mánudagur, júní 23, 2003

Ferðasagan, annar hluti.
Dagur eitt: Fyrst ég var byrjaður að segja frá því þegar ég var nappaður á leið í frí og var auk þess kominn með beinagrind að sögu er ekki úr vegi að bæta við. Við Vigdís gistum í góðu yfirlæti á Höfn eftir ansi langan akstur. Þoka var þétt langtímum saman svo við vissum hreint ekkert hvar við vorum um tíma og komum á endanum mjög seint til Hafnar. Klukkan var rúmlega tíu um kvöld og áttum við þá enn eftir að tryggja okkur gistingu, sem við reyndar gerðum á gistihemilinu Hvammi og fengum þetta líka fína útsýni yfir höfnina úr herbergi númer eitt. En klukkan var orðin óþægilega margt og á þessum tíma dags er ekki hlaupið að því að finna sér eitthvað að borða, allra síst úti á landi þar sem kyrrðin er enn einhvers virði. Þarna var reyndar opin unglingasjoppa í grenndinni (Hafnarbúðin) sem seldi samlokur til hálf tólf. Fram hjá henni renndum við hins vegar á bílnum í átt að kaffihúsi bæjarins, Kaffi Horninu, sem ég vissi til að seldi prýðilegan mat. Húsið var opið, gott og vel, en eldhúsið lokað enda klukkan orðin rúmlega hálf ellefu. Sama var uppi á teningnum á litlum pizza-stað þar nærri. Þá var aðeins eitt örþrifaráð eftir: Hótelið. Hótel áttu eftir að koma verulega við sögu í þessari ferð sem var að hefjast því það er makalaust hvað þau geta redda hlutum fyrir horn þegar fokið er í flest skjól. Á þessum fyrsta áningarstað borðuðum við því ágætis kvöldsnarl þegar samfélagið var lagst til hvílu. Því var vippað fram í snarheitum af kokki hótelsins. Næturvaktin sá til þess að við gátum borðað í ró og næði og sötrað öl með. Góður endir á löngum degi. Heima á gistiheimili sváfum við vært þá nóttina meðan bátarnir vögguðu í höfninni.

Dagur tvö: Næsta stopp Djúpivogur. Ekkert kaffihús opið. "Þau opna víst ekki fyrr en í júníbyrjun" sagði fólkið mér í bensínsjoppunni. Við renndum hýru auga til hótelsins og lékum sama leikinn og áður. Fyrst Hótelið á Höfn gat komið í staða matsölustaða þá hljóta þau að geta boðið upp á kaffi eins og hvert annað kaffihús. Og mikið rétt, kaffi og með'ðí. Dýrindis rækjubrauðsneið í Hótel Framtíð sem er sannarlega hús með sál. Mæli eindregið með viðdvöl á þessum stað hvort sem kaffihús bæjarins eru opin eða ekki. Með koffín í æðum héldum við til Stöðvarfjarðar þar sem Bjartur vinur minn bjó ásamt kærustu sinni Jóhönnu. Þau annast tónlistarlífið á bænum, hann sem tónlistarkennari og -skólastjóri og hún sem söngkona. Þar gistum við Vigdís í góðu yfirlæti eftir smá viðdvöl á eftirminnilegu steinasafni Petru við innkomuna í bæinn. Mikið var skrafað fram eftir kvöldi í húsakynnum Bjarts og Jóhönnu, borðuðum góðan mat og spiluðum stokkinn fram eftir kvöldi. Öll þurftum við hins vegar að hafa hemil á gleðinni því við Vigdís þurftum að vakna eldsnemma til að keyra til Seyðisfjarðar morguninn eftir auk þess sem gestgjafarnir þurftu að undirbúa jarðarför á sama tíma. Sannkölluð gæðastund milli stríða, ef svo mætti að orði komast.

Næsta færsla fjallar um sjálfa ferðina með Norrænu og dvölina í Færeyjum.

Steini

þriðjudagur, júní 17, 2003

Nýlega barst mér ansi blóðugt bréf frá Lögreglustjóranum í Vík titlað "Sektarboð". Þannig var að ég ók 20. maí sem leið lá austur eftir á flötu suðurlandinu með sanda á báðar hliðar og auðan og beinan veginn nokkra kílómetra framundan. Svo kom eitt lítið rokklag í útvarpinu með Guns N´Roses sem virkaði ögn ögrandi og óafvitandi seig bensíngjöfin örlítið niður fyrir vikið. Ég sem hef ekki einu sinni gaman af Guns N´Roses! Birtist þá ekki lögreglubíll við næsta leiti og blikkar á mig eins og könguló sem stekkur á bráð sína. Ég hægi örlítið á mér um leið og ég sé bílinn og horfi um leið á hraðamælinn sem lækkar úr 110 í 105 km/klst. Mér datt ekki í hug að þeir myndu stoppa mig fyrir hraðaakstur því ég fór ekki einu sinni hratt, miðað við aðstæður. Mér brá hins vegar þegar ég sá mælinguna inn i hjá þeim sem var 115 km/klst og varð að orði að ég vissi ekki að bíllinn kæmist svona hratt! Þá svaraði annar lögreglumaðurinn þurrt "Þú þarft ekkert að tjá þig um þetta frekar en þú vilt!". Ég hafði það á tilfinningunni að þeim leiddist þessum gaurum og hefðu einfaldlega ekkert betra að gera. Auðvitað fór ég hægast allra á þjóðveginum og sá menn taka fram úr mér trekk í trekk hægastur allra. Upp frá því vissi ég að ég þyrfti að passa mig í umferðinni, ekki á því að fara of hratt heldur á löggunni. Allan hringinn kringum landið ók ég á bilinu 80 - 100 km/klst og sá mælinn aldrei nálgast þann hraða sem ég var mældur með þennan daginn.

Hvað sem því líður barst mér þessi tilkynning frá löggunni í Vík um daginn (og hef ég fjarlægt óþarfa tilvísanir í reglur til að gera textann læsilegri):

Steini

---------------------------------------------------

Lögreglustjórinn í Vík gerir kunnugt:Mér hefur borist kæra á hendur yður vegna brotss á umferðarlögum nr. 50/1987, þriðjudaginn 20. maí 2003 kl. 18:24 á ökutæki númer NU 184 eins og hér segir: Vettvangur: Suðurlandsvegur, Kúðafljót, að

Brot:
1. Of hraður akstur, Hraðamæling (37. gr.)
Hraði ökutækis 111 km/klst þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst
Vikmörk, 4 km/klst, voru dregin frá mældum hraða sem var 115 km/klst

<..........>

Samkvæmt heimild í 1. mgr. <...........> er yður hér með gefinn kostur á að ljúka máli þessu án dómsmeðferðar með greiðslu sektar.

Sektin ákveðst kr. 20.000. Ef hún greiðist fyrir 21. júní 2003 er veittur 25% afsláttur og verður því kr. 15.000.

Afgreiðsla málsins með þessum hætti færist ekki í sakaskrá en brotið varðar 1 punkti sbr. reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota nr. 431/1998.
Með þessum punkti hefur alls verið færður 1 punktur í ökuferilsskrá yðar.
Verði sektarboði ekki sinnt eða því hafnað verður tekin ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum um meðferð opinberra mála.

Lögreglustjórinn í Vík

-----------------------------------


þriðjudagur, júní 10, 2003

Síðastliðinn föstudag var mér starsýnt á yfir tveggja mánaða gamlan eggjabakka inni í skáp. Einhver hafði lætt honum inn í skotið þar sem hann hvarf bak við dollur og dósir. Núna var orðið of seint að leggja sér eggin til munns að mínu mati og kalla ég þó ekki allt ömmu mína í þeim efnum. Í stað þess að farga þeim í ruslið ákvað ég að svo myndarleg egg ættu frekar heima í sínu náttúrulega umhverfi. Ég sá fyrir mér stórgrýtta fjöru, máva og hreinsandi saltan sjó. Kristján bloggmeister var tilvalinn förunautur í fjöruferðina enda á hann þessa líka fínu stafrænu myndavél. Hann valdi Geldingarnesið sem áfangastað og reyndist fjaran þar vera bæði afskekkt, villt og pólitískt áhugaverð.

"Eggjavarpið" gekk vel og sáum við á eftir eggjunum í fallegum boga niður þverhnípi þar til þau sundruðust á stóru myndarlegu grjóti. Eins og gefur að skilja kom upp gamla barnaskólakeppnisskapið í manni og mynduðumst við okkur við að reyna að hitta. Að loknum eggjum flugu ólifur. Ekki veit ég hvað lífríkið hefur um þann suðræna aðskotahlut að segja en þær flugu að minnsta kosti með myndarbrag með tækni sem við kölluðum "lófavarp" sem Kristján náði góðu taki á (sjá aftur myndasíðu hans). Eftir gott dagsverk kíktum við í gryfjuna á nesinu sem var svo umtalað í kosningabaráttu borgarinnar í fyrra. Þar bárum við okkur saman við geysilega stór vinnutæki. Mæli með þessum stað.

mánudagur, júní 02, 2003

Ferðalaginu með Norrænu er lokið. Óhætt er að segja að ferðin hafi tekist vel og þróaðist hún upp í tvær ferðir, annars vegar hringferð um Ísland (tekin í tvennu lagi til og frá Seyðisfirði) og hins vegar siglingu um litlu víkingeyjarnar milli Íslands og Skotlands (Færeyjar og Hjaltlandseyjar). Ferðasagan er of margslungin til að gera viðunandi skil hér nema þá á skipulögðu hundavaði. Látum vaða:
20. maí - Lagt af stað. Við Vigdís fórum sem leið lá þjóðveginn suður með. Endað með næturgistingu á gistihemili á Höfn.
21. maí - Austfirðir. Heimagisting á Stöðvarfirði þar sem Bjartur Logi vinur minn á heima ásamt kærustu sinni Jóhönnu.
22. maí - Seyðisfjörður og Norræna. Ókum snemma til Seyðisfjarðar og sigldum með glæsilegri nýrri ferju. Næturdvöl þar í notalegu tveggja manna herbergi.
23. maí - Færeyjar fyrsti dagur. Eldsnemma mætt í þykka þoku og samfélag lamað af verkfalli. Lítill matur fáanlegur. Annar hver veitingastaður lokaður. Ekkert bensín. Við heppin að vera með fullan tank. Gisting í miðbæ Þórshafnar (Gistiheimilið Bládýpi).
24. maí - Færeyjar annar dagur. Veður skaplegt (bara alskýjað). Afslappaður dagur, rölt um til að spara bensínið (enda bærinn ekki ýkja stór). Leit að Eurovision partýi reyndist þrautin þyngri í áhugalausu landi. Enduðum á Hóteli Hafnia þar sem íslendingar héldu sig og sjónvarpsaðstaða var góð. Gisting áfram á Bládýpi.
25. maí - Færeyjar þriðji dagur - sveitirnar kannaðar. Fórum akandi í góðu veðri um eyjarnar á Seyðisfjarðarbensíni. Fallegar sveitir með lömb og fugla til hægri og vinstri. Stutt að keyra endanna á milli. Enduðum á mögnuðum stað sem heitir Gjóvg. Gistum aftur á Bládýpi.
26. maí - Norræna - dagssigling til Hjaltlandseyja. Lögðum af stað eldsnemma og komum í höfn um tíuleytið um kvöldið. Komum okkur fyrir í í miðbænum þar sem við áttum pantaða gistingu (Bonavista Guesthouse). Lerwick er huggulegur hafnarbær og allt í göngufæri (beið með það að takast á við vinstri umferð þar til daginn eftir).
27. maí - Lerwick og sveitir Hjaltlandseyja. Skoðuðum bæinn og verslanir fram yfir hádegi. Ókum síðan um sveitir landsins í brakandi blíðu. Ýmis örnefni vöktu mikla athygli okkar, eins og Tingwall. Landið er nátengt sögu okkar Íslendinga og merkilegt nokk, Tingwall svipar ótrúlega mikið til Þingvalla! Fallegt land hvert sem ekið var fram að kvöldi. Eyddum kvöldinu í Lerwick og tökum ferjuna þaðan upp úr miðnætti.
28. maí - Sigling heim á leið, 3ja tíma stopp í Færeyjum upp úr hádegi. Nóg til að fá sér að borða í landi enda ferjumaturinn orðinn leiðigjarn.
29. maí - Seyðisfjörður. Komin heim klukkan átta um morguninn. Fórum þaðan til Egilsstaða og redduðum okkur gistingu á Eyvindará (óhætt að mæla með því). Lögðum okkur (enda með sjóriðu bæði tvö) og héldum svo af stað seinni partinn að áeggjan gestgjafa okkar upp í Kárahnjúka. Vegurinn var erfiður alla leið og tók okkur líklega um sjö tíma að fara fram og til baka. Komum seint "heim" að Eyvindará.
30. maí - Ekið í átt til Akureyrar eftir hádegissnarl í Hallormsstaðaskógi. Gegnum Mývatn. Enn og aftur gistum við í miðbænum, að þessu sinni á Gistiheimilinu Ási. Vöknuðum til að kíkja á sólmyrkvann en sáum aðeins rétt móta fyrir honum gegnum mistur á jaðri skýjaþykknis áður en hann hvarf bak við næsta fjall.
31. maí - Versluðum á Akureyri (í prýðilegu Glerártorgi) eins og um útlönd væri að ræða. Héldum af stað upp úr hádegi vestur til Sauðárkróks þar sem við gistum hjá Lóu systur Vigdísar. Á leiðinni stoppuðum við á Dalvík, Ólafsfirði og tókum smá slaufu yfir til Siglufjarðar til að sjá þann sögufræga stað.
1. júní - Ekið sem leið liggur suður og heim. Sólin brakaði sem aldrei fyrr.

Þetta kalla ég beinagrind ferðarinnar og í hana á ég eflaust eftir að vísa með nánari lýsingum og frásögnum. Allir dagarnir voru í frásögur færandi :-)

kveðja,
Steini