mánudagur, júlí 30, 2007

Fréttnæmt: Harmleikurinn í gær

Harmleikurinn í gær, þegar byssumaður skaut vegfaranda til bana og svipti sig síðan lífi, snerti okkur Vigdísi sérstaklega. Fórnarlamb árásarinnar er frændi Vigdísar. Þau eru systkinabörn. Við eigum von á mjög erfiðri viku framundan þegar við höfum frekara samband við nánari ættingja. Á meðan einbeitum við okkur að því að lifa eðlilegu lífi og vera öðrum styrkur þegar að því kemur. Manni er hugsaði til margra á stundu eins og þessari og hversu marga þessi atburður snertir.

sunnudagur, júlí 29, 2007

Upplifun: 240 krónur bensinlítrinn

Á leiðinni austur slepptum við því að fylla á tankinn enda föstudagsörtröð nærri Atlantsolíustöðvunum. Bensínið dugði yfir heiðina og eitthvað meira, en varla til baka. Við mundum hins vegar bæði eftir bensínstöð á Þingvöllum og við ornuðum okkur við þá tilhugsun á leiðinni austur. Sú minning reyndist hins vegar úrelt. Það var engin bensínstöð við umferðamiðstöðina lengur (þar var hún fyrir fjórtán árum) og hina stöðina (sem Vigdís hafði munað eftir við Valhöll) var einnig búið að fjarlægja. Á leiðinni til baka, í hitamollu, var brýnt að redda sér með einhverjum hætti því ekki gátum við gerst strandaglópar á milli Mosó og Þingvalla með þriggja mánaða barn í bílnum.

Nú voru góð ráð dýr. Við hringdum í hina og þessa í þeirri von um að vinir eða skyldmenni væru í grenndinni og nenntu að keyra hingað með bensín í brúsa og snæða með okkur kvöldverð í staðinn á Valhöll. Við náðum hins vegar ekki í neinn. Þá mundi ég eftir landvörðunum á Þingvöllum. Þeir eru staðsettir í umferðarmiðstöðinni og veita þar upplýsingar um þjóðgarðinn. Þeirra hlutverk er einnig að aðstoða ferðamenn í þengingum. Þar sem reikna má með því að þessi vandi skjóti upp kollinum reglulega hlytu þeir einfaldlega að hafa einhver ráð.

Ég var strax spurður að því hvort tankurinn væri "alveg tómur". Næsta bensínstöð var á Laugavatni eða Mosfellsbæ og þeir mega helst ekki selja mér bensín nema í neyð (Þeir sögðu mér að þjóðgarðurinn væri hugsaður sem framtíðarvatnsból Reykvikinga og þess vegna mætti geyma bensín á staðnum). Ég féll hins vegar undir þessa neyðarskilgreiningu svo hann hringdi eitt símtal og fékk kollega sinn til að skutlast eitthvað á bak við. Þar geymdu þeir fimm lítra brúsa (væntanlega nokkur stykki) og seldu mér hann á þúsundkall. Reyndar er þetta dýrt bensín, ég sá það strax, tvöhundruð kall lítrinn en reddingin var góð (enda "góð ráð dýr") og ég var ánægður með snör viðbrögð fyrrum kollega minna á Þingvöllum. Þegar kom að þvi að borga kom hins vegar upp sérkennilega staða. Ég gat ekki borgað með korti því þetta er ekki hluti af opinberri þjónustu þjóðgarðsins og má ekki fara í gegnum bókhaldið (þetta er bara óformleg redding). Ég vissi að allur peningurinn í veskinu mínu var uppurinn. Þeir hefðu svo sem selt mér eitthvað ódýrt gegnum debetkortið og látið mig fá pening í skiptum fyrir hærri upphæð. Ég fann hins vegar við nánari leit danskan seðil sem ég hafði þvi sem næst gleymt. Danskan hundraðkall. Seðillinn var mun verðmætari en íslenskur þúsundkall svo þetta þótti nokkuð ásættanlegt. Það fór því þannig að ég keypti fimm lítrana á um það bil 1200 kall, eða 240 krónur lítrann, og var sérlega ánægður með málalyktir.

Fréttnæmt: Stutt bústaðarferð

Við erum nýkomin úr vel heppnaðri sumarbústaðarferð á Þingvöllum. Þar fengum við með tiltölulega skömmum fyrirvara að gista í bústað sem Bryndís systir hefur aðgang að. Við fengum pössun fyrir Signýju á meðan, yfir nótt og fram að kvöldmat daginn eftir (okkur skilst að hún hafi haft það sérlega gott á meðan og farið í ferðalag og svoleiðis). Við hin þrjú slökuðum á á meðan og gerðum lítið annað en að lesa tímarit, hvíla okkur og leggjast í heitan pott. Við tókum ekki neinn mat með okkur nema handhægt ferðanesti og slepptum meira að segja allri tónlist. Eins einfalt og hugsast getur og slökunin eftir því. Það sem var hvað mest endurnærandi var nætursvefninn sem teygði sig til klukkan hálf tíu. Dýrð. Við eigum eftir að búa að þessari hvíld dögum saman.

mánudagur, júlí 23, 2007

Fréttnæmt: Sumarfrí

Nú er Signý komin í sumarfrí frá leikskólanum næstu tvær vikurnar. Þetta gerist einmitt þegar við sáum fram á að forfallatíminn væri (loksins) að baki. Nú er bara að bralla eitthvað saman. Við erum nú með ýmislegt á prjónunum, því er ekki að neita, enda líklegt að Signý verði eirðarlaus án tilbreytingarinnar.

sunnudagur, júlí 22, 2007

Daglegt lif: Frjókornaofnæmi

Ég er búinn að vera að klikkast í ofnæminu í dag. Ég hnerraði svo mikið undir stýri í dag að ég var beinlínis hættulegur umferðinni. Miðað við frjótölur er það kannski ekki svo skrýtið. Þegar við sáum þetta vorum við ekki lengi að loka flestum gluggum - og héldum okkur innandyra það sem eftir lifði dags.

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Þroskaferli: Hreyfigeta Hugrunar og pelatilraun

Ef heimsókn Signýjar í Húsdýragarðinn hafi verið tímamót hjá henni (dramatískt áætlað) þá voru svo sannarlega tímamót hjá Hugrúnu um líkt leyti. Við leyfðum henni að prófa pela í fyrsta skipti. "Leyfðum" er ekki alveg lýsandi kannski, því hún sóttist ekki eftir pelanum, en drakk þó eitthvað og lét sig hafa það. Árangurinn veitir okkur von um að á næstunni komist Vigdís út úr húsi öðru hvoru ein síns liðs. Það er nauðsynlegt til að geta slakað almennilega á. Á meðan er ég að sjálfsögðu tilbúinn heima með pela. Núna er Vigdís til að mynda nýfarin upp í Kringlu og ætlar sér að vera þar í tvo tíma eða svo. Ég hef bara gaman af því að vera einn heima (enda sjaldan sem það hefur gerst eftir að Hugrún fæddist).

Hugrún dafnar mjög vel og óhætt að segja að hún styrkist hratt og örugglega. Hún heldur höfði auðveldlega og er orðin nokkuð nákvæm í fínhreyfingum handanna. Við settum hana í "leikfangaland", eins og við köllum það, fyrir um tveim vikum (þetta er teppi með boga yfir þaðan sem tuskudýr dangla fyrir ofan hana). Það var magnað að fylgjast með henni gaumgæfa tuskudýrin og fálma eftir þeim. Á örfáum mínútum mátti sjá hvernig hún náði sífellt betri tökum á hreyfingunum og var farin markvisst að slá til leikfanganna fyrir ofan sig. Núna er eins og hreyfingarnar séu orðnar enn fágaðri. Hún á það til í miðju brosi til manns að rétta út höndina og grípa í nefið, svo að ekki sé minnst á fingur, ef þeir eru nærtækari. Á teppinu þar sem Hugrún liggur öðru hvoru er greinilegt að hún er í óða önn að læra ný brögð. Hún er farin að "vagga" sér á gólfinu með því að lyfta upp fótunum í keng og snúa til vinstri og hægri. Þess verður ekki langt að bíða að hún snúi sér á magann, ef að líkum lætur.

Daglegt lif: Veðursæld lokið

Loksins er byrjað að rigna eftir margra vikna þurrk. Við höfum þurft að vökva garðinn reglulega síðustu daga, sem er tímafrekt og gott að vera laus við (úðarar eru gjörsamlega uppseldir í bænum). Núna sjá skýin um þetta fyrir okkur.

Við Vigdís erum búin að njóta sólarinnar eftir að fjölskyldan steig upp úr veikindunum og getum því verið sátt við okkar hlut. Fyrst fórum við í pikk-nikk með bakkelsi úr bakaríinu. Og hvert fórum við? Jú, auðvitað út í garð. Hann stendur alltaf fyrir sínu - með skjóltjaldi, þægilegum garðstól, mjúku teppi og ljósleita garðhúsinu hennar Signýjar. Þar lágu þær Vigdís og Hugrún á meðan við Signý þurftum að skjótast burt (og komum meðal annars við í Tívolíinu við Smáralindina). Daginn eftir varð sund fyrir valinu. Þar lá ég á bakkanum og las kafla úr einni af mínum uppáhalds bókum (Veröld sem var, eftir Stefan Zweig). Auðvitað var sú för kórónuð með ís úr nágrenninu. Seinna um daginn fórum við svo í Fjölskyldugarðinn. Signý fór í sína fyrstu alvöru ferð þangað (ég lít fram hjá ferð sem við fórum eitt sinn þegar ókeypis var i garðinn og engin leið að komast að til að sjá neitt). Hún kannaðist nú við flest dýrin eftir samviskusamlegan bókalestur og vissi alveg hvað þau "segja" og svoleiðis en hún var samt engan vegin viðbúin tröllslegum hljóðunum. Hún hágrét um leið og hesturinn fnæsti upp við hana. Svínin máttu heldur ekki rýta, þetta er svo stórgerðarlegt allt saman. Engu að síður naut hún sín vel í garðinum og hafði gaman af dýrunum úr hæfilegri fjarlægð.

sunnudagur, júlí 15, 2007

Daglegt lif: Loksins upprisin

Nú erum við öll komin á ról eftir veikindatörnina og vonandi að ekki verði neitt bakslag úr þessu. Signý var orðin nokkuð góð á miðvikudaginn var en við héldum henni hitalausri heima á fimmtudag og föstudag. Fórum þó á stjá rétt fyrir helgi (að mestu innandyra í bílnum og verslunum) og kíktum í skemmtilegar búðir á Laugaveginum - bara svona til að skipta um umhverfi og svoleiðis. Fórum á Borgarbókasafnið í Tryggvagötu og nutum þess að leika okkur í barnahorninu. Kíktum líka í Skífuna þar sem ég gramsaði á meðan Signý dillaði sér í takt við vinsæla popptónlist. Það er alltaf gaman að kíkja þangað með henni og leyfa henni að valsa aðeins um (enda ákaflega geisladiskavön og fer vel með það sem hún finnur). Að lokum kíktum við í úrvarlsverslun efst a Laugaveginum, við Hlemm, sem ég held mikið upp á (og hef skrifað um áður). Hún heitir Völuskrín og er nýkomin með skemmtilega heimasíðu. Þar sýndi ég Signýju alls skyns hugmydarík leikföng en hún tók hins vegar ástfóstri við kyndugum göngustaf á hjólum. Hjólin snúa eins konar tannhjólum (úr gúmmíi) sem snúa skrautlegri fígúru utan um sjálfan stafinn. Þegar búðin lokaði vildum við hvorugt fara án stafsins og hefur hann síðan verið bæði fyrsta leikfang Signýjar að morgni og það síðasta sem hún skilur við sig að kvöldi (reyndar bara tvö kvöld liðin, en þetta hljómaði bara svo vel svona :-).

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Fréttnæmt: Endurtekin veikindi

Ja, hérna. Loksins þegar við héldum að við værum komin á beinu brautina þá veiktist Signý á ný. Hún veiktist lítillega fyrir helgi (gubbaði í leikskólanum). Við héldum henni inni yfir helgina og hún var að mestu hitalaus. Þá létum við á það reyna á ný á mánudaginn. Henni leið vel út skóladaginn en fékk hins vegar hita um kvöldið. Í dag var hún því heima aftur og verður það sömuleiðis á morgun (er með rúmar 38 gráður). Þetta er svona vella sem vill ekki yfirgefa hana. Signý er nokkuð brött en er fremur lystarlítil.

Svona er þetta búið að ganga siðan Signý byrjaði í leikskólanum:

1. vika - veik
2. vika - frísk (en ég veikur)
3. vika - sumarbústaður (veiktist á meðan)
4. vika - frísk (gubbaði á föstudaginn) - Hugrún veik á meðan
5. vika - veik...??

Allan þenna tíma höfum við mest megnis þurft að sinna litlu dætrum okkar innandyra, eða verið sjálf slöpp, og ekki notið hitabylgjunnar sem skyldi. Maður hugsar nú oft til þess hvað það væri nú gaman að geta sprangað um utandyra svolítið. Það hlýtur að fara að styttast í það úr þessu.

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Tónleikar: Veggurinn

Mér er sönn ánægja að eiga enn eftir að greina frá tónleikum Dúndurfrétta og sinfóníunnar (frá því á föstudaginn var). Við Villi fórum saman á tónleikana. Hann er gamalgróinn Pink Floyd aðdáandi og þekkir "Vegginn" út og inn, en hafði hins vegar aldrei heyrt Dúndurfréttir spila. Ég gerði mitt besta í að halda aftur af hástemmdum lýsingarorðum mínum í garð Dúndurfrétta fyrir tónleika, enda mikill aðdáandi þeirra. Ég sá þá flytja þetta verk í Austurbæ í hitteðfyrra og var frá mér numinn af hrifningu. Hver sæmilega skynsamur maður myndi ekki taka mark á lýsingum mínum hvort eð er, ef ég leyfi mér að komast á flug, en í stuttu máli má segja að það er erfitt að ímynda sér tónlistina betur flutta, jafnvel þó Pink Floyd sjálf væri á sviðinu. Í þetta skiptið stóð til að flytja verkið sem sagt með sinfóníunni og því sérstaklega spennandi að sjá hvernig þetta tvennt blandast saman.

Eftirvæntingin var mikil og salurinn var þétt skipaður virðulegum borgurum og settlegum rokkurum. Sinfónían byrjaði mildilega með upphafsstefi verksins sem er þjóðlegur ómur frá liðinni tíð, mjúkur hornablástur, sérlega fallega flutt af sinfóníunni, en svo mjúklega að enn heyrðist vel í áhorfendakliðnum (enn voru menn að koma sér fyrir í sætum). Þegar ég hugsaði til þess hvað þetta yrði truflandi til lengdar kvað við sprenging - Dúndurfréttir ruddust inn með "In the Flesh" og gjörsamlega fyllti höllina af þéttum rokkhljóm (og vel það, - skyndilega virkaði hljómbotninn í höllinn mjög lítill). Andstæðurnar þarna á milli voru miklar og augljóst frá þessum upphafsmínútum að áhorfendur skyldu teknir kverkataki. Eftir það var ekkert tvínónað í flutningnum, hvert snilldarlagið á fætur öðru og gaman að sjá hvernig forsöngurinn rennur á milli þriggja liðsmanna Dúndurfrétta (einn með djúpa baritónrödd, annar með hljómmikla tenórrödd og sá þriðji með mjóa og nístandi rödd sem liggur enn hærra). Sinfónían kom einnig inn í þetta með fjölbreytilegum hætti og greinilega mikið lagt í útsetningarnar (sem voru sérstaklega unnar af utanaðkomandi aðila). Hlutverk hennar var ekki bara að fylla inn í hljóminn og elta Dúndurfréttir heldur spannaði samvinnan skalann á milli þess að sinfónían væri með laglínuna alfarið yfir í það að hún sæti til hliðar og fylgdist með Dúndurfréttum "rokka feitt" (eins og unglingarnir myndu orða það), Oftar en ekki var mikið jafnræði milli sveitanna og gaman að heyra hversu mikill metnaður lá í sinfónísku útsetningunum. Stundum var bætt við óvæntum taktslögum, hljóðfærum eða heilu köflunum. Aldrei fékk ég á tilfinninguna að útsetjarinn færi í skógarferð með inngripi sínu og fannst þetta útsett af bæði innsæi og djörfung. Í einu laginu kom barnakór meira að segja við sögu, en það var reyndar nokkuð fyrirsjáanlegt (ef menn muna enn eftir smáskífulagi plötunnar). Í heildina litið þá var útfærslan á tónlistinni ákaflega spennandi og það er mikið tilhlökkunarefni að fá að heyra þetta aftur þegar það kemur út um jólin (sem ég reikna með að verði gert eins og með aðra sambærilega tónleika sinfóníunnar undanfarin ár).

Þar sem ég hef séð Dúndurfréttir flytja verkið áður fannst mér athyglisvert að bera þennan flutning saman við þeirra eigin flutning. Þá eru þeir fáliðaðir en þekkja verkið engu að síður það vel að manni finnst ekkert vanta upp á flutninginn. Mér fannst merkilegt til þess að hugsa að þeir skuli yfir höfuð hafa gert "Veggnum" full skil einir síns liðs þegar maður horfði upp á hersinguna uppi á sviði Laugardagshallar (líklega hátt í hundrað manns). Samanburðurinn var Dúndurfréttum að mörgu leyti hliðhollur, þ.e.a.s. þeirra eigin flutningur stóðst samanburðinn fyllilega. Munurinn var aðallega sá að þau lög sem höfðu hljómað best hjá þeim áður ögn síður út í þetta skiptið. Þeir voru ekki eins frjálslegir í flutningi og slepptu sér kannski ekki eins oft auk þess sem ákaflega vandaður samhljómur raddannar skilaði sér ekki eins vel gegnum hljóðmúr sinfóníunnar. Á móti kemur að í þessum nýja flutningi stálu önnur lög senunni í staðinn. Útsetningar sinfóníunnar voru algjör snilld á köflum og samspilið á milli sveitanna hreint afbragð í mörgum laganna. Best fannst mér lögin "Comfortably Numb" og "Run Like Hell" koma út í þessu tilliti enda fóru þau gegnum talsverða yfirhalningu og urðu svipmeiri fyrir vikið. Andstæður hljómsveitanna komu vel fram í þessum lögum auk þess sem Dúndurfréttir fengu talsvert svigrúm til að spinna galið rokk. Eftir fyrra lagið var geðshræring áhorfenda svo mikil að það þurfti að gera hlé á tónleikunum. Flytjendur virtu stúkuna í dágóða stund þar sem hún reis á fætur með dynjandi lófaklappi, og samt enn var nóg eftir af tónleikunum.

Þetta var magnað. Þetta var magnað. Magnað, magnað, magnað.

mánudagur, júlí 02, 2007

Upplifun: Á bílastæði náttúrunnar

Í síðasta pósti hefði ég vel getað minnst á lífríkið allt í kring um bústaðinn, svona til að undirstrika að maður þarf oftast ekki að leita langt til að upplifa eitthvað eftirminnilegt. Þannig er að kringum bústaðinn er mólendi, tiltölulega berangurslegt en þó mishæðótt og líflegt. Fyrir vikið þrífast þar alls kyns mófuglar (lóan, spói, jaðrakan, stelkur og hrossagaukur - þar sem þeir þrír fyrstnefndu voru mest áberandi). Einnig vandi komu sína á svæðið skógarþröstur sem söng sinn einkennissöng. Ekki þurfti að ganga meira lengra en tuttugu metra út fyrir lóðina áður en varnaðarsöngurinn allt í kring fór að tifa. Spóinn og lóan stilltu sér upp og gerðu sig áberandi, sveimuðu kringum mig ótt og títt (þetta er náttúrulega varptími og ég heljarinnar boðflenna). Lóan beitti klassísku herbragði sínu tili að tæla mig burt frá hreiðrinu og þóttist vera vængbrotin (og staulaðist þannig burt fra mér). Ég lét lokkast smástund en svo fann ég hana ekki lengur, staldraði við og hélt af stað í aðra átt. Þá sýndi lóan snilldartakta og veifaði mer með vængjunum þar sem hún sat. Ég gat ekki staðist mátið og verðlaunaði dugnaðinn i Lóunni með þvi að elta hana örlítið lengra.

Ekki var nauðsynlegt að fara út úr húsi til að upplifa dramatík náttúrunnar. Rétt þegar ró var að færast yfir húsið seint um kvöld, heyrðum við óvenju aðkallandi fuglaklið. Það var mikið á seyði úti í móa beint fyrir framan stofugluggann. Birtist þá ekki refur, rauðleitur og með dökkgráa rófu, og læðupokast yfir bílastæðið og inn í varplandið. Ekkert okkar átti nú von á þessu og fylgdumst við því gaumgæfilega með. Maður gat alltaf séð hvar rebbi var niðurkominn á því hvernig fuglarnir vöppuðu í kringum hann, í passlegri fjarlægð. Nú var hann væntanlega í eggjaleit og skeytti engu um aðfarir fuglanna. Við gátum fylgst með honum alllanga stund þar til hann hvarf bak við næsta leiti. Þegar allt var fallið í ljúfa löð á ný sá ég hvar spói hélt sig upp á róluþverbita. Spóinn er stór fugl. Flott að sjá hann híma þar, öruggan, eins drungalegur og stæðilegur og krákurnar hans Hitchcock.

Ekki lét náttúran þar við sitja. Kvöldið eftir birtist skyndilega rjúpa á áðurgreindu bílastæði og byrjaði að dansa hringdans. "Ja, hérna", hugsuðum við með okkur, "bara sýning á planinu kvöld eftir kvöld!". Hamagangurinn í rjúpunni var slíkur að engu líkara en fuglinn væri að búa sig undir stríð. Líklega var þar tilhugalífi um að kenna en "hinn" fuglinn sáum við þó ekki. Þessi sami fugl (gerum við ráð fyrir) kom aftur kvöldið eftir og tók þar annan tilkomuminn hringdans áður en hann hvarf sjónum okkar fyrir fullt og allt.

Þetta gerðist allt fyrstu dagana í bústaðnum. Ef til vill var meira atgangur af svipuðu tagi á bílastæðinu næstu daga á eftir. Ef svo er urðum við að minnsta kosti ekki vör við það, enda athyglin farin að beinast að Signýju (sem glímdi við hvimleiða barkabólgu, eins og ég greindi frá síðast).

sunnudagur, júlí 01, 2007

Daglegt líf: Sumarbústaðarferð

Sumarbústaðarferðin er semsagt að baki. Við vildum ekki greina frá henni hér á blogginu fyrr en eftir á (maður veit aldrei hvenær óprúttnir sjá sér leik á borði). Við fórum í sama bústað og í fyrra (í Kiðjabergi í Grímsnesinu). Hann er í uppáhaldi hjá okkur þessi árin, bæði mjög nýtískulegur og huggulegur.

Við vorum fimm á staðnum, við fjögur úr Granaskjólinu og tengdó (sem var nauðsynleg okkur til halds og trausts og til að geta flutt allt dótið með okkur austur - enda fjögur sæti frátekin í bílnum okkar fyrirfram). Veðrið var alveg einstaklega gott, eins og ég greindi frá síðast, en því miður tókst okkur ekki að færa það okkur í nyt. Til að byrja með var ég slæmur af ofnæminu vegna þess að nýlagðar túnþökur kringum bústaðinn voru að skrælna í þurrkinum. Ég var líka með einhvern undarlegan streng úr mjóbaki og niður í annan fótinn og átti svolítið bágt með mig (ekki vanur svona löguðu). Við ályktuðum sem svo að þetti hlyti að vera afleiðing af ójöfnu álagi að undanförnu við það að gagna gólfin með Hugrúnu. Ef það væri málið fannst okkur lógískt að ég skyldi nú vappa um móana í kring og ganga þúfur út og suður. Eftir tvær kvöldstundir þar sem ég gekk á brattann upp á nærliggjandi hæðir fann ég hvernig verkurinn snarminnkaði. Ekki hefur spurst til hans síðan :-)

Um það bil þegar ég sá fram á að batna virtist Signý eitthvað slöpp. Hún varð raddlaus og fékk töluverðan hita. Þetta háði henni það sem eftir var ferðarinnar - reyndar svo mjög að við kíktum á vaktafandi lækni í bænum við heimkomu. Þar fengum við þá niðurstöðu að hún væri ekki búin að fá þetta slím í lungun (helsta áhyggjuefnið) og fengum "barkabólgu" sem sjúkdómsgreiningu. Það er víst að ganga. En veikindin settu sem sagt töluvert stórt strik í reikninginn og gerðu lítíð úr áformum okkar um að skreppa hingað og þangað á meðan við vorum fyrir austan. Hitinn bakaði sveitir í kring og við gátum lítið annað gert en halda okkur innandyra, eða skiptast á vaktinni á meðan hinir skruppu í pottinn eða sólbað.

Endurnærð komum við til baka, en samt aðeins til hálfs. Sveitin skartaði sínu fegursta og við áttum margar góðar stundir í góðra vina hópi þessa fáu daga.