Ferðasagan, annar hluti.
Dagur eitt: Fyrst ég var byrjaður að segja frá því þegar ég var nappaður á leið í frí og var auk þess kominn með beinagrind að sögu er ekki úr vegi að bæta við. Við Vigdís gistum í góðu yfirlæti á Höfn eftir ansi langan akstur. Þoka var þétt langtímum saman svo við vissum hreint ekkert hvar við vorum um tíma og komum á endanum mjög seint til Hafnar. Klukkan var rúmlega tíu um kvöld og áttum við þá enn eftir að tryggja okkur gistingu, sem við reyndar gerðum á gistihemilinu Hvammi og fengum þetta líka fína útsýni yfir höfnina úr herbergi númer eitt. En klukkan var orðin óþægilega margt og á þessum tíma dags er ekki hlaupið að því að finna sér eitthvað að borða, allra síst úti á landi þar sem kyrrðin er enn einhvers virði. Þarna var reyndar opin unglingasjoppa í grenndinni (Hafnarbúðin) sem seldi samlokur til hálf tólf. Fram hjá henni renndum við hins vegar á bílnum í átt að kaffihúsi bæjarins, Kaffi Horninu, sem ég vissi til að seldi prýðilegan mat. Húsið var opið, gott og vel, en eldhúsið lokað enda klukkan orðin rúmlega hálf ellefu. Sama var uppi á teningnum á litlum pizza-stað þar nærri. Þá var aðeins eitt örþrifaráð eftir: Hótelið. Hótel áttu eftir að koma verulega við sögu í þessari ferð sem var að hefjast því það er makalaust hvað þau geta redda hlutum fyrir horn þegar fokið er í flest skjól. Á þessum fyrsta áningarstað borðuðum við því ágætis kvöldsnarl þegar samfélagið var lagst til hvílu. Því var vippað fram í snarheitum af kokki hótelsins. Næturvaktin sá til þess að við gátum borðað í ró og næði og sötrað öl með. Góður endir á löngum degi. Heima á gistiheimili sváfum við vært þá nóttina meðan bátarnir vögguðu í höfninni.
Dagur tvö: Næsta stopp Djúpivogur. Ekkert kaffihús opið. "Þau opna víst ekki fyrr en í júníbyrjun" sagði fólkið mér í bensínsjoppunni. Við renndum hýru auga til hótelsins og lékum sama leikinn og áður. Fyrst Hótelið á Höfn gat komið í staða matsölustaða þá hljóta þau að geta boðið upp á kaffi eins og hvert annað kaffihús. Og mikið rétt, kaffi og með'ðí. Dýrindis rækjubrauðsneið í Hótel Framtíð sem er sannarlega hús með sál. Mæli eindregið með viðdvöl á þessum stað hvort sem kaffihús bæjarins eru opin eða ekki. Með koffín í æðum héldum við til Stöðvarfjarðar þar sem Bjartur vinur minn bjó ásamt kærustu sinni Jóhönnu. Þau annast tónlistarlífið á bænum, hann sem tónlistarkennari og -skólastjóri og hún sem söngkona. Þar gistum við Vigdís í góðu yfirlæti eftir smá viðdvöl á eftirminnilegu steinasafni Petru við innkomuna í bæinn. Mikið var skrafað fram eftir kvöldi í húsakynnum Bjarts og Jóhönnu, borðuðum góðan mat og spiluðum stokkinn fram eftir kvöldi. Öll þurftum við hins vegar að hafa hemil á gleðinni því við Vigdís þurftum að vakna eldsnemma til að keyra til Seyðisfjarðar morguninn eftir auk þess sem gestgjafarnir þurftu að undirbúa jarðarför á sama tíma. Sannkölluð gæðastund milli stríða, ef svo mætti að orði komast.
Næsta færsla fjallar um sjálfa ferðina með Norrænu og dvölina í Færeyjum.
Steini
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli