sunnudagur, maí 30, 2010
Tónlist: Megas í Háskólabíói
Ég minntist á listahátíð Reykjavíkur í síðustu færslu. Í ár stóð ekki til að gera neitt. Megas reyndist hins vegar ómótstæðilegur þegar á reyndi og ég fann stakan miða nokkrum dögum fyrir tónleika. Vigdís lét hvarfla að fara með en ákvað að halda sig heima. Það reyndist skynsamlega valið því tónleikar Megasar voru vægast sagt tyrfnir, illskiljanlegir og - á köflum - beinlínis leiðinlegir. Fyrst kom hann fram með rokksveit sem nánast ískraði sig gegnum lögin. Hljómburður salarins bauð ekki upp á notalega upplifun. Á eftir því kom stúlknakór og söng hátt í tíu lög eftir meistarann í mjög flottum útsetningum. Það var glæsilegasti kafli tónleikanna og sá eini sem gaf mér gæsahúð. Útsetningar voru skemmtilega loðnar en ákaflega fallegar. Einnig var fyndið að horfa á sjálfan Megast standa á bak við söngpallinn, gægjast upp úr á milli stúlknakollanna, eins og refur um nótt (stúlknakórinn = hænsnabú). Þá kom hlé. Tónleikarnir hófust ekki fyrr en um níu þannig að þegar hér var komið sögu var maður orðinn hálf syfjaður. Eftir hlé var það því þrautin þyngri að sitja undir prógramminu án þess að mjaka sér til og frá af óþægindum og leiða. Kammersveit (kvintett) samansettur af einvalaliði úr sinfóníuhljómsveitinni flutti lög Megasar í klassískum búningi (í útsetningum sonar hans, sem er klassískt menntaður tónlistarmaður), með hann sjálfan rymjandi ofan í. Þetta fannst mér engan veginn passa saman - ofurnæmni strengjanna með óhefluðum og ryðguðum söng Megasar. Hins vegar voru nokkrir glæsilegir sprettir inni á milli, eins og jarðarfararútgáfan á "Gamla sorrí Grána". Eftir þetta kom aftur á svið hefðbundna hljómsveit Megasar og kláraði restina af prógramminu - fyrst í þjóðlagakenndum stíl og síðan í rokkaðri búningi. Aftur voru magnaðir sprettir inni á milli en að jafnaði fannst mér samspilið ekki nógu gott eins og prógrammið hefði ekki náð að slípast almennilega. Meðsöngvari Megasar, hún Ágústa Eva Erlends, var þar að auki algjörlega týnd í sumum lögum, sérstaklega þegar hún átti að spinna sig kringum rödd Megasar. Hún var hins vegar þeim mun betri ein og sér. Gaman væri að heyra í henni taka Megasarprógramm út af fyrir sig. Það er nægileg ótukt í hennar karakter til að halda góðum dampi í því prógrammi. En sem sagt, lýjandi tónleikar en afar athyglisverðir. Þeir voru svo kórónaðir í sjálfu uppklappinu. Þá datt Megasi í hug að fara í störukeppni við salinn. Aðrir hljóðfæraleikarar höfðu yfirgefið sviðið og hann stóð þarna ásamt syni sínum og Ágústu Evu. Þau tvo voru hálf vandræðaleg yfir þessu og horfðu afsakandi til hliðar á meðan hann horfði einbeittur og keikur út í salinn þar til fólk var farið að tínast út. En hann stóð sem fastast þar til lófatakið þagnaði. Þá fyrst kinkaði hann kolli og fannst tímabært að yfirgefa sviðið. Þá uppskar hann aftur lófaklapp fyrir þennan undarlega gjörning.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli