Nú um helgina gekk sumarið í garð. Það segi ég í bókstaflegri merkingu því við vígðum garðinn með formlegum hætti á laugardaginn með því að slá grasið í fyrsta skipti. Í leiðinni tókum við í gagnið grill sem við vorum að kaupa (eða GLIRR, eins og Hugrún segir yfirleitt). Þetta er ódýrt grill, en vel nothæft í nokkur ár, og víkkar að sumu leyti út íbúðina og tengir hana við garðinn með því að búa til eins konar "útvortis" eldhús. Í góðu veðri er núna hægt með góðu móti að vera stöðugt úti og komast hjá því að spora út eldhúsið endalaust (þ.e. "innvortis" eldhúsið :-).
Gærdagurinn var eiginlega magnaður því áður en við buðum í garðinn hófst dagurinn með Viðeyjarferð á vegum foreldrafélags leikskólans. Veðrið var með ólíkindum gott. Fólk tók með sér hefðbundin útivistarföt með væntingar um næðing úti í eynni eða jafnvel rok, en veðrið reyndist hins vegar hið blíðasta. Signý og Hugrún fóru í siglingu í fyrsta skipti og voru mjög spenntar fyrir því. Ferðin var hin ævintýralegasta og foreldrafélagið stóð sig frábærlega í undibúningnum. Allt var til alls, útileikföng á hverju strái, nægar veitingar (grillaðar, að sjálfsögðu) og rúsínan í pylsuendanum var fjársjóðsleit með "alvöru" sjóræningjum, sem bara birtust allt í einu. Krakkarnir voru allir með útprentað fjársjóðskort af eynni og notuðu það öðru hvoru til að átta sig á eynni (svo er þetta eftir á skemmtilegur minjagripur). En það sem eftir stendur er sú tilfinning að Viðey sé staðurinn til að spóka sig á í góðu veðri. Þangað förum við pottþétt aftur í sumar - kannski bara til að borða. Eitthvað verður um skipulagðar ferðir um eyna í sumar svo maður verður bara vakandi fyrir þeim.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli