Mikið er maímánuður alltaf orkumikill! Ekki nóg með að veðrið snarbatni heldur er samfélagið allt undirlagt hátíðarhöldum. Listahátíð Reykavíkur og Eurovision eru dæmi um það - að vissu leyti andstæður kannski. Á fjögurra ára fresti bætast svo við sveitastjórnarkosningar auk heimsmeistarakeppni í knattspyrnu (sem reyndar er ekki haldin fyrr en í júní en eftirvæntingin er svo mikil í mínu tilfelli að hún litar stemninguna í maí skærum litum). Ég man eftir því þegar við Vigdís kynntumst, fyrir átta árum, að þá var þetta fernt allt í hámæli - fyrst kosningar og Eurovision, síðan listahátíð með heimsmeistarakeppni í kjölfarið. Magnaðir tímar.
Sveitastjórnarkosningar og Eurovisionkeppnin hafa áður haldist í hendur. Sá dagur er fyrir vikið hlaðin eftirvæntingu. Stundum slokknar á glæðunum þegar líða tekur á kvöldið. Oftar en ekki hafa hallærisleg lög sigrað söngkeppnina og sama gamla tuggan farin að hljóma í sömu gömlu rugguhestunum þegar öll kosningakurl koma til grafar. En ekki núna. Bæði sigraði frísklegt og líflegt lag frá Þýskalandi keppnina (laust við alla Eurovision-klisju) auk þess að bylting var gerð í kjörklefunum í Reykjavík. Hvað verður í framhaldi veit hins vegar enginn. Svoleiðis á einmitt að byrja sumarið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli