miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Matur: Hollenskt góðgæti

Í Brúarskóla gætir óvenju mikilla hollenskra áhrifa. Ég á sjálfur rætur að rekja til Hollands, að fjórðum hluta í föðurætt, og með mér starfar hollensk kona, Lillianne að nafni. Hún skrapp til Hollands í persónulegum erindagjörðum yfir helgina og kom til baka með veitingar sem áttu aldeilis upp á pallborðið hjá okkur hinum. Hún kom með þennan dýrindis Gauda ost sem ég kjamsaði á af mikilli nautn í kaffitímanum með einföldu hrökkbrauði (til að osturinn nyti sín sem allra best). Í samanburði er samnefndur ostur sem er framleiddur hér á Íslandi algerlega bragðlaus. Það er eiginlega ótrúlegt að þeir skuli leyfa sér að nota nafnið. En ég fékk sjálfur litla tækifærisgjöf sem var ansi skemmtileg. Þar sem ég get rakið ættir mínar til Hollands, og á von á barni á næstunni, þá færði hún mér lítinn pakka með hvít- og bleikhúðuðum anísflögum. Það er smá saga á bak við það. Þetta er svona álegg sem sáldrað er yfir brauð og kex. Hollendingar nota það óspart í staðinn fyrir venjulegt smurálegg. Það festist í sjálfu smjörinu og liggur þar þangað til það fær að braka undir tönn. Í gamla daga komst ég í svona álegg hjá ömmu minni. Hún keypti alltaf súkkulaðiálegg í svona flöguformi. Við kölluðum það "músaskít" okkar á milli og hann var mjög vinsæll í fjölskyldunni. Það sem hún Lillianne færði mér hafði ég hins vegar aldrei áður séð þó það væri frá sama framleiðanda. Mér skildist á henni að það sé hefð fyrir því í Hollandi að nýbakaðir foreldrar bjóði vinum og vandamönnum upp á myndarlegt þykkt kex með anísflögum. Þær eru bleikar og hvítar í þessu tilviki en einnig er hægt að kaupa bláa og hvíta útgáfu. Smellið endilega á Hollandbymail síðuna og veljið "De Ruijter muisjes - pink and white" ef þið viljið fá forsmekkinn af því sem boðið verður upp á í Granaskjóli í byrjun janúar.

Engin ummæli: