekki svo ólíkt fjörfiski. Ef maður fengi það reglulega má vera að maður yrði svolítið smeykur. Þeir sem fá hjartaslag (eða verða fyrir öðrum sambærilegum áföllum) fá víst allt aðra sýn á lífið eftir á. Þar með var ég farinn að hugsa um Rúnar Júlíusson sem hefur gert svolítið út á upplifun sína um árið þegar hann fékk hjartaáfall. Hann hefur meira að segja gefið út plötu undir heitinu "Með stuð í hjarta". Skyldi hann passa upp á heilsu sína í dag? Vafalaust hafa hann og félagar hans í bransanum reynt ýmislegt. Með þá hugsun leiddi ég hugann að Gunnari Þórðarsyni og hversu gamall hann virkar á mann. En hann hefur nú alltaf verið svona. Ég man þegar hann birtist á plötuumslögum fyrir 25 árum síðan. Jafnvel þá virkaði hann alltaf með eldri mönnum á bak við skeggið sitt, enda alltaf "komponistinn" í hópnum. Þar með var ég farinn að hugsa um hann sem lagasmið. Hann á að baki óhemju fjölda af lagasmíðum sem áhugavert væri að taka saman skilmerkilega á einum stað. Hann er búinn að koma nánast alls staðar við sögu í íslenskri dægurlagasögu. Hann er nú eiginlega sér á báti hvað þetta varðar, eða hvað? Hversu víða hefur til dæmis Magnús Eiríksson komið við eiginlega? Væri nóg að taka saman lista yfir Mannakornsplöturnar eða er fingraför hans að finna mun víðar en það? Hann hefur til að mynda unnið mikið með K.K. og samið með honum ýmis lög. Mér varð hugsað til þar með að þrátt fyrir það að ég kunni að mestu leyti vel að meta þá tvo sem tónlistarmenn hef ég engan veginn verið sáttur við lög eins og "Óbyggðirnar kalla" og "Vegbúann". Að mínu mati ýta þau undir ákveðna ræfladýrkun. Ég hef séð fólk sameinast ógæfumönnum í anda á tónleikum þar sem það heldur á bjórglasi sínu, kyrjandi þessa texta ámátlega. Það fer óneitanlega fyrir brjóstið á mér. Ég sá í hendi mér samtímis hvernig hugtakið "ræfladýrkun" gæti stuðað fólk. Skyndilega finnst mér ég standa á snakki við K.K. og útskýri afstöðu mína og hann svarar mér í hálfgerðum skammartón. Þá átta ég mig á því að þessi tilhugsun endurspeglar sams konar kringumstæður sem ég raunverulega lenti eitt sinn í gagnvart vinnufélaga mínum í Vættaborgum. Þar mátaði ég við mig þá kaldlyndu skoðun að vímuefnaneysla unglinga ætti í langflestum tilvikum rætur að rekja til fjölskylduaðstæðna. Hugmyndina orðaði ég á einhvern hátt of afgerandi og fékk fyrir það hastarlegar ákúrur frá vinnufélaga mínum. Þau viðbrögð áttu rætur að rekja til þess að viðkomandi átti son sem var í talsverðum fíkniefnavanda sem virtist, að eigin mati, stafa af öðru en vanrækslu fjölskyldunnar. Ég þurfti að éta orðin ofan í mig. En núna þar sem ég velti þessu fyrir mér í jólabjarmanum fór ég að skoða þessa hugsun á nýjan leik og skoða markvisst þá þætti sem verka saman og hafa áhrif á líferni ungs fólks. Eftir talsverðar vangaveltur (sem ég ætla að birta í næstu færslu) rankaði Vigdís við sér úr slökunarástandi sínu og við reistum okkur við á nýjan leik, endurnýjuð í hálfrökkrinu. Ég var hins vegar fyrst um sinn mjög meðvitaður um þetta sjálfráða hugarflæði sem átti að baki. Ég stóð á fætur með skipulagða pælingu um vímuefnavanda ungs fólks sem einhvern veginn þróaðist út frá fjörfiski í upphandleggnum.

laugardagur, nóvember 26, 2005

Athugasemd: Nýsköpun 2005

Ég var að fá í hendur vefsíðu sem tíundar niðurstöður í samkeppni um gerð viðskiptaáætlana sem haldin var nýlega í borginni. Samkeppnin á, samkvæmt eigin skilgreiningu, að stuðla að aukinni nýsköpun og frumkvæði í íslensku samfélagi. Ekki er skortur á góðum hugmyndum sem margar hverjar eru mjög flottar og metnaðarfullar og stuðla sannarlega að velfarnaði og uppbyggingu í mannlegu samfélagi. Sá sem mætir til leiks með hugmynd um að þróa og markaðssetja tískufatnað fyrir hunda fær hins vegar fyrstu verðlaun! Það sem einnig kemur fram á þessari samantekt er að dómnefndin hafi verið einróma í vali sínu! Ég held að málsmetandi menn hafi sjaldan runnið eins rækilega á rassinn með gildismati sínu. Manni fallast hendur þegar maður sér svona lagað.

Daglegt líf: Jólahlaðborð

Við Vigdís fórum á sitt hvort jólahlaðborðið í gær - ég með vinnunni minni og hún með sínum vinnufélögum. Við ákváðum að hafa þennan háttinn á vegna þess að hlaðborðin voru haldin nánast samtímis í sama útjaðri borgarinnar (Árbær og Grafarholtið) svo við gátum auðveldlega verið samstíga stóran hluta kvöldsins, bæði á leiðinni upp eftir og heim. Ég vildi engan veginn sleppa mínu hlaðborði því það var rausnarlega í boði yfirboðara minna og Vigdís varð að kveðja vinnufélaga sína almennilega. Hún hættir að vinna í desember og kemur væntanlega ekki aftur fyrr en eftir næsta sumarfrí (til samanburðar tek ég mér hins vegar bara tvær vikur í janúar og tek út tvo og hálfan mánuð með haustinu 2006).

Á meðan Vigdís borðaði í heimahúsi indverska kryddmáltíð frá Austur-Indíafélaginu tókst ég á við hefðbundnari veisluhöld í risastórum sal sem kallast Gullhamrar. Þetta er glæsilegur salur og ósjálfrátt fór ég að sjá fyrir mér tónleikahald þarna inni. Ímyndið ykkur Hótel Ísland nema töluvert stærra og rúmbetra - hátt til lofts, notaleg aðstaða. Við sessunauta mína impraði ég á þeirri hugmynd að þarna skyldi halda næstu Nick Cave tónleika sem ég einmitt sniðgekk á sínum tíma vegna staðarvalsins (Hótel Ísland er ákaflega ónotalegur tónleikastaður í alla staði).

Maturinn bragðaðist prýðilega. Skipulagið kom mér hins vegar töluvert á óvart því forréttirnir voru bornir á borð sérstaklega áður en salnum var hleypt í sjálft hlaðborðið. Þetta var eflaust gert til hagræðingar þar sem salurinn var sneisafullur af hundruðum kennara frá ýmsum skólum Reykjavíkur. Það sem kom mér óþægilega í opna skjöldu var hins vegar að hlaðborðið samanstóð þar með einungis af heitu aðalréttunum, þungum kjötmáltíðum af ýmsum gerðum. Áætlun mín um að gæða mér á forréttum allt kvöldið - síld, laxi og öðru léttmeti - virtist ætla að fara út um þúfur. Ég staðnæmdist á leið minni að hlaðborðinu og hugsaði minn gang, hnippti loks í þjónustustúlku og útskýrði stöðu mína fyrir henni. Hún kom til móts við mig með því að færa mér annan umgang af forréttunum, sem voru í alla staði prýðileg máltíð og góð málamiðlun. Það var ekki laust við að ég væri litinn öfundaraugum af sessunautum mínum enda höfðu þeir allir sem einn það á orði að forréttirnir hefðu borið af öðrum kræsingum.

Athugasemd: Söngbók Gunnars Þórðarsonar

Í dag læddist inn til okkar auglýsingabæklingur undir nafninu Skrudda. Þar eru kynntar nokkrar vel valdar jólabækur frá útgáfufyrirtæki sem ber þetta sama nafn. Það koma nokkrar bækur út frá þeim um jólin, þar á meðal lagasafn Gunnars Þórðarsonar. Á meðal 40 laga í bókinni hans voru í bæklingnum talin upp mörg af hans vinsælustu lögum: Bláu augun þín, Fyrsti kossinn, Gaggó vest og hin ógleymanlega harðsoðna Hanna! Ætli hún hafi verið sköllótt eftir allt saman?

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Daglegt líf: Foreldrafræðslu lokið

Í gær lauk fimm kvölda foreldrafræðslunni sem við Vigdís skráðum okkur í. Mjög gagnlegt og uppbyggilegt námskeið. Í gær var hópnum skipt upp í tvo aðskilda hópa, í feður og mæður, og þannig ræddum við einslega um hlutverk okkar út frá nýjum sjónarhóli. Hlutverk kynjanna í sjálfri fæðingunni eru náttúrulega ákaflega ólík og þurfti því að skerpa á þeim í sitt hvoru lagi svona í blálokin. Um daginn kíktum við hins vegar upp á fæðingadeild. Það var líka eftirminnilegt. Ég man eftir því sérstaklega hvað ég var vel upplagður það kvöldið og reytti af mér fimmaurabrandara við hvert tækifæri. Salernisaðstaðan á deildinni er svo lítil, svo ég taki eitt dæmi, að maður kemst varla þangað inn í fósturstellingu. Aðrir brandarar voru líklega enn lakari en þetta, enn áttu ágætlega heima á stað og stund. Sjálf deildin bætti hins vegar um betur með óvæntu innleggi. Þegar ég kíkti á biðstofu tilvonandi feðra og sá þar blað útundan mér og átti von á að finna fræðilega umfjöllun um hlutverk foreldra eða bara eitthvert slúðurblað. Á ákaflega viðeigandi hátt tókst deildinni hins vegar að sameina þetta tvennt með blaðinu "Nýtt líf". Hvað annað?

Við erum sem sagt búin að kynnast ýmsum hliðum foreldrahlutverksins en sjálf djúpa laugin er hins vegar eftir. Enginn veit víst hvernig hann bregst við þegar á hólminn er komið. Það par í foreldrafræðsluhópnum sem fyrst tekst á við hlutverk sitt á að eiga eftir tvær vikur. Svo gengur það koll af kolli næstu vikurnar. Það er því farið að styttast áþreifanlega í takmarkið.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Upplifun: Tvívegis agndofa

Helgin gekk tiltölulega tíðindalaust fyrir sig að öðru leyti en því að ég varð tvívegis agndofa. Í fyrra skiptið skaust ég á Rauða ljónið til að sjá leik Real Madrid og Barcelóna. Þessi lið eru bæði hlaðin snillingum og það var því sérlega átakanlegt að sjá hversu grátt Barcelónaliðið lék áhugalitla Madridinga. Ronaldinho kom þar út sem algjör yfirburðamaður. Ekki nóg með að hann skoraði tvö mörk í þrjú núll sigri heldur gerði hann það með slíkum bravúr að mann setti gjörsamlega hljóðan. Í bæði skiptin komst hann "á ferðina" og geystist svo hratt fram hjá varnarmönnum Madrid að þeir virkuðu álíka hreyfanlegir og flaggstangir í skíðabrekku. Þar fyrir utan "klobbaði" hann heimsfræga leikmenn hvað eftir annað og sýndi ótrúlega dirfsku og hugmyndaauðgi, með sitt þekkta bros á vör. Miðað við þessa frammistöðu virðist Ronaldinho vera langbesti leikmaður í heimi í dag og það þarf að líkindum að leita aftur til Maradona til að fá einhverja hliðstæðu í sögu knattspyrnunnar. Þegar ég koma heim var ég óðamála af innblæstri og tíundaði afrek kappans gagnvart Vigdísi. Hún hlustaði af þolinmæði þó svo hún láti fótbolta sig yfirleitt engu varða.

Daginn eftir, á sunnudagskvöldið, fór ég síðan á tónleika með hljómsveitinni the White Stripes. Ég hef haft mikið dálæti á tónlist þeirra og á tvo nýjustu diskana með þeim. Þeir eru báðir hráir, ferskir og merkilega fjölbreyttir. Það hvarflaði ekki að mér annað en að þau White "hjónakornin" myndu njóta góðs af öflugum stuðningi uppi á sviði, svo kraftmikil og öflug er tónlistin. Þau stóðu hins vegar ein og óstudd uppi á sviði og létu bara vaða. Jack spilaði á ýmis hljóðfæri, rafgítar, kasagítar, mandólín og píanó - að jafnaði bara eitt í hverju lagi - á meðan Meg barði trommur af frumstæðum krafti, eins og simpansi. Maður trúði því varla að í lögunum skyldi vera spilað á einungist tvö hljóðfæri, í mismunandi samsetningu, því þau eru svo kröftug, margslungin og hljómmikil. En þetta gerðu þau eins og ekkert væri og svissuðu á milli stíla tiltölulega hratt og örugglega og sköpuðu þannig nauðsynlega fjölbreytni. Kraftinn fengu þau hins vegar með því að láta vaða og leyfa surgi og hávaða seytla með ógnvekjandi spilamennsku (Jack líktist ýmist Jimmy Page og Hendrix í bland við ekta gamaldags hispurslausan blús). Meg barði allann tímann sem mest hún mátti (maður dáðist af styrknum og úthaldinu) og það var ljóst að hennar hlutverk var fyrst og fremst að leggja kraftmikla áherslu á galdrana sem streymdu frá Jack, hvort sem hann tætti sundur gítarstrengi eða hvæsti eins og eyðimerkursnákur. Ég vissi hreinlega ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Maður var hálf uppgefinn eftir þessa upplifun, enda aðstæður til tónleikahalds í Höllinni afar slæmar. Það breytti því hins vegar ekki að mér fannst verulega upplífgandi að sjá bandið meðhöndla sjálfan eldinn eftir að hafa séð allt of margar hljómsveitir í gegnum tíðina baða sig í bjarma annarra.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Daglegt líf: Foreldrafræðsla

Þessa dagana sækjum við Vigdís svokallaða foreldrafræðslu. Þetta er fimm kvölda námskeið ætlað er verðandi foreldrum, haldið í Miðstöð Mæðraverndar. Tvö kvöld eru að baki nú þegar. Þetta er allt voða huggulegt. Nokkur pör á okkar aldri sitja í grjónasekkjum, hlið við hlið, og mynda hálfhring utan um ljósmóður sem miðlar af reynslu sinni af yfirvegun og innileika í senn. Þetta er því eiginlega eins og sambland af fyrirlestri og friðarstund. Ljósmóðirin er dugleg við að minna okkur á það hvað þetta ferli allt saman er stórkostlegt og það er ekki laust við að maður fái á tilfinninguna að hún hálfpartinn öfundi okkur. Allir á námskeiðinu eru á leiðinni með sitt fyrsta barn, sett á dagana milli 15. desember og 15. janúar. Við erum þarna einmitt í miðjunni enda fer vel um okkur í þessum hópi. Við erum dugleg að spyrja spurninga enda er þetta allt mjög áhugavert. Til dæmis í síðasta tíma, á miðvikudaginn var, þá var fjallað sérstaklega um fæðinguna sjálfa og við sáum tvö lifandi myndbrot af tveimur ólíkum fæðingum. Önnur þeirra var í vatni. Það var alveg ótrúlegt að sjá litla hausinn mjakast varlega inn í heiminn neðansjávar. Þetta var bara þægilegra af því að umhverfið líktist meira því sem barnið þekkir inni í leginu. Svo þarf það hvort eð er ekki að anda, til að byrja með. Súrefnið gegnum naflastrenginn nægir í blábyrjun. Þetta er alveg ótrúlegt þegar maður veltir því fyrir sér.

Stuttu eftir að við komum heim, endurnærð og afslöppuð eftir foreldrafræðsluna, biðu okkar skilaboð á gemsanum, alla leið frá Danmörku. Fyrr um daginn fæddist þeim Kristjáni og Stellu dökkhærð lítil stúlka. Við óskuðum þeim undireins til hamingju og bíðum spennt eftir að sjá myndir á síðunni þeirra þegar þar að kemur.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Upplifun: Kristínarfundir

Í vikunni varð ég fyrir þeirri upplifun að hitta þrívegis einhvern á förnum vegi sem ég þekki vel en hafði ekki séð árum saman. Það sem er hins vegar harla merkilegt við þetta er það að þessar þrjár manneskjur heita allar sama nafni, - Kristín.

Þá fyrstu hitti ég á röltinu í IKEA á laugardaginn var. Hún var (og er) mjög náin vinkona einnar af bekkjarsystrum mínum úr mannfræðináminu og var mjög oft innanbúðar þegar við mannfræðingarnir gerðum okkur glaðan dag. Það var fyrir heilum átta árum síðan. Vegna margra sameiginlegra vina og minninga áttum við því mjög drjúgt og ánægjulegt upprifjunarspjall mitt í ösinni í IKEA.

Tveimur dögum síðar, á mánudaginn var, fór ég í sakleysi mínu í matarhléinu mínu á "Maður lifandi" að fá mér vel kryddaða og bragðmikla súpu. Það geri ég stundum til að fríska mig við eftir erfiðan kennsludag (eftir hádegið erum við aðallega í skýrslugerð). Tveimur borðum frá mér sá ég þá hvar sat Kristín nokkur sem stýrði svokölluðum Nordklúbbi hér um árið. Í þeim félagsskap var ég virkur einn vetur, rétt áður en ég fór út til Belfast vorið 1997. Ég var hins vegar ekki í stuði í þetta skiptið og hún var eitthvað að spjalla við vinkonu sína svo ég lét mér nægja að kinka kolli. Það tók mig hins vegar drjúga stund að rifja upp hvað hún hét því ég hafði ekki séð hana síðan einhvern tímann fyrir aldamótin.

Daginn eftir fór ég að lokum á fund í skólanum. Það eru oft haldnir fundir út af nemendum okkar enda koma þeir upprunalega úr öðrum skólum og fara aftur til baka eftir nokkurra vikna dvöl hjá okkur. Við spjöllum við umsjónarkennarann á þessum fundum ásamt öðrum fagaðilum um málefni, námsstöðu og líðan nemandans. Ég var búinn að sitja nokkra stund og gefa mína "skýrslu" munnlega þegar ég leit upp og sá andlit sem minnti mig skuggalega mikið á gamla umsjónarkennarann minn úr Seljaskóla, frá þeim tíma þegar ég var í barnaskóla. Kristín Axelsdóttir kenndi mínum bekk í fimm ár samfleytt frá því ég var í 2. bekk og þar til ég sagði skilið við barnaskólann (og færðist yfir í unglingadeild). Það var nánast eins og að labba inn í gamlan filmubút að spjalla við hana, svo lítið hafði hún breyst. Ég gerði mér hins vegar grein fyrir því að ég var nánast óþekkjanlegur í samanburði. Þegar ég vakti athygli hennar á því hver ég væri fórum við strax að rifja upp eldgömul minningarbrot frá í "árdaga", eins og hún orðaði það. Óneitanlega súrrealískt að ræða við gamla grunnskólakennarann til margra ára sem fagaðili og, óhjákvæmilega, sem nemandi í senn.

Ég var hálf ringlaður eftir þennan síðasta "fund" og fattaði ekki fyrr en daginn eftir, í gærkvöldi, að mér hefði tekist hið ótrúlega að hitta þrjár nöfnur sem allar tengdust mér á einhvern hátt en höfðu ekkert komið við sögu í lífi mínu síðustu árin. Ætli ég megi eiga von á einni slíkri í viðbót áður en vikan er úti? Ég þekki kannski eina eða tvær í viðbót, einhvers staðar úr grárri forneskju.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Upplifun: Rífandi stemning í snjónum

Um helgina náði ég í buxur úr viðgerð. Dökkgrænar flauelsbuxur. Einmitt þessar sem ég keypti um daginn. Það fór nefnilega frekar illa fyrir þeim. Í síðustu viku kom þessi fína snjókoma svo ég hentist út með nemendum mínum og fór í snjókast. Er ég beygði mig niður í snarhasti til að skófla saman einum boltanum í viðbót fann ég hvernig eitthvað rifnaði, og það allrækilega. Saumurinn sem heldur buxnahelmingunum saman spratt upp í einu lagi frá buxnaklauf og að buxnastreng að aftanverðu. Ég var náttúrulega ekki í dökkgrænum nærbuxum í stíl svo þetta hefði getað orðið mjög neyðarlegt. Ég bjargaðist hins vegar á því að ég var einn í liði, á móti nemendum, og enginn fyrir aftan mig, og svo stóð ég við hliðina á útidyrahurðinni. Ég hélt því nemendum í hæfilegri fjarlægð með lokaskothríð og vatt mér síðan inn mjög lipurlega. Eftir stutta viðdvöl afsíðis kom ég út aftur. Það var kalt úti og krökkunum fannst hálf undarlegt að sjá mig koma út á nærbolnum, með peysuna bundna um mittið. Þeir fáu sem vissu hið sanna brostu að þessu litla leyndarmáli með mér. Svo leið dagurinn, fremur tíðindalaus að öðru leyti.

Ég fór fljótlega með buxurnar í viðgerð og afgreiðsludömurnar hristu hausinn. Þær höfðu aldrei séð neitt þessu líkt áður. Þeim til hróss verð ég hins vegar að segja að þær báru sig einkar fagmannlega. Þær fóru ekki fram á að ég sýndi kvittun eða neitt slíkt. Buxnagallinn var augljós og ég fékk nýjar buxur í hendur umsvifalaust. Reyndar voru þær ekki til lengur í mínu númeri, heldur örlítið síðari, en þær tóku það að sér að stytta þær á mig. Ég hafði allt eins átt von á því að þurfa að kvarta og suða en var bara tekið eins og eðalkúnna. Ég er því enn jafn sáttur við verslunina og áður þrátt fyrir ófarirnar. Buxurnar sem brugðust mér svo illilega eiga hins vegar skilið spark í afturendann. Þær voru sendar aftur til föðurhúsanna, til framleiðendanna hjá Bison, í Danmörku, til frekari rannsóknar.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Fréttnæmt: Hreiðurgerð

Vaggan er komin í hús og því er ekki að neita að okkur Vigdísi finnist það vera mikil viðbrigði. Hún blasir við þessa stundina rétt fyrir utan svefnherbergið, og bíður. Alveg eins og jólatré sem bíður eftir jólunum þá bíður vaggan hljóðlaust eftir áramótum, skreytt snotrum sængurfötum.

Við hrifumst af þessari vöggu strax og við sáum hana fyrst fyrir nokkrum dögum síðan. Þá vorum við búin að rölta um Baby Sam nokkra stund. Mér fannst einhvern veginn allt líta eins út og fannst hálf óþægilegt hvað ég var skoðunarlaus um allt sem ég sá, þar til þessi vagga blasti við. Hún er mjög klassísk í útliti og ótrúlega vel hönnuð. Hún vaggar á sveif sem liggur mjög ofarlega (og því auðvelt að vagga henni úr rúmhæð). Hún kostaði fjórtán þúsund kall en þar sem vagga er ekki notuð nema í þrjá til fjóra mánuði fannst okkur ekki réttlætanlegt að skella okkur á hana. Vorum að spá í að kaupa jafnvel bara rúm í staðinn, strax frá upphafi, enda er það varanlegri eign. Það fór því þannig, til að byrja með, að við létum þessa vöggu eiga sig. Við komumst í kjölfarið á snoðir um vöggur til leigu hjá sömu verslun (allt nema sjálf rúmfötin og dýnan) á aðeins fjögur þúsund kall. Þetta eru ágætar vöggur, mjög litlar og snotrar en tiltölulega látlausar. Þetta fannst okkur mjög sniðug lausn, svona til að fleyta okkur yfir fyrsta hjallann og pöntuðum því slíka vöggu til leigu, frá 15. desember (án skuldbindingar, enda er eftirspurnin mikil). Við höfðum ekki meiri áhyggjur af því þann daginn.

Í dag vildi hins vegar til að við áttum leið inn í verslunina á ný, aðeins nokkrum dögum seinna. Þá blasti gamla góða vaggan aftur við okkur, en í þetta skiptið á hálfvirði (vegna lítilsháttar útlitsgalla). Það var eins og hún bara biði þolinmóð eftir okkur. Enginn í búðinni nema við. Við sáum náttúrulega strax í hendi okkar að fyrst að vaggan kostaði ekki nema þrjú þúsund krónum meira en leigan sem við vorum búin að tryggja okkur þá væri í versta falli hægt að selja hana mjög auðveldlega á því verði og koma út á sléttu. Hins vegar væri mjög skemmtilegt að geta nýtt hana áfram. Frábær eign fyrir litla stúlku, löngu eftir að hún er hætt að sofa í henni sjálf.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Daglegt líf: Frídagar framundan

Nú fer í hönd, frá og með deginum í dag, vetrarfrí í fimm daga. Það byrjar formlega á morgun, miðvikudag. Þvílík himnasending. Við vorum, einhverra hluta vegna, orðin mjög þreytt í vinnunni og þurftum virkilega á smá hléi að halda, meðal annars til að hafa tíma til að skrifa skýrslur um nemendur og annað í þeim dúr. Það má segja að frí eins og þetta, þó það sé ekki nema örfáir dagar, nýtist til að vinda ofan af þeim verkefnum sem hafa hrúgast upp. Ég fer að minnsta kosti einu sinni fyrir helgi í vinnuna, þrátt fyrir fríið, til að vinna í ró og spekt í stofunni minni. Það greiðir fyrir framhaldinu. Við Vigdís ætlum að nýta þessa frídaga vel saman. Hún náði að hagræða hjá sér í vinnunni þannig að hún er í fríi líka. Ætli við höldum ekki bara "litlu jólin" (maður veit aldrei hvernig það verður í desember), tökum svolítið til, stundum "hreiðurgerð" og tökum vídeó í kjölfarið, með tilheyrandi kræsingum.