sunnudagur, nóvember 06, 2005

Upplifun: Rífandi stemning í snjónum

Um helgina náði ég í buxur úr viðgerð. Dökkgrænar flauelsbuxur. Einmitt þessar sem ég keypti um daginn. Það fór nefnilega frekar illa fyrir þeim. Í síðustu viku kom þessi fína snjókoma svo ég hentist út með nemendum mínum og fór í snjókast. Er ég beygði mig niður í snarhasti til að skófla saman einum boltanum í viðbót fann ég hvernig eitthvað rifnaði, og það allrækilega. Saumurinn sem heldur buxnahelmingunum saman spratt upp í einu lagi frá buxnaklauf og að buxnastreng að aftanverðu. Ég var náttúrulega ekki í dökkgrænum nærbuxum í stíl svo þetta hefði getað orðið mjög neyðarlegt. Ég bjargaðist hins vegar á því að ég var einn í liði, á móti nemendum, og enginn fyrir aftan mig, og svo stóð ég við hliðina á útidyrahurðinni. Ég hélt því nemendum í hæfilegri fjarlægð með lokaskothríð og vatt mér síðan inn mjög lipurlega. Eftir stutta viðdvöl afsíðis kom ég út aftur. Það var kalt úti og krökkunum fannst hálf undarlegt að sjá mig koma út á nærbolnum, með peysuna bundna um mittið. Þeir fáu sem vissu hið sanna brostu að þessu litla leyndarmáli með mér. Svo leið dagurinn, fremur tíðindalaus að öðru leyti.

Ég fór fljótlega með buxurnar í viðgerð og afgreiðsludömurnar hristu hausinn. Þær höfðu aldrei séð neitt þessu líkt áður. Þeim til hróss verð ég hins vegar að segja að þær báru sig einkar fagmannlega. Þær fóru ekki fram á að ég sýndi kvittun eða neitt slíkt. Buxnagallinn var augljós og ég fékk nýjar buxur í hendur umsvifalaust. Reyndar voru þær ekki til lengur í mínu númeri, heldur örlítið síðari, en þær tóku það að sér að stytta þær á mig. Ég hafði allt eins átt von á því að þurfa að kvarta og suða en var bara tekið eins og eðalkúnna. Ég er því enn jafn sáttur við verslunina og áður þrátt fyrir ófarirnar. Buxurnar sem brugðust mér svo illilega eiga hins vegar skilið spark í afturendann. Þær voru sendar aftur til föðurhúsanna, til framleiðendanna hjá Bison, í Danmörku, til frekari rannsóknar.

Engin ummæli: