sunnudagur, apríl 25, 2010

Upplifun: Vorkoman

Nú er vor í lofti. Þau segja það að minnsta kosti í vinnunni þegar þau heyra mig hnerra. En það er líka sýnilegt á götum úti. Grasið er farið að grænka örlítið og farfuglarnir komnir til landsins. Um daginn keyrði ég Vigdísi í vinnuna (Borgarspítalann) og á grænum grasbala við þyrluflugpallinn niðri, austan megin við spítalann, sá ég fjöldann allan af Lóum spássera. Venjulega sér maður þær bara eina og eina, kannski tvær, en þarna voru þær einar þrjátíu saman komnar. Þetta er frekar stór fugl og myndarlegur svo mér fannst nokkuð mikið til hans koma í svona stórum hóp. Ég ályktaði sem svo að fyrst þeir halda sig meginpart sumars út af fyrir sig þá hljóti hópurinn að vera nýlentur.

Vorið hefur líka áhrif á lífið heima því með grænkandi grasi þarf ég að huga að garðhúsinu. Síðustu vikur hef ég ekki þurft að hreyfa við því (til að koma í veg fyrir að grasið undir því visni) en nú þarf ég að mjaka því til og frá í hverri viku. Annars myndast leiðinlegir ferkantaðir rammar út um alla lóð. Svo er kominn tími á að stinga niður fræjum í matjurtagarðinum. Ég er þegar búinn að kaupa fyrir gulrótum, steinselju og basiliku. Þetta hefur gefist best - bæði er það harðgert og vinsælt. Frost er á undanhaldi svo fyrstu skrefin í garðvinnunni hljóta að vera á næsta leyit. Sólin hækkar stöðugt á lofti og hefur líka sín áhrif á kvöldrútínu Signýjar og Hugrúnar. Það er að koma "sumarnótt", svo ég vitni í Signýju. Birtan er farin að teygja sig fram yfir háttatíma. Í vikunni settum við upp teppi fyrir gluggann sem myrkratjald, svona rétt á meðan þær sofna. Svo kemur myrkrið fljótlega í kjölfarið - næstu vikurnar að minnsta kosti.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

WHAT LANGUAGE IS THIS????


Kevein Bacone

Nafnlaus sagði...

This is Icelandic you stupid cow!
Kv
Magnús Hafstað