mánudagur, nóvember 21, 2005

Upplifun: Tvívegis agndofa

Helgin gekk tiltölulega tíðindalaust fyrir sig að öðru leyti en því að ég varð tvívegis agndofa. Í fyrra skiptið skaust ég á Rauða ljónið til að sjá leik Real Madrid og Barcelóna. Þessi lið eru bæði hlaðin snillingum og það var því sérlega átakanlegt að sjá hversu grátt Barcelónaliðið lék áhugalitla Madridinga. Ronaldinho kom þar út sem algjör yfirburðamaður. Ekki nóg með að hann skoraði tvö mörk í þrjú núll sigri heldur gerði hann það með slíkum bravúr að mann setti gjörsamlega hljóðan. Í bæði skiptin komst hann "á ferðina" og geystist svo hratt fram hjá varnarmönnum Madrid að þeir virkuðu álíka hreyfanlegir og flaggstangir í skíðabrekku. Þar fyrir utan "klobbaði" hann heimsfræga leikmenn hvað eftir annað og sýndi ótrúlega dirfsku og hugmyndaauðgi, með sitt þekkta bros á vör. Miðað við þessa frammistöðu virðist Ronaldinho vera langbesti leikmaður í heimi í dag og það þarf að líkindum að leita aftur til Maradona til að fá einhverja hliðstæðu í sögu knattspyrnunnar. Þegar ég koma heim var ég óðamála af innblæstri og tíundaði afrek kappans gagnvart Vigdísi. Hún hlustaði af þolinmæði þó svo hún láti fótbolta sig yfirleitt engu varða.

Daginn eftir, á sunnudagskvöldið, fór ég síðan á tónleika með hljómsveitinni the White Stripes. Ég hef haft mikið dálæti á tónlist þeirra og á tvo nýjustu diskana með þeim. Þeir eru báðir hráir, ferskir og merkilega fjölbreyttir. Það hvarflaði ekki að mér annað en að þau White "hjónakornin" myndu njóta góðs af öflugum stuðningi uppi á sviði, svo kraftmikil og öflug er tónlistin. Þau stóðu hins vegar ein og óstudd uppi á sviði og létu bara vaða. Jack spilaði á ýmis hljóðfæri, rafgítar, kasagítar, mandólín og píanó - að jafnaði bara eitt í hverju lagi - á meðan Meg barði trommur af frumstæðum krafti, eins og simpansi. Maður trúði því varla að í lögunum skyldi vera spilað á einungist tvö hljóðfæri, í mismunandi samsetningu, því þau eru svo kröftug, margslungin og hljómmikil. En þetta gerðu þau eins og ekkert væri og svissuðu á milli stíla tiltölulega hratt og örugglega og sköpuðu þannig nauðsynlega fjölbreytni. Kraftinn fengu þau hins vegar með því að láta vaða og leyfa surgi og hávaða seytla með ógnvekjandi spilamennsku (Jack líktist ýmist Jimmy Page og Hendrix í bland við ekta gamaldags hispurslausan blús). Meg barði allann tímann sem mest hún mátti (maður dáðist af styrknum og úthaldinu) og það var ljóst að hennar hlutverk var fyrst og fremst að leggja kraftmikla áherslu á galdrana sem streymdu frá Jack, hvort sem hann tætti sundur gítarstrengi eða hvæsti eins og eyðimerkursnákur. Ég vissi hreinlega ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Maður var hálf uppgefinn eftir þessa upplifun, enda aðstæður til tónleikahalds í Höllinni afar slæmar. Það breytti því hins vegar ekki að mér fannst verulega upplífgandi að sjá bandið meðhöndla sjálfan eldinn eftir að hafa séð allt of margar hljómsveitir í gegnum tíðina baða sig í bjarma annarra.

Engin ummæli: