mánudagur, júní 02, 2003

Ferðalaginu með Norrænu er lokið. Óhætt er að segja að ferðin hafi tekist vel og þróaðist hún upp í tvær ferðir, annars vegar hringferð um Ísland (tekin í tvennu lagi til og frá Seyðisfirði) og hins vegar siglingu um litlu víkingeyjarnar milli Íslands og Skotlands (Færeyjar og Hjaltlandseyjar). Ferðasagan er of margslungin til að gera viðunandi skil hér nema þá á skipulögðu hundavaði. Látum vaða:
20. maí - Lagt af stað. Við Vigdís fórum sem leið lá þjóðveginn suður með. Endað með næturgistingu á gistihemili á Höfn.
21. maí - Austfirðir. Heimagisting á Stöðvarfirði þar sem Bjartur Logi vinur minn á heima ásamt kærustu sinni Jóhönnu.
22. maí - Seyðisfjörður og Norræna. Ókum snemma til Seyðisfjarðar og sigldum með glæsilegri nýrri ferju. Næturdvöl þar í notalegu tveggja manna herbergi.
23. maí - Færeyjar fyrsti dagur. Eldsnemma mætt í þykka þoku og samfélag lamað af verkfalli. Lítill matur fáanlegur. Annar hver veitingastaður lokaður. Ekkert bensín. Við heppin að vera með fullan tank. Gisting í miðbæ Þórshafnar (Gistiheimilið Bládýpi).
24. maí - Færeyjar annar dagur. Veður skaplegt (bara alskýjað). Afslappaður dagur, rölt um til að spara bensínið (enda bærinn ekki ýkja stór). Leit að Eurovision partýi reyndist þrautin þyngri í áhugalausu landi. Enduðum á Hóteli Hafnia þar sem íslendingar héldu sig og sjónvarpsaðstaða var góð. Gisting áfram á Bládýpi.
25. maí - Færeyjar þriðji dagur - sveitirnar kannaðar. Fórum akandi í góðu veðri um eyjarnar á Seyðisfjarðarbensíni. Fallegar sveitir með lömb og fugla til hægri og vinstri. Stutt að keyra endanna á milli. Enduðum á mögnuðum stað sem heitir Gjóvg. Gistum aftur á Bládýpi.
26. maí - Norræna - dagssigling til Hjaltlandseyja. Lögðum af stað eldsnemma og komum í höfn um tíuleytið um kvöldið. Komum okkur fyrir í í miðbænum þar sem við áttum pantaða gistingu (Bonavista Guesthouse). Lerwick er huggulegur hafnarbær og allt í göngufæri (beið með það að takast á við vinstri umferð þar til daginn eftir).
27. maí - Lerwick og sveitir Hjaltlandseyja. Skoðuðum bæinn og verslanir fram yfir hádegi. Ókum síðan um sveitir landsins í brakandi blíðu. Ýmis örnefni vöktu mikla athygli okkar, eins og Tingwall. Landið er nátengt sögu okkar Íslendinga og merkilegt nokk, Tingwall svipar ótrúlega mikið til Þingvalla! Fallegt land hvert sem ekið var fram að kvöldi. Eyddum kvöldinu í Lerwick og tökum ferjuna þaðan upp úr miðnætti.
28. maí - Sigling heim á leið, 3ja tíma stopp í Færeyjum upp úr hádegi. Nóg til að fá sér að borða í landi enda ferjumaturinn orðinn leiðigjarn.
29. maí - Seyðisfjörður. Komin heim klukkan átta um morguninn. Fórum þaðan til Egilsstaða og redduðum okkur gistingu á Eyvindará (óhætt að mæla með því). Lögðum okkur (enda með sjóriðu bæði tvö) og héldum svo af stað seinni partinn að áeggjan gestgjafa okkar upp í Kárahnjúka. Vegurinn var erfiður alla leið og tók okkur líklega um sjö tíma að fara fram og til baka. Komum seint "heim" að Eyvindará.
30. maí - Ekið í átt til Akureyrar eftir hádegissnarl í Hallormsstaðaskógi. Gegnum Mývatn. Enn og aftur gistum við í miðbænum, að þessu sinni á Gistiheimilinu Ási. Vöknuðum til að kíkja á sólmyrkvann en sáum aðeins rétt móta fyrir honum gegnum mistur á jaðri skýjaþykknis áður en hann hvarf bak við næsta fjall.
31. maí - Versluðum á Akureyri (í prýðilegu Glerártorgi) eins og um útlönd væri að ræða. Héldum af stað upp úr hádegi vestur til Sauðárkróks þar sem við gistum hjá Lóu systur Vigdísar. Á leiðinni stoppuðum við á Dalvík, Ólafsfirði og tókum smá slaufu yfir til Siglufjarðar til að sjá þann sögufræga stað.
1. júní - Ekið sem leið liggur suður og heim. Sólin brakaði sem aldrei fyrr.

Þetta kalla ég beinagrind ferðarinnar og í hana á ég eflaust eftir að vísa með nánari lýsingum og frásögnum. Allir dagarnir voru í frásögur færandi :-)

kveðja,
Steini

Engin ummæli: