mánudagur, maí 10, 2010
Óvenjuleg atburðarás helgarinnar
Þetta er búin að vera sérkennileg helgi. Að minnsta kosti þróaðist hún á ófyrirsjáanlegan máta þannig að allt varð eiginlega öfugt við það sem upphaflega var áætlað. Þegar helgin nálgaðist blasti við að ég yrði heima með Signýju og Hugrúnu á meðan Vigdís ynni tvær næturvaktir. Eftir að Hugrún fæddist hefur Vigdís afar sjaldan tekið næturvaktir svo að mér fannst þetta áhugavert. Kannski myndi ég vaka frameftir og hlusta á tónlist, sökkva mér í einhver verkefni eða horfa á einhverjar bíómyndir sem höfða fremur til mín en Vigdísar. Ég var kominn í einhvers konar undirbúningshug. Af rælni minntist ég við Vigdísi, rétt fyrir helgi, á árshátíð hjá Buglinu. Ég ætlaði eiginlega ekkert að fara á hana en eftir hvatningu Vigdísar ákvað ég þó að slá til. Ég ætlaði bara að vera temmilega stutt og koma heim og sitja í einrúmi frameftir í sama fyrirhugaða gírnum. Þetta virtist auðvelt því það þurfti ekki að redda pössun nema í tvo til þrjá tíma frá því rétt áður en Vigdís legði af stað á næturvaktina og þar til ég kæmi heim (kringum miðnættið). En þegar á reyndi voru allir þeir nærtækustu víðs fjarri í ferðalögum úti á landi. Begga systir (sem býr uppi í Breiðholti) var hins vegar til í að passa (eins og ævinlega, takk :-) en þar sem hún býr svo langt í burtu leit ég á það sem heilmikið rask fyrir hana að koma svona seint, með Fannar og Guðnýju, og lafa fram að miðnætti heima hjá okkur. Þá fannst mér beinlínis tillitssamara að taka því sem einnig stóð til boða að koma með Signýju og Hugrúnu upp eftir til hennar og leyfa þeim að gista yfir nótt. Þegar þetta var klappað og klárt leit áttaði ég mig hins vegar á því að helgin yrði sérlega óvenjuleg. Enginn heima nema ég, eftir að ég kæmi heim af árhátíðinni. Ég vissi eiginlega ekki í hvort fótinn ég ætti að stíga með það hvort ég ætti að reyna að vera frameftir á árshátíðinni (fara í bæinn og svona) eða koma strax heim og njóta þess að vera aleinn og sinna einhverum áhugamálum þar til ég lognast út af seint um nótt. Hins vegar einfaldaðist valið strax á föstudagsmorguninn. Þá vaknaði Vigdís með verki í baki og treysti sér ekki á næturvaktirnar (það er víst erfiðara að hlífa sér á fáliðuðum næturvöktum í samanburði við dagvaktir). Helgin hafði snarbreyst frá því að Vigdís yrði í burtu og við hin heima yfir í að hún ein sæti heima og ég í burtu (og Hugrún og Signý í pössun). En notalegt var það nú samt. Ég fór á mína árshátíð og kom heim á miðnætti. Þar beið mín Vigdís og við nýttum tækifærið og fórum í miðnæturgöngu í svölu næturloftinu - þokumistruðu - og það var tilfinnanlega sumar handan við þokuna (einhver útlandastemning í loftinu). Gaman að rifja upp þessar einföldu en sjarmerandi kvöldgöngur - eitthvað sem við höfðum ekki gert árum saman.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli