föstudagur, apríl 30, 2010

Daglegt líf: Afmæli og Gróttuferð.

Dagurinn í dag er allmerkilegur í okkar augum því hún Hugrún er loksins orðin þriggja ára. Manni hefur lengi fundist hún hafa náð þessum aldri því hún er svo dugleg á mörgum sviðum. Hún hefur til að mynda aldrei vílað fyrir sér að leika sér við eldri krakka, eins og til dæmis vini Signýjar. En það er fyrst núna sem við getum sagt það sem okkur hefur lengi fundist: Hún er orðin þriggja ára. Í kvöld fórum við bara út að borða saman - bara nett í tilefni dagsins - og heima var boðið upp á íspinna. Á sunnudaginn kemur höldum við hins vegar upp á afmælið hennar með fjölskyldumeðlimum. Seinna verður ef til vill boðið upp á barnaafmæli - en það á eftir að koma í ljós nákvæmlega hvenær.

Ég minni í leiðinni á myndasíðuna á flickr. Þangað hef ég látið drjúgan slatta af myndum frá síðustu vikum. Þar eru meðal annars nokkrar myndir frá skemmtilegri Gróttuferð sem við fórum í fyrir tveimur vikum með Jóni Má og Melkorku. Þá var vitinn opinn og boðið upp á vöfflur í tilefni dagsins. Útsýnið úr vitanum var vitaskuld flott.

sunnudagur, apríl 25, 2010

Upplifun: Vorkoman

Nú er vor í lofti. Þau segja það að minnsta kosti í vinnunni þegar þau heyra mig hnerra. En það er líka sýnilegt á götum úti. Grasið er farið að grænka örlítið og farfuglarnir komnir til landsins. Um daginn keyrði ég Vigdísi í vinnuna (Borgarspítalann) og á grænum grasbala við þyrluflugpallinn niðri, austan megin við spítalann, sá ég fjöldann allan af Lóum spássera. Venjulega sér maður þær bara eina og eina, kannski tvær, en þarna voru þær einar þrjátíu saman komnar. Þetta er frekar stór fugl og myndarlegur svo mér fannst nokkuð mikið til hans koma í svona stórum hóp. Ég ályktaði sem svo að fyrst þeir halda sig meginpart sumars út af fyrir sig þá hljóti hópurinn að vera nýlentur.

Vorið hefur líka áhrif á lífið heima því með grænkandi grasi þarf ég að huga að garðhúsinu. Síðustu vikur hef ég ekki þurft að hreyfa við því (til að koma í veg fyrir að grasið undir því visni) en nú þarf ég að mjaka því til og frá í hverri viku. Annars myndast leiðinlegir ferkantaðir rammar út um alla lóð. Svo er kominn tími á að stinga niður fræjum í matjurtagarðinum. Ég er þegar búinn að kaupa fyrir gulrótum, steinselju og basiliku. Þetta hefur gefist best - bæði er það harðgert og vinsælt. Frost er á undanhaldi svo fyrstu skrefin í garðvinnunni hljóta að vera á næsta leyit. Sólin hækkar stöðugt á lofti og hefur líka sín áhrif á kvöldrútínu Signýjar og Hugrúnar. Það er að koma "sumarnótt", svo ég vitni í Signýju. Birtan er farin að teygja sig fram yfir háttatíma. Í vikunni settum við upp teppi fyrir gluggann sem myrkratjald, svona rétt á meðan þær sofna. Svo kemur myrkrið fljótlega í kjölfarið - næstu vikurnar að minnsta kosti.

föstudagur, apríl 16, 2010

Pæling: Tímabundin skyndiöldrun

Undanfarnar vikur hafa verið undarlegar, rammaðar inn af tveimur eldgosum. Það byrjaði með því að ég meiddist í baki, eins og fram kom síðast. Það hafði þær afleiðingar að ég var með eins konar "vöðvabólgu" milli herðablaðanna og upp eftir hálsi. Það olli þreytu, síþreytu til að byrja með. Þegar læknisskoðun leiddi í ljós að líklega væru "bara" vöðvarnir í bakinu tímabundið laskaðir (en ekki hryggjarliðirnir eða rifbein) ákvað ég að byrja að hreyfa mig á ný. Við það varð mér deginum ljósara að ég yrði lengi að ná mér. Ég gat ekki einu sinni skokkað varlega út í búð um það bil viku eftir að meiðslin áttu sér stað. Tilfinningin var mjög óþægileg: Mér fannst eins og verið væri að kippa stöðugt í hryggjarsúluna ofanverða. Ég reyndi sund en allt kom fyrir ekki. Ég gat tekið bringusundstök varlega en var alveg ófær um snúningana sem fylgja skriðsundi. Í tvær vikur gat ég sem sagt lítið sem ekkert hreyft mig, var þreyttur og orkulítill og var það líklega bæði afleiðing af vöðvabólgunni og hreyfingarleysinu. Á sama tíma missti ég af tækifærinu til að þeysast út á land og skoða glæsilegt túristagos. Ég gat ekki hugsað mér að "fara" í bakinu uppi á viðsjárverðum Fimmvörðuhálsinum og tók þessu af vissu æðruleysi. Ég þurfti alla vegana ekkert að velkjast um í vafa um það hvort ég ætti að æða út í óblíða náttúruna á þessum tíma árs. Ég hafði mig því hægan og fylgdist með úr fjarska. Öðru hvoru varð mér hugsað til þess að hugsanlega væri ég eitthvað skaddaður varanlega en myndi líklega geta skokkað með tímanum. Einhvern veginn tókst mér að sætta mig við þá tilhugsun og einbeitti mér að því að styrkja mig með æfingum. Gönguferðir yfir náttúrlegt undirlag eru til að mynda frábær leið til að styrkja bakvöðvana heildrænt og nýtti ég það óspart, ásamt heitum bökstrum og heitum pottum öðru hvoru. Svo gerðist það um síðustu helgi að ég var einn með stelpurnar heima (Vigdís á kvöldvakt) og mér tókst að beita mér eitthvað vitlaust, líklega vegna þess að ég var að hlífa mér, þannig að ég "fór" alveg í mjóbakinu. Þá var ég orðinn slæmur bæði í bakinu uppi (milli herðablaðanna) og niðri samtímis. Samfara þessu glímdi maður við kvef (veirusýkingu og kuldaköst) ásamt fyrstu bylgju af ofnæmisköstum (kláða í nefi og augum). Þetta voru ekki þægilegir dagar. En þar sem verkurinn í bakinu ofanverðu var eitthvað á undanhaldi náðí verkurinn niðri að yfirtaka skynjunina. Hann knúði mig til að hvíla mig enn markvissar og fékk ég ágætt tækifæri til að sofa út og hvíla mig um helgina. Ég gætti þess sérstaklega að beita mér rétt, hreyfa mig rétt og fara mér hægt. Eftir tveggja daga rósemi og hæglæti var ég orðinn miklu betri neðantil og uppgötvaði mér til ánægju að ég var búinn að gleyma "efri" verknum. Hann var sem sagt því sem næst horfinn með hinum. Þetta fannst mér hálf kyndugt og minnti mig á klassíska ráðið sem maður gefur við höfuðverk; maður stígur bara á tána (þá gleymsit höfuðverkurinn).

Núna eftir helgina hef ég getað hreyft mig dálítið. Fyrst í stað þorði ég ekki annað en að ganga rösklega og með tímanum prófaði ég að skokka - og það tókst (án verkja)! Þvílík orka sem maður fær út úr því! Mér fannst ég ganga í endurnýjun lífdaga. Mér sem hafði liðið eins og gamlingja um tíma frískaðist allur upp á ný. Í leiðinni veltir maður því fyrir sér hvað það er mögnuð upplifun að standa frammi fyrir heilsubresti og ná að yfirstíga hann. Góð heilsa blasir við manni sem gjöf eftir á sem maður tekur fegins hendi og reynir að varðveita. Á sama tíma er ég meðvitaðri en fyrr um allt það fólk úti á götu eða í umhverfi manns sem ekki býr yfir góðri heilsu, fólk sem gengur um bogið eða er svo stíft að það getur ekki beygt sig. Fólk sem dregur fótinn eða gengur skakkt. Það þarf ekki mikið út af að bera.