sunnudagur, maí 30, 2010

Tónlist: Megas í Háskólabíói

Ég minntist á listahátíð Reykjavíkur í síðustu færslu. Í ár stóð ekki til að gera neitt. Megas reyndist hins vegar ómótstæðilegur þegar á reyndi og ég fann stakan miða nokkrum dögum fyrir tónleika. Vigdís lét hvarfla að fara með en ákvað að halda sig heima. Það reyndist skynsamlega valið því tónleikar Megasar voru vægast sagt tyrfnir, illskiljanlegir og - á köflum - beinlínis leiðinlegir. Fyrst kom hann fram með rokksveit sem nánast ískraði sig gegnum lögin. Hljómburður salarins bauð ekki upp á notalega upplifun. Á eftir því kom stúlknakór og söng hátt í tíu lög eftir meistarann í mjög flottum útsetningum. Það var glæsilegasti kafli tónleikanna og sá eini sem gaf mér gæsahúð. Útsetningar voru skemmtilega loðnar en ákaflega fallegar. Einnig var fyndið að horfa á sjálfan Megast standa á bak við söngpallinn, gægjast upp úr á milli stúlknakollanna, eins og refur um nótt (stúlknakórinn = hænsnabú). Þá kom hlé. Tónleikarnir hófust ekki fyrr en um níu þannig að þegar hér var komið sögu var maður orðinn hálf syfjaður. Eftir hlé var það því þrautin þyngri að sitja undir prógramminu án þess að mjaka sér til og frá af óþægindum og leiða. Kammersveit (kvintett) samansettur af einvalaliði úr sinfóníuhljómsveitinni flutti lög Megasar í klassískum búningi (í útsetningum sonar hans, sem er klassískt menntaður tónlistarmaður), með hann sjálfan rymjandi ofan í. Þetta fannst mér engan veginn passa saman - ofurnæmni strengjanna með óhefluðum og ryðguðum söng Megasar. Hins vegar voru nokkrir glæsilegir sprettir inni á milli, eins og jarðarfararútgáfan á "Gamla sorrí Grána". Eftir þetta kom aftur á svið hefðbundna hljómsveit Megasar og kláraði restina af prógramminu - fyrst í þjóðlagakenndum stíl og síðan í rokkaðri búningi. Aftur voru magnaðir sprettir inni á milli en að jafnaði fannst mér samspilið ekki nógu gott eins og prógrammið hefði ekki náð að slípast almennilega. Meðsöngvari Megasar, hún Ágústa Eva Erlends, var þar að auki algjörlega týnd í sumum lögum, sérstaklega þegar hún átti að spinna sig kringum rödd Megasar. Hún var hins vegar þeim mun betri ein og sér. Gaman væri að heyra í henni taka Megasarprógramm út af fyrir sig. Það er nægileg ótukt í hennar karakter til að halda góðum dampi í því prógrammi. En sem sagt, lýjandi tónleikar en afar athyglisverðir. Þeir voru svo kórónaðir í sjálfu uppklappinu. Þá datt Megasi í hug að fara í störukeppni við salinn. Aðrir hljóðfæraleikarar höfðu yfirgefið sviðið og hann stóð þarna ásamt syni sínum og Ágústu Evu. Þau tvo voru hálf vandræðaleg yfir þessu og horfðu afsakandi til hliðar á meðan hann horfði einbeittur og keikur út í salinn þar til fólk var farið að tínast út. En hann stóð sem fastast þar til lófatakið þagnaði. Þá fyrst kinkaði hann kolli og fannst tímabært að yfirgefa sviðið. Þá uppskar hann aftur lófaklapp fyrir þennan undarlega gjörning.

Upplifun: Magnaður maí

Mikið er maímánuður alltaf orkumikill! Ekki nóg með að veðrið snarbatni heldur er samfélagið allt undirlagt hátíðarhöldum. Listahátíð Reykavíkur og Eurovision eru dæmi um það - að vissu leyti andstæður kannski. Á fjögurra ára fresti bætast svo við sveitastjórnarkosningar auk heimsmeistarakeppni í knattspyrnu (sem reyndar er ekki haldin fyrr en í júní en eftirvæntingin er svo mikil í mínu tilfelli að hún litar stemninguna í maí skærum litum). Ég man eftir því þegar við Vigdís kynntumst, fyrir átta árum, að þá var þetta fernt allt í hámæli - fyrst kosningar og Eurovision, síðan listahátíð með heimsmeistarakeppni í kjölfarið. Magnaðir tímar.

Sveitastjórnarkosningar og Eurovisionkeppnin hafa áður haldist í hendur. Sá dagur er fyrir vikið hlaðin eftirvæntingu. Stundum slokknar á glæðunum þegar líða tekur á kvöldið. Oftar en ekki hafa hallærisleg lög sigrað söngkeppnina og sama gamla tuggan farin að hljóma í sömu gömlu rugguhestunum þegar öll kosningakurl koma til grafar. En ekki núna. Bæði sigraði frísklegt og líflegt lag frá Þýskalandi keppnina (laust við alla Eurovision-klisju) auk þess að bylting var gerð í kjörklefunum í Reykjavík. Hvað verður í framhaldi veit hins vegar enginn. Svoleiðis á einmitt að byrja sumarið.

sunnudagur, maí 16, 2010

Fréttnæmt: Flott sumarhelgi - nýtt grill og Viðeyjarferð.

Nú um helgina gekk sumarið í garð. Það segi ég í bókstaflegri merkingu því við vígðum garðinn með formlegum hætti á laugardaginn með því að slá grasið í fyrsta skipti. Í leiðinni tókum við í gagnið grill sem við vorum að kaupa (eða GLIRR, eins og Hugrún segir yfirleitt). Þetta er ódýrt grill, en vel nothæft í nokkur ár, og víkkar að sumu leyti út íbúðina og tengir hana við garðinn með því að búa til eins konar "útvortis" eldhús. Í góðu veðri er núna hægt með góðu móti að vera stöðugt úti og komast hjá því að spora út eldhúsið endalaust (þ.e. "innvortis" eldhúsið :-).

Gærdagurinn var eiginlega magnaður því áður en við buðum í garðinn hófst dagurinn með Viðeyjarferð á vegum foreldrafélags leikskólans. Veðrið var með ólíkindum gott. Fólk tók með sér hefðbundin útivistarföt með væntingar um næðing úti í eynni eða jafnvel rok, en veðrið reyndist hins vegar hið blíðasta. Signý og Hugrún fóru í siglingu í fyrsta skipti og voru mjög spenntar fyrir því. Ferðin var hin ævintýralegasta og foreldrafélagið stóð sig frábærlega í undibúningnum. Allt var til alls, útileikföng á hverju strái, nægar veitingar (grillaðar, að sjálfsögðu) og rúsínan í pylsuendanum var fjársjóðsleit með "alvöru" sjóræningjum, sem bara birtust allt í einu. Krakkarnir voru allir með útprentað fjársjóðskort af eynni og notuðu það öðru hvoru til að átta sig á eynni (svo er þetta eftir á skemmtilegur minjagripur). En það sem eftir stendur er sú tilfinning að Viðey sé staðurinn til að spóka sig á í góðu veðri. Þangað förum við pottþétt aftur í sumar - kannski bara til að borða. Eitthvað verður um skipulagðar ferðir um eyna í sumar svo maður verður bara vakandi fyrir þeim.

mánudagur, maí 10, 2010

Pæling: Slaufukall

Einu verð ég að bæta við síðustu frásögn. Þegar ég var á leiðinni út úr húsi, uppáklæddur í hvíta skyrtu og svörtum jakka (ásamt svörtum buxum) og ætlaði þannig klæddur með Signýju og Hugrúnu upp í Breiðholt í pössun, horfði Signý brosandi á mig og sagði: Þú ert eins og slaufukall! (Það vantaði bara slaufuna, sem sagt). Svo bætti hún við stuttu síðar: Þú ert bara krúttlegur.

Óvenjuleg atburðarás helgarinnar

Þetta er búin að vera sérkennileg helgi. Að minnsta kosti þróaðist hún á ófyrirsjáanlegan máta þannig að allt varð eiginlega öfugt við það sem upphaflega var áætlað. Þegar helgin nálgaðist blasti við að ég yrði heima með Signýju og Hugrúnu á meðan Vigdís ynni tvær næturvaktir. Eftir að Hugrún fæddist hefur Vigdís afar sjaldan tekið næturvaktir svo að mér fannst þetta áhugavert. Kannski myndi ég vaka frameftir og hlusta á tónlist, sökkva mér í einhver verkefni eða horfa á einhverjar bíómyndir sem höfða fremur til mín en Vigdísar. Ég var kominn í einhvers konar undirbúningshug. Af rælni minntist ég við Vigdísi, rétt fyrir helgi, á árshátíð hjá Buglinu. Ég ætlaði eiginlega ekkert að fara á hana en eftir hvatningu Vigdísar ákvað ég þó að slá til. Ég ætlaði bara að vera temmilega stutt og koma heim og sitja í einrúmi frameftir í sama fyrirhugaða gírnum. Þetta virtist auðvelt því það þurfti ekki að redda pössun nema í tvo til þrjá tíma frá því rétt áður en Vigdís legði af stað á næturvaktina og þar til ég kæmi heim (kringum miðnættið). En þegar á reyndi voru allir þeir nærtækustu víðs fjarri í ferðalögum úti á landi. Begga systir (sem býr uppi í Breiðholti) var hins vegar til í að passa (eins og ævinlega, takk :-) en þar sem hún býr svo langt í burtu leit ég á það sem heilmikið rask fyrir hana að koma svona seint, með Fannar og Guðnýju, og lafa fram að miðnætti heima hjá okkur. Þá fannst mér beinlínis tillitssamara að taka því sem einnig stóð til boða að koma með Signýju og Hugrúnu upp eftir til hennar og leyfa þeim að gista yfir nótt. Þegar þetta var klappað og klárt leit áttaði ég mig hins vegar á því að helgin yrði sérlega óvenjuleg. Enginn heima nema ég, eftir að ég kæmi heim af árhátíðinni. Ég vissi eiginlega ekki í hvort fótinn ég ætti að stíga með það hvort ég ætti að reyna að vera frameftir á árshátíðinni (fara í bæinn og svona) eða koma strax heim og njóta þess að vera aleinn og sinna einhverum áhugamálum þar til ég lognast út af seint um nótt. Hins vegar einfaldaðist valið strax á föstudagsmorguninn. Þá vaknaði Vigdís með verki í baki og treysti sér ekki á næturvaktirnar (það er víst erfiðara að hlífa sér á fáliðuðum næturvöktum í samanburði við dagvaktir). Helgin hafði snarbreyst frá því að Vigdís yrði í burtu og við hin heima yfir í að hún ein sæti heima og ég í burtu (og Hugrún og Signý í pössun). En notalegt var það nú samt. Ég fór á mína árshátíð og kom heim á miðnætti. Þar beið mín Vigdís og við nýttum tækifærið og fórum í miðnæturgöngu í svölu næturloftinu - þokumistruðu - og það var tilfinnanlega sumar handan við þokuna (einhver útlandastemning í loftinu). Gaman að rifja upp þessar einföldu en sjarmerandi kvöldgöngur - eitthvað sem við höfðum ekki gert árum saman.