Síðastliðinn föstudag var mér starsýnt á yfir tveggja mánaða gamlan eggjabakka inni í skáp. Einhver hafði lætt honum inn í skotið þar sem hann hvarf bak við dollur og dósir. Núna var orðið of seint að leggja sér eggin til munns að mínu mati og kalla ég þó ekki allt ömmu mína í þeim efnum. Í stað þess að farga þeim í ruslið ákvað ég að svo myndarleg egg ættu frekar heima í sínu náttúrulega umhverfi. Ég sá fyrir mér stórgrýtta fjöru, máva og hreinsandi saltan sjó. Kristján bloggmeister var tilvalinn förunautur í fjöruferðina enda á hann þessa líka fínu stafrænu myndavél. Hann valdi Geldingarnesið sem áfangastað og reyndist fjaran þar vera bæði afskekkt, villt og pólitískt áhugaverð.
"Eggjavarpið" gekk vel og sáum við á eftir eggjunum í fallegum boga niður þverhnípi þar til þau sundruðust á stóru myndarlegu grjóti. Eins og gefur að skilja kom upp gamla barnaskólakeppnisskapið í manni og mynduðumst við okkur við að reyna að hitta. Að loknum eggjum flugu ólifur. Ekki veit ég hvað lífríkið hefur um þann suðræna aðskotahlut að segja en þær flugu að minnsta kosti með myndarbrag með tækni sem við kölluðum "lófavarp" sem Kristján náði góðu taki á (sjá aftur myndasíðu hans). Eftir gott dagsverk kíktum við í gryfjuna á nesinu sem var svo umtalað í kosningabaráttu borgarinnar í fyrra. Þar bárum við okkur saman við geysilega stór vinnutæki. Mæli með þessum stað.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli